15.02.1924
Sameinað þing: 1. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

Rannsókn kjörbréfa

Magnús Torfason:

Áður en jeg ræði um þessa kosningu, vil jeg geta þess, að jeg greiddi ekki atkv. með því að taka Eyjafjarðarkosninguna gilda. Jeg nenti ekki að rjétta einn hönd upp á móti, enda þóttist geta látið aðstöðu mína koma fram í Alþt.

Þegar búið var að telja upp atkv. á Ísafirði, hefir Haraldur Guðmundsson 439 en Sigurjón Jónsson 438 atkv. Eftir venjulegum reglum átti Haraldur að fá kjörbrjef. Að svo varð ekki, stafar af því, að ákvæðum kosningalaganna hefir ekki verið hlýtt við talninguna. Samkv. 48. gr. 2. mgr. þeirra laga ber að úrskurða um gildi hvers atkv. jafnóðum og það er tekið úr atkvæðakassanum. Þeirri reglu fylgdi jeg þau 17 ár, sem jeg var bæjarfógeti á Ísafirði. En undir eins og jeg var farinn, er hin reglan tekin, sem þó hefir reynst óheppileg, sbr. kosninguna á Seyðisfirði 1908. Jeg vil ekki líta svo á, sem þetta sje gert af ásettu ráði, og það því fremur, sem ekki verður annað sjeð en að báðir frambjóðendur hafi samþykt þessa ráðstöfun. En á því tel jeg lítinn vafa, að dómurinn hefði sennilega fallið öðruvísi, ef rjett hefði verið að farið. Þegar búið er að lesa upp síðasta seðilinn, eiga engin moð að vera eftir til að vinna úr, eins og hjer var gert.

Að því er snertir umrædd vafaatkv., þá var jeg á þeirri skoðun, að ógilda bæri þau öll. Á tveim seðlum stóð „Sigurður Jónsson“, og gátu þau atkv. vitanlega aldrei komið til mála. Á einum seðli stóð „Sigurjónsson Jónsson“. Fæ jeg engan veginn sjeð, að nokkuð sje verra að tvítaka „Sigur“ en að bæta „sson“ við nafn frambjóðandans. Að því er snertir seðilinn, sem á stóð „Herra Haraldur Guðmundsson“ þá sýnir hann það eitt, að kjósandinn hefir verið kurteis maður. En gallanir á hinum vafaseðlunum stafa af flaustri eða gáfnaskorti, og eiga því enn síður rjett á að vera teknir til greina. Fjórði seðillinn, sem Sigurjón Jónsson átti, er þannig, að auði depillinn framan við nafnið er ekki fyltur alveg út. En í 33. gr. kosningalaganna stendur skýrt: „... og stimplar alveg yfir reitinn.“ Þessi seðill átti því vafalaust að dæmast ógildur.

Þá koma tveir seðlar, sem Haraldur Guðmundsson átti. Um annan er hið sama að segja og þann seðil Sigurjóns, sem jeg síðast gat um. Auði depillinn er ekki alhulinn. Á hinum er klessa við nafn Sigurjóns, en rjettilega stimplað framan við nafn Haralds. Jeg lít líka svo á, að þessi klessa hafi átt að valda ógildingu seðilsins.

Niðurstaða mín er með öðrum orðum sú, að kosningin átti að standa óhögguð þegar síðasti seðillinn var upplesinn og Haraldur að fá kjörbrjef.

Samkv. kosningalögunum verður maður að vera mjög strangur. Þar stendur, að nægilegt sje, til þess að seðill verði ógildur, að á honum sjáist rispa eða eitthvað það, sem geti gert hann þekkjanlegan. Svo er um alla þessa seðla.

Meiri hluti kjörbrjefadeildar lítur svo á, að taka megi einn vafaseðil gildan til handa Haraldi. Þetta gerir það að verkum, að þeir verða jafnir, frambjóðendurnir, frá sjónarmiði þeirra, sem taka vilja gild einhver vafaatkv.

Þá er látið í veðri vaka, að Haraldi til framdráttar hafi einum manni, er hafði kosið utan kjörstaðar, verið leyft að kjósa upp aftur á Ísafirði.

Þegar svo hefir staðið á, að kjósandi hefir haldið, að hann hafi ónýtt atkvæðaseðilinn, hefi jeg ávalt leyft að kjósa aftur. Þetta sama hefir kjörstjórnin á Ísafirði gert hjer, og verð jeg að líta svo á, að enginn rjettur sje brotinn með því. Er engin ástæða til að ætla, að þeir menn, er sótt hafa kjörstaðinn, greiði ekki atkvæði af fúsum vilja, þar sem ekki er hægt að vita, hvernig atkv. þeirra hefir fallið. Öðru máli er að gegna um þau atkv., sem falla utan kjörstaðar, því með þau verður naumast farið svo leynilega sem æskilegt væri. Hefi jeg til dæmis heyrt af sjónarvotti, að hægt hafi verið að sjá það af þerriblöðum þeim, er notuð voru sumstaðar við kosninguna, hvernig atkv. hefðu fallið. Þess vegna hefi jeg jafnan haft það fyrir reglu að láta nota ritblý. Vil jeg leggja það til, að þetta verði gert að reglu eftirleiðis. Jeg lít því svo á, að þetta uppkosningaratkvæði Jóns Magnússonar geti ekki haft nein áhrif á rjettmæti kosningarinnar.

Þá kemur atkvæði Guðrúnar Halldórsdóttur. Kjörstjórnin ógilti það vegna þess, að það er ekki greitt undir umsjón hreppstjóra. Jeg lít eins á það og hún, að ekki geti komið til mála að taka atkv. gilt, sem ekkert yfirvaldsvottorð fylgir. Að vísu hefir síðar komið fram vottorð frá viðkomandi hreppstjóra, þess efnis, að hann hafi gefið þessum manni umboð til að annast þetta fyrir sína hönd, en sá ljóður er á, að þetta vottorð er mjög krullað. Er þar til dæmis „gaf“ skrifað ofan í „gef“ og einnig virðist dagsetningu hafa verið breytt, svo að „nóv.“ hafi verið skrifað ofan í „okt.“ Er alvitað, hve dómstólar leggja lítið upp úr slíkum vottorðum; þau falla sínum herra. Fæ jeg því ekki sjeð, að Alþingi geti með nokkru móti samþykt slíkt, og með því ónýtt rjettan úrskurð undirkjörstjórnar. Er vitanlegt, að heimakosningar eru neyðarúrræði, þótt þær fari löglega fram, en alveg óhæfar, ef svo er um hnútana búið sem hjer, að smalar hafi umsjónina á hendi. Yrði sú venja síst til þess að stemma stigu fyrir vanbrúkun kosningarrjettarins, heldur þvert á móti kenna mönnum að syndga upp á náðina.

Jeg hefi jafnan fylgt strangt fram kosningarreglunum, enda sagt, að engin sje miskunn hjá Magnúsi. Þó fór svo einu sinni, að jeg þótti ekki nógu strangur. Það var við alþingiskosningarnar í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1911. Þá tók jeg gilda 13 seðla, sem höfðu verið tvíbrotnir, en Alþingi Íslendinga ónýtti þá alla. Gerði jeg það meðal annars af því, að mjer var kunnugt um, að slíkt og annað verra hafði átt sjer stað óátalið hjer í bænum og víðar. Eftir það herti jeg á kröfunum, enda sú regla langheppilegust. Það verður að þræða hjer lagabókstafinn, því annars er óhjákvæmilegt að „vigta“ atkvæðin, og þaðan er aðeins eitt fótmál yfir í hlutdrægnina. Til samanburðar við úrskurð Alþingis á kosningunni í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1911 skal bent á, að í kosningalögunum eru engin ákvæði, sem taka það fram, að seðlarnir megi ekki vera tvíbrotnir. Þar er aðeins tekið fram, að þá megi ekki einkenna með strikum, blettum eða öðru slíku. Ennfremur er aðeins tekið fram, að yfirkjörstjórn skuli brjóta seðilinn einu sinni, og er það gert í því skyni, að atkvæðið sjáist ekki. Hitt er ekki tekið fram, að kjósandinn megi ekki tvíbrjóta hann. Annars er skakt komist að orði í 33. gr. þessara laga. Þar stendur: „.... brýtur hann (þ. e. kjósandinn) síðan seðilinn saman í sama brot.“ Þetta „brýtur“ er skakt; ætti að vera í þess stað „leggur.“

Í aðra röndina gat jeg vel unað því, að Alþingi 1912 dæmdi svo strangt, meðal annars vegna þess, að þar er um örlítið menningarpróf að ræða. Sú minsta menningarkrafa til þjóðarinnar, sem unt er að gera, er þó sú, að kjósendur geti kosið rjett. Því menningarbót kalla jeg það, þó að vísu þá minstu, sem heimtuð verður, að menn læri að kjósa rjett.

Jeg tók það fram áðan, að skilinn hefði verið eftir moðbingur og svo veitt úr honum að síðustu í hag þeim manni, sem kjörbrjefið hlaut. Jeg vil þó ekki halda því fram, að kjörstjórnin hafi hjer vísvitandi gert rangt. En þeir, sem þekkja kosningarhitann og hörkuna í Ísfirðingum, vita, hve hætt er við, að kjörstjórnin hafi, þótt ekki væri nema óafvitandi, látið hann hafa áhrif á úrskurðinn, og hann því fallið öðruvísi en ella hefði orðið.

Í 6. gr. laga nr. 50 frá 1923 stendur: „Komi það í ljós, að hlutaðeigandi kjósandi standi ekki á kjörskrá eða sje búinn að greiða atkvæði, .... leggur kjörstjórnin umslagið með atkvæðaseðlinum og fylgibrjefið aftur inn í umslagið, og kemur það þá ekki frekar til greina við kosninguna.“ Þessi ákvæði hafa nokkra þýðingu að því er snertir þá tvo kjósendur, er kusu bæði hjer og á Ísafirði, og rýra atkvæði þeirra. Ennfremur er það enn óupplýst um þessa kjósendur, hvort þeir áttu kosningarrjett hjer eða þar, og lít jeg svo á, að á meðan svo stendur sje ekki unt að samþykkja kosninguna.

Þá skal jeg enn minnast á eitt atriði, sem fram kom í kærunni, að kjörseðlanna hafi illa verið gætt í bæjarfógetaskrifstofunni. Það er ekki svo að skilja, að jeg vilji væna bæjarfógetann um neitt annað en að hann hafi ef til vill ekki verið nógu varkár. Um mig var það svo, að mjer fanst jeg aldrei vera nógu varkár í því efni. Þorði jeg að síðustu ekki annað en að hafa kjörseðlana inni í eldföstum skáp á meðan þeir voru í fórum mínum.

Þá stendur enn á kærunni, að fje hafi verið borið í kosninguna, og er þar ekki um minni menn að ræða en hjeraðslækni og póstmeistara, er þessu halda fram. Lít jeg svo á, að ekki sje hægt að ganga þegjandi framhjá jafnþungum átölum.

Að þessu öllu yfirveguðu tel jeg fullkomna ástæðu til að fresta að taka kosninguna gilda og rannsaka betur alla málavexti. Jeg vil að lokum benda á það, að sumar þær kærur, sem fram hafa komið, stafa ekki af því, að kærendur vilji fá hlutaðeigandi mönnum hegnt. Vjer erum ekki svo gerðir Íslendingar. Heldur er hitt markmiðið, að fá breytt árangri kosninganna.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar að sinni, en vil aðeins taka það fram, að aðstaða mín í málinu er samkvæm þeirri reglu, er jeg sem kjörstjóri hefi jafnan fylgt við kosningar.