01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

29. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (JM):

Þegar jeg talaði hjer síðast, gleymdi jeg að minnast á brtt. 443, sem nú var rætt um. 1. brtt. þarf jeg ekki að tala neitt um, en jeg verð að vera á móti hinum brtt., sjerstaklega þó 3. brtt. Jeg furða mig annars á, að þessi brtt. skuli hafa komið fram frá þeim manni, sem vill þó líklega ekki hafa þessa fækkun, en það er svo augljóst, að eftir því, sem lengur dregst framkvæmd þessara laga, kemur fækkunin og síðar og sá sparnaður, sem hún hefir í för með sjer. Það hefir ávalt verið örðug aðstaða fyrir þá menn, sem flutt hafa till. um sparnað í þessu atriði. Þetta gerir andmælendunum ljettara fyrir, sem hafa gert sjer mikinn mat úr þessari viðurkenningu Það er sagt, að það sje vandasamara að dæma hjá fámennri þjóð. Því skal að vísu ekki neitað, að slíkt geti átt sjer stað, en vitanlega verða þó málin, sem dæma þarf, miklu færri. (BJ: Þetta er „psykologiskt“ alveg rjett, að það er erfiðara að dæma í fámenni). Þetta er alt í sama „dúr“. Það getur vel verið, að einstakir erlendir menn telji minna rjettaröryggi í hæstarjetti við þessa fækkun, en jeg hygg samt, að viðskiftum okkar stafi engin hætta af því. Og ekki held jeg, að þeir fari að hætta að skifta við oss fyrir því. (BJ: Hvað segja menn erlendis um land, sem aðeins hefir tveggja daga peningaforða?). Mig minnir meira að segja, að háttv. þm. Dala. (BJ) hafi ekki tekið því fjarri eitt sinn áður að fækka um 2 dómara í hæstarjetti, en þá var á ferðinni frv. um að láta hæstarjettardómarana hafa á hendi lagakensluna í háskólanum, og það taldi hv. þm. Dala. þá verra en fækkunina. Jeg var honum þar samdóma; jeg taldi það alls ekki gerlegt. En vegna þess að nú þurfum við svo mjög við aukins sparnaðar á öllum sviðum, þá tel jeg þetta líka vera gerlegt. Jeg viðurkenni að vísu, að hjer er teflt á fremsta hlunn og að ekki má fækka mönnum í rjettinum svo, að færri verði þeir en sæti áttu áður í yfirrjettinum.