26.04.1924
Neðri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

29. mál, hæstiréttur

Árni Jónsson:

Við hv. 3. þm. Reykv. (JakM) höfum til þessa mjög sjaldan fylgst að í málum, en með því að svo hefir viljað til nú, þá þykir mjer hálfundarlegt, að hann skuli fara að hnýta í okkur, sem erum honum sammála í þessu máli. Hann segir, að við eigum að láta það sjást, ef þetta sjeu ekki bara orðin tóm. — Já, við munum sjálfsagt gera það við atkvgr. Hæstv. forsrh. hefir flutt þetta fram sem sparnaðarmál, og ef hv. þm. (JakM) hefir athugað stefnuskrá flokksins, þá er sparnaðurinn þar einmitt efst á baugi. Aðgerðir hæstv. forsrh. eru því hjer fullkomlega í anda flokksins, og þótt hann vilji fara nokkru lengra í sparnaðinum á þessu sviði en sumir flokksmannanna, þá nær það auðvitað ekki nokkurri átt, að við förum að snúast á móti stjórninni fyrir það.