26.02.1924
Efri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

29. mál, hæstiréttur

Flm. (Jón Magnússon):

Jeg þykist hafa tekið það fram, að enda þótt spara megi talsvert með því að leggja niður eða sameina embætti, þá er langt frá því, að jeg telji það einhlítt. En þrátt fyrir það er rjett að reyna að spara hvar sem er. Ef litið er til annara þjóða, þá láta þær sig skifta minna en 10 þús. kr. t. d. Jafnvel 500–1000 kr. útgjöld þykja í stærri löndunum skifta máli.

Að jeg hefi borið fram frv. þetta um að fækka dómurum í hæstarjetti, stafar af þeirri sannfæringu minni, að alstaðar þurfi að spara — og svo tel jeg ekki óviðunandi, að dómarar í rjettinum sjeu aðeins þrír, enda þótt jeg viðurkenni, að betra væri að hafa ráð á því að hafa þá fimm áfram. Ef fækka á embættum, þá vil jeg byrja ofan frá. Jeg vil t. d. hafa aðeins einn ráðherra, og til munu embætti, sem 2 menn sitja í, en þar sem einn mundi nægja. Jeg tók það fram í fyrra, að þegar jeg sæi, að mönnum væri fullkomin alvara að fækka embættum að mun, þá gæti jeg sætt mig við, að fækkað væri dómurum í hæstarjetti; en hitt þótti mjer efasamt, að rjett væri, að sú embættafækkun yrði ein gerð.

Eins og hv. 5. landsk. (JJ) tók fram, er ekki ólíklegt, að ekki líði mörg ár, þangað til er skilyrði verða fyrir því, að frv. þetta komi til framkvæmda, ef það verður að lögum.

Þá var það allathugavert, sem sami hv. þm. sagði um undirbúning embættismanna landsins.

Það er að vísu rjett, að af þeim flestum eru heimtuð ýms sjerstök skilyrði, sem þeir verða að afla sjer með löngu námi. Og enda þótt þeir fái til þess óbeinan og jafnvel beinan styrk úr ríkissjóði, þá ber hins að gæta, að það er ekki svo lítið, sem embættismannaefnin sjálf leggja í sölurnar fyrir nám sitt, og oft án nokkurrar verulegrar uppskeru. Menn eyða bestu árum sínum, frá fermingaraldri og kannske alt að þrítugu, til þess að búa sig undir embætti, sem þeir fá svo máske ekki fyr en þá löngu síðar.

Nei, því verður ekki neitað, að það er harðræði að kasta t. d. 20–30 ára gömlum embættismanni, sem alla tíð hefir unnið fyrir litlu kaupi, út á klakann. Annars er óþarfi að ræða þessa hlið málsins nú. Menn munu alment sammála um, að best væri, að allir hefðu tryggingu fyrir því, að þeir fengju einhvern styrk á elliárum, sínum.