17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

29. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (SE):

Jeg sje, að hv. nefnd, sem og rjett var, hefir lagt þetta mál undir dóm hæstarjettar sjálfs, og er hann, eins og sjest í nál., mótfallinn breytingu á tölu dómaranna. Vil jeg leyfa mjer í þessu sambandi að minna hv. deildarmenn á það, hvernig ástatt var hjer í þessu efni, er æðsti dómstóll landsins var í Danmörku. Þá var hjer, eins og mönnum er kunnugt, æðsti dómur innanlands yfirdómurinn, er 3 dómendur sátu. Kostnaður við það, að hæstirjettur fluttist inn í landið, varð því ekki mikill, þar sem aðeins bættust við 2 dómendur og svo ritarinn. Og hvað launahækkun þessara dómara snertir, þá mun hún ekki meiri en hún hefði orðið, ef yfirdómurinn hefði haldið áfram. Það er því ómögulegt að segja, að það hafi orðið þjóðinni mikill kostnaðarauki, að hæstirjettur fluttist inn í landið. Það hafði um langt skeið verið ósk þjóðarinnar að fá þennan æðsta dómstól inn í landið, og um leið mun sú ósk hafa verið ríkjandi með öllum góðum og gætnum mönnum, að sem best yrði og traustast um þessa stofnun búið, bæði að mannvali og fyrirkomulagi, sjerstaklega þar eð miðstigið var lagt niður. Finst mjer því kenna nokkurrar fljótfærni í því að koma fram með frv. sem þetta, er gengur í þá átt að fækka tölu dómenda þessa dómstóls og gera þar með tilraun til þess að veikja traust þjóðarinnar á honum. Skal jeg leyfa mjer, með samþykki hæstv. forseta, að lesa upp álit dómstólsins sjálfs um þetta atriði. Hann segir: — „Út á við mundi þessi fækkun dómendanna hafa þau áhrif að rýra álit rjettarins og veikja traust almennings á honum. Mundu þá þau verðmæti tapast, er vissulega vega meira en upp á móti krónusparnaði þeim, er á að vinnast með frumvarpinu. —“

Geri jeg ráð fyrir, að hv. deild og Alþingi láti ekki jafnsterk orð hæstarjettar sjálfs sem vind um eyrun þjóta, en taki tillit til þess, sem dómendurnir sjálfir segja um þetta atriði. Hv. Alþingi hefir tekið mörg ummæli til greina, sem minni þungi hefir hvílt á. Ennfremur er ekki úr vegi að benda á þá veiklun á málstaðnum, sem kemur fram í því, að hv. nefnd viðunkennir það, að æskilegra hefði verið að þurfa ekki að fækka dómendum í rjettinum. Og ennfremur segir meiri hl. nefndarinnar, að æskilegt væri, að til væri miðstigsdómur fyrir mál, er áfrýjað er frá hjeraðsdómi, sjerstaklega utan Reykjavíkur. En jeg vildi aðeins leyfa mjer að benda hv. deild á það, að ef meiningin er sú, að stofna eigi miðstig þá og þegar, þá er sparnaðurinn við frv. orðinn æðilítill. Hv. nefnd gerir ráð fyrir því, að lög þessi komi til framkvæmda er sæti fasts dómara losnar næst í hæstarjetti. En hvernig fer þá með það bráðabirgðaástand, sem nú ríkir í rjettinum? Eins og menn vita, er nú einn maður settur til þess að gegna þar dómarastörfum í bili. En ef fleiri ár líða án þess að sæti losni, — á þá að hafa allan þann tíma settan mann í dómarasætinu? Er jeg hissa á því, að þetta skuli koma frá hv. 4. landsk., sem er nákunnugur þessu máli og er auk þess gamall og góður dómari. Nú skulu menn hugsa sjer þann möguleika, að núverandi justitiarius, vegna frv., óskaði að draga sig í hlje. Hann getur það hvenær sem hann vill og á samkvæmt stjórnarskránni rjett til 10 þús. króna árlegra eftirlauna — sem sje fullra launa. Hvað er þá orðið um allan sparnaðinn af frv.! Með öðrum orðum, breyting þessi er sem sparnaðarráðstöfun í mesta máta vafasöm. Ef miðstigsdómur verður stofnaður, þá verður kostnaðurinn meiri en nú, og ef justitiarius fer frá, þá á hann rjett til fullra launa. Og við þetta bætist sá möguleiki, að hafa þurfi settan mann í einu dómarasætinu þangað til einhver dómendanna dregur sig í hlje. Þá kem jeg að því atriði, að nú má ekki lengur eftir frv. halda áfram með að skipa dómstjóra, eins og hingað til hefir tíðkast. Nú á rjetturinn að kjósa hann. Mjer verður á að spyrja: Er þetta nokkurskonar forboði um víðtækari kosningarrjett á þessu sviði! Kemur næst að því, að sýslumenn verði kosnir, og þá að sýslumenn kjósi hæstarjett? Mjer virðist þetta benda á, að nýir straumar sjeu að gera vart við sig hvað kosningarrjett snertir. Af hverju eigi að halda honum fyrir utan þetta mál. Jeg veit ekki betur en að samvinnan í rjettinum sje góð eins og skipulagið er nú. Jeg hefi ekki rannsakað erlenda löggjöf í þessu efni, en ekki lætur háttv. nefnd þess getið, að neitt slíkt kosningaskipulag eigi sjer stað í öðrum löndum. Jeg get mikið fremur ímyndað mjer, að slíkar kosningar yrðu til þess að skapa óróa í rjettinum, kosningaundirróður og annað, sem slíkt hefir oftast í för með sjer. Jeg hefi ekki vitað til þess hingað til, að neinn ófriður hafi verið í rjettinum, og því álít jeg mjög vítavert að vera að leiða hann inn með þessu frv. Jeg hefi altaf verið með því að veita kjósendum víðtækan kosningarrjett, en jeg er ákveðinn á móti því að innleiða það „princip“ á svið dómstólanna.

Ennfremur slær frv. engu föstu um kjörtímabil dómstjórans. Hv. nefnd segir, að það geti verið álitamál, hve langt það eigi að vera. Máske verður það 1. árið eitt ár og verður svo lengt seinna. Yfirleitt get jeg ekki látið hjá líða að endurtaka það, sem jeg tók fram við 1. umr. þessa máls, að mjer finst vanta hjer á þingi þetta góða, gamla íhald. Því verður ekki neitað, að það eru altaf einhverjar góðar hliðar á öllum flokkum, og eins er það með íhaldið, — það er gott, þegar það heldur í það, sem er undirstöðusteinar þjóðfjelagsins, og það er æðsti dómstóll landsins. Í öðrum löndum er ekki verið að gera miklar breytingar á slíkum stofnunum. Þar haldast víða ýmsir gamlir siðir, sem mörgum munu jafnvel finnast broslegir. En hjer er annað uppi á teningnum. Hjer er umhleypingasemin svo mikil, að menn eru altaf að breyta kjarnaatriðum þjóðfjelagsins. Hæstirjettur, háskólinn, sendiherrann, — þessum stofnunum er þinginu hugleiknast að breyta. Umhleypingasemin og afturhaldið tvímenna á báðum stóru flokkunum í þinginu, íhaldinu og framsókninni, og berja fótastokkinn fast. Jeg vænti þess fastlega, að hv. deild fallist á það, að óráð sje að leiða það í lög, að dómendur hæstarjettar kjósi dómstjórann.