17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1981 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

29. mál, hæstiréttur

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg get verið háttv. flm. frv. samdóma um það, að það sje gerlegt, úr því að hag þjóðarinnar er nú svo komið, að spara verður alt það, er spara má, án þess þó að í hættu sje stofnað menningu hennar og sjálfstæði, að fækka dómendum í hæstarjetti úr 5 niður í 3. Jeg er honum einnig samdóma um, að fækkunin sje miklu tiltækilegri en hitt, að hlaða á dómarana öðrum störfum, sem ekkert eiga skylt við dómarastarfið, eins og t. a. m. kenslu við háskólann. Jeg er og í vafa um það, að þjóðin hafi ráð á því að 5 af hennar allra færustu mönnum, eins og hæstarjettardómararnir eru, hafi ekki annan starfa opinberan á hendi en þann, að kveða upp dóma í 40–60 málum á ári. Jeg er á því, að þessi fækkun dómenda í hæstarjettinum sje tiltækileg nú, einkum af þeirri ástæðu, að jeg fæ ekki sjeð, að komist verði hjá því í náinni framtíð að breyta dómaskipun landsins, að minsta kosti að því er Reykjavík snertir, og hygg þá, að við þá breytingu muni verða sett á stofn millistig milli hjeraðsdómara utan Reykjavíkur og hæstarjettar, en að í málum hjer í Reykjavík, að minsta kosti allflestum, dæmi fleiri en einn dómari. Ástæðan til þess, að jeg hygg, að ekki verði komist hjá því að breyta dómaskipun landsins í náinni framtíð, að minsta kosti að því er Reykjavík snertir, er sú, að málafjöldinn hjer í Reykjavík hefir vaxið svo afskaplega síðan 1920, að ef vöxturinn heldur áfram, verður það einum manni ofvaxið að hafa á hendi dómarastörf í þessum bæ, auk hinna annara mörgu og þýðingar miklu starfa, sem á bæjarfógetanum hvíla sem skiftaráðanda, fógeta, uppboðshaldara, yfirfjárráðanda, svo að jeg nefni aðeins hið helsta.

Fram til 1920 var tala þeirra dóma, sem kveðnir voru upp af bæjarfógetanum í Reykjavík, kringum 200 á ári, og það ár 186. Árið 1921 varð dómafjöldinn 393, eða helmingi hærri en árið áður. Árið 1922 voru kveðnir upp 505 dómar; árið 1923 komst dómafjöldinn upp í 777. Með öðrum orðum: meira en 2½ dómur á dag, ef virkir dagar eru taldir 300 í árinu. Jeg vona nú, að allir sanngjarnir menn, sem skyn bera á slíka hluti, verði að viðurkenna, að hjer hvílir mikið og vandasamt starf á einum manni, sem auk þess hefir öðrum störfum að gegna, einkum þegar þess er gætt, að með dómum eru ekki taldir úrskurðir, sem eru þó allmargir á ári, einkum í fógetarjetti, t. a. m. um skyldu manna og stofnana til að greiða útsvör, skatta eða önnur opinber gjöld, og eru þeir oft engu vandaminni eða síður tímafrekir en dómar í eiginlegum dómsmálum.

Ef dómafjöldinn í Reykjavík fer vaxandi úr því, sem var árið 1923, og á því eru allar horfur, því að mál, sem tekin hafa verið fyrir á þessu ári, eru fleiri en um sama leyti í fyrra, þá hygg jeg, að óumflýjanlegt verði að gera aðra skipun á bæjarfógetaembættinu en nú er, og tel hana muni leiða til stofnunar miðstigs milli hjeraðsdómara utan Reykjavíkur og hæstarjettar, líkt og „Landsover-, samt Hof- og Stadsretten“ var áður í Danmörku. En jeg skal ekki nú í þessu máli fara að gera nánari grein fyrir því, hvernig jeg hugsa mjer fyrirkomulagið.

Því miður eru engar skýrslur komnar frá hagstofunni um málafjölda í landinu síðustu árin, svo að ekki verður vitað með vissu, hvort málafjöldinn hefir vaxið eins úti um land og í Reykjavík, en jeg hygg, að svo muni ekki vera, og jeg veit, að mjer er óhætt að fullyrða, að hjer eru kveðnir upp helmingi fleiri dómar á ári en á öllu landinu utan Reykjavíkur til samans. Auðvitað stendur málafjöldinn í nánu sambandi við dýrtíðina, og því von um, að hann minki aftur, er henni ljettir af. En hvenær verður það?

En mjer þykir leitt, að háttv. flm. hefir blandað inn í sparnaðarmál þetta vali forseta hæstarjettarins. Jeg er í því efni sammála hæstv. forsrh. (SE), að það mundi geta rýrt álit rjettarins, ef forseti er kosinn, en ekki skipaður fastur embættismaður. Dómstjórastaðan er ábyrgðarmikil og vandasöm, og verður dómstjóri að koma fram fyrir hönd rjettarins og dómarastjettar landsins um leið, bæði utan lands og innan. Jeg vil ekki taka þann vanda af stjórninni, sem er því samfara að skipa mann í þessa stöðu.

Við 3. gr. frv. hefi jeg ekkert að athuga, og felli mig einnig við 4. gr. Álít jeg ritarastarfann ekki svo mikið starf, að til þess þurfi óskifta starfskrafta manns. Verður þó vitanlega ætíð að gegna því starfi góður lögfræðingur. Og vænti jeg þess, að yrði ritaraembættið lagt niður, sem jeg tel vel fært, þá verði gert vel við þann mann, sem nú gegnir því, en honum ekki kastað út á klakann. Er hann alls góðs maklegur fyrir langa og góða starfsemi í þágu hins opinbera. — Jeg er einnig samþykkur ákvæðum 5. greinar. Hefi jeg því ekkert verulegt út á frv. að setja, nema ákvæðið um val dómstjóra, og vil skora á allshn. að fella niður það ákvæði úr frv.