17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1986 í B-deild Alþingistíðinda. (1435)

29. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (SE):

Jeg þykist hafa sýnt það í verkinu, að jeg hefi viljað skera niður ónauðsynleg embætti og jafnframt, að jeg hefi viljað láta embættismenn þjóðarinnar hafa nóg að gera, og nægir þar að benda á frv. það, er jeg bar fram í fyrra um fækkun sýslumanna.

Um biskupsembættið vil jeg taka það fram, að þó jeg vildi láta leggja það niður, þá átti biskupinn eftir sem áður að vera til sem andlegur forustumaður kirkjunnar, því að vígslubiskupinn í Skálholtsbiskupsdæmi átti að hafa þann starfa með höndum. Hinsvegar lagði jeg áherslu á, að þar sem veraldlegt vald biskupsins væri aðeins sem skuggi, þá mætti það hverfa með öllu. Jeg rjeðist því ekki á hið gamla og góða með tillögum mínum, því að hinn andlegi kjarni biskupsvaldsins átti að vera hinn sami og áður var. Jeg vil ekki hrófla við undirstöðuatriðum þjóðfjelagsbyggingarinnar. Meðal þeirra tel jeg hæstarjett. Borgararnir þurfa að hafa sem besta tryggingu fyrir því, að rjettlátur úrskurður falli um mál þeirra.

Jeg nefndi gömlu siðina á Englandi, hárkolluna o. fl., sem dæmi upp á það, hvað Englendingar væru fastheldnir í venjum sínum, bæði að því er hæstarjett og parlamentið snertir, en ekki af því, að jeg ætlaðist til, að farið yrði að taka þá upp hjer.

Jeg sje nú ekki annað en í nál. sje fyrirboði þess, að miðdómstig verði sett á stofn mjög bráðlega. Enda bjóst háttv. þm. Seyðf. (JóhJóh) við, að svo myndi verða. Það er því spá mín, að verði hæstarjetti breytt nú, þá muni slíkt dómstig koma á næsta ári. Þetta er vitanlega spádómur, en jeg býst fastlega við, að hann netist. Sjá þá allir sparnaðinn, sem af þessari breytingu leiðir, því að slíkt dómstig myndi kosta miklu meira en það, sem sparast við þessa breytingu á hæstarjetti.

Það má ekki villa neinum sýn, þó að dómarar í hæstarjetti sjeu fáir. Hitt er aðalatriðið, að þessir dómar hafa róttæka þýðingu fyrir borgarana. Og aðeins það, að eiga traustið og virðinguna fyrir hæstarjetti, það skiftir afarmiklu máli fyrir þjóðina.

Jeg er þakklátur hv. þm. Seyðf. fyrir það, að hann tók í sama strenginn og jeg, að ekki væri rjett að losa dómsmálaráðherrann við þá ábyrgð, sem á honum hvílir með að skipa dómstjóra, því að kosning dómstjóra myndi ekki vekja virðing fyrir rjettinum.

Jeg trúi því ekki, að hv. 4. landsk. þm. (JM) vilji láta kjósa undirdómara, og láta þá aftur kjósa hæstarjett.

Jeg tek ennþá fram, að jeg tel mjög óviðurkvæmilegt að draga æðsta dómstól landsins inn í stöðugar þingdeilur og hafa stjórnarskrána að stöðugum leiksoppi.

Með öðrum orðum, jeg vil láta sníða embættisstakk þjóðarinnar eftir getu hennar, án þess þó að veikja þá hyrningarsteina, sem þjóðskipulagið hvílir á.