15.02.1924
Sameinað þing: 1. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

Rannsókn kjörbréfa

Jónas Jónason:

Jeg ætla að benda á nokkur almenn atriði viðvíkjandi heimakosningum, að því leyti er þau kynnu að hafa áhrif á eina þeirra, sem kærð hefir verið.

Fyrsti höfuðgallinn á kosningaforminu er, að það lætur atkv. þeirra manna, sem fáfróðastir eru, vera æðsta dómara í kosningunni. Vafaseðlarnir stafa frá mönnum, sem ekki kunna einu sinni að kjósa. En mjer virðist, að sú minsta krafa, sem hægt er að gera til kjósenda, sje, að þeir sjeu færir um að fylla út kjörseðilinn. Og ef einhverjir eru svo lítilsigldir, að þeir geti ekki lært þetta, þá býst jeg við, að dómur þeirra í landsmálum sje ekki heldur þess verður, að hann sje sóttur.

Nú stendur svo á með Ísafjörð, að atkv. virðast jöfn. Eitt atkv. er að vísu fram yfir hjá öðrum, en sá meiri hluti er bygður á vafaseðli, sem er óhæfur eftir gömlu kosningalögunum. Því í gömlu lögunum er það tekið fram, að þeir seðlar skuli ógildir, sem auðkendir sjeu á einhvern hátt. Það, sem hjer er því um að ræða, er þetta. Á Alþingi að taka upp þá venju að byggja kosningaúrslit á ógildum seðlum?

Þar sem ákveðnir flokkar eru, liggur jafnan á takmörkunum milli þeirra einskonar „no man’s land,“ land, sem enginn á. Það er hópur hinna skoðanalausu og gersamlega fáfróðu; það er úr hópi slíkra manna, sem vafaseðlar koma. En þessir fáfróðu, skoðanalausu menn eru ekki dómhæfir. Atkvæði þeirra eiga að vera ógild. Kosningin á að vera einskonar gáfnapróf. Þeir, sem ekki geta kosið rjett, eiga skilið að missa kosningarrjettinn.