08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Það er sannarlega ekki ástæðulaust að fella niður þau orð, sem talin eru í 1. brtt. minni. Ef þau standa í lögunum, er það alveg víst, að þau munu leiða af sjer mikið umstang, þar sem þau taka til svo margra, og munu margir telja sjer þar veitt rjettindi, sem enginn fótur er fyrir, og er ekki rjett að gefa mönnum tækifæri til að vekja deilur um það að ástæðulausu. Menn vita, hvílík smámunasemi kemur fram oft og tíðum, sem eykur mjög á skriffinskuna, er hæstv. fjrh. (JÞ) er svo ant um að forðast.

Jeg get ekki sjeð, að rangt sje, að bæjarstjórn hafi æðsta úrskurðarvald um útsvör bæjarbúa. Hún er sett til þess að gæta hagsmuna þeirra, er kosin af þeim, og mundi það því ekki verða þolað, ef hún gengi of langt í úrskurðum sínum. En auðvitað eru útsvör altaf álitamál og rísa jafnan deilur um þau. Hinu get jeg verið samþykkur, að utanbæjarmenn eigi kost á öðru úrskurðarvaldi.

Hæstv. fjrh. taldi fulllangt gengið í álagningu á utanbæjarmenn, en það er ekki lengra en farið hefir verið hingað til í öðrum hjeruðum um álögur á utansveitarmenn, samkvæmt sveitarstjórnarlögunum, því að eftir þeim má leggja á alla þá, sem hafa fast aðsetur í sveitinni lengur en 3 mánuði. Sjómenn þeir, sem hjeðan stunda atvinnu um vertíðina, hygg jeg að muni sleppa flestir; þeir eru ekki 3 mánuði að jafnaði. Það er óvenjulegt, að vertíð byrji jafnsnemma sem í vetur; hún nær oftast frá miðjum marsmánuði til loka, en það eru ekki nema 2 mánuðir. En aftur álít jeg, að strax beri að setja skorður við því, að menn, sem stunda alla atvinnu sína hjer í bænum og hafa stórfje að launum, geti algerlega skotið sjer undan útsvari með því að flytja rjett út fyrir bæjartakmörkin. Það er auðvitað, að útsvarsálagning á þá menn verður í samræmi við útsvör innanbæjarmanna, og ef til vill að einhverju tekið tillit til þess útsvars, sem þeir greiða annarsstaðar, og þar sem þeim er nú gefinn kostur á málskoti til yfirskattanefndar, tel jeg það alveg vorkunnarlaust að leggja þá undir útsvarsskyldu hjer. Mjer er kunnugt um, að önnur sveitarfjelög neyta ákvæða sveitarstjórnarlaganna og leggja á þá menn, sem hafa rekið þar atvinnu 3 mánuði eða lengur, og kemur það alloft fyrir, að bæjarstjórnin verður að draga frá útsvari manna vegna þess, að þeir hafa greitt annarsstaðar til sveitar

Jeg er þakklátur hæstv. fjrh. fyrir meðmæli hans með 3. brtt. minni, og er því öruggari um það, að hún muni verða samþykt.