26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg mun nú verða stuttorður og ekki gefa tilefni til andmæla.

Mjer virtist, að okkur hæstv. fjrh. (JÞ) koma saman um það, að sami grundvöllur væri raunar fyrir skattálagningu í ríkissjóð og bæjarsjóði. Þó þeim gangi máske innheimtan ver, þá sannar það ekki annað en það, að það hefir vantað mann til að framkvæma innheimtuna. Með öðrum orðum: Það er vanrækslu bæjarins að kenna, ef ver gengur með innheimtuna en vera ætti.

Þá get jeg ekki gengið inn á það, að það sje rangt að setja það skilyrði fyrir fjárveitingu, að fje sje veitt á móti úr bæjarsjóði. Með þessu er bænum engin skylda lögð á herðar. Fjárveitingin kemur bara ekki til framkvæmda, ef bærinn sjer sjer ekki fært að styrkja fyrirtækið. — Hæstv. fjrh. mintist á Fiskifjelagið. Jeg skal játa, að jeg er því ekki nægilega kunnugur og get tekið staðhæfingar hans trúanlegar. En jeg hefi álitið störf fjelagsins góð, og við höfum í nefndinni að minsta kosti einn mann, sem þessum fjelagsskap er einkar kunnugur, og hann lagði mikla áherslu á það, að hlúð yrði að fjelaginu. Jeg vil ekki gera upp á milli þessa fjelagsskapar og Búnaðarfjelagsins. Hæstv. fjrh. talaði einnig um Búnaðarfjelagið og bar saman störf þess fyr og nú. Jeg skal játa það, að jeg hefi verið á móti sumum framkvæmdum þess, eins og t. d. ýmiskonar nýrækt kringum Reykjavík, svo sem ræktun Víðisins. En jeg tel líka þennan þátt fjelagsstarfseminnar tiltölulega lítinn og aðeins sem tilraun, er ekki verður gengið lengra í að sinni. En jeg hika ekki við að halda því fram, að starfið hafi í heild sinni verið til mikilla gagnsmuna. Því, sem hæstv. fjrh. beindi persónulega til mín, skal jeg engu svara. Jeg mun aldrei hika við að segja honum minn fulla hug, en læt hann ráða meiningum til mín.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) fór allmikið út í ýms atriði og talaði af miklum sannfæringarþunga og alvöru. Skal jeg nokkru af því svara. Hann mintist á skólagjöldin og sagði, að nefndin hefði tekið þá skóla, sem síst skyldi. Um það ætla jeg ekki að deila, en þetta er orðið í flestum eða öllum skólum, og þrengir því ekki frekar að námsmönnum við einn en annan. En hitt er víst, að við höfum átt marga menn, sem hafa siglt í skipbrot lærdómi sínum, án þess það hafi verið fyrir aðþrengdar kringumstæður, og aldrei vísara, að sá, sem nægilegt fje hefir, nái frekar embættisprófi en sá fjárvana, nema síður sje. Við því verður aldrei sjeð með neinni lagasetningu. Annars er ekki gott að segja, hvar lendir með alt þetta skólagengna fólk, sem jeg held að þegar sje orðið of mikið af. Tel jeg því, að þær ráðstafanir sjeu hollar, sem miða að því að hefta hinn mikla straum að skólunum. Enda eru líka margir mentamenn þjóðarinnar komnir á þá skoðun.

Sami háttv. þm. mintist á ýmsa aðra liði, og þar á meðal tillöguna um að fella niður styrkinn til Helga Jónssonar. En haldi hv. þm., að það sje sama og frestun á ræktun landsins að stöðva greiðslu á styrk þessum um tíma, þá er það mesti misskilningur. Því að jeg veit ekki til, að rannsóknir hans hnígi sjerstaklega að gróðri landsins, heldur aðallega að sjávargróðri og að hann hafi skrifað talsvert um það mál.

Á veðurathuganastyrkinn mintist hann sömuleiðis. Því hefi jeg áður svarað, og kom ekkert nýtt fram hjá honum í því máli.

Þá er styrkurinn til kaupa á listaverkum feldur niður. Og það er satt, að stjórnin er búin að taka í sínar hendur úthlutun á styrknum til lista- og vísindamanna, og hefir á árinu 1923 úthlutað 9 málurum af honum, en nú 10 á þessu ári. Virðist því ekki ástæða til að vera að leggja fje af ríkissjóði til þess að kaupa málverk þeirra.

Þá talaði hv. þm. um, að ekki hefði verið rjett að fella niður styrkinn til alþýðufræðslu Stúdentafjelagsins. En þar sem það hefir verið upplýst, að fje þetta gangi vanalega illa út, virtist nefndinni ekki ástæða til að vera að halda því í fjárlögum lengur.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) vil jeg segja það, út af því, að hann var að bera saman styrkinn til Þórbergs Þórðarsonar og tilraunastarfsemi Búnaðarfjelags Íslands, að slíkt er ekki sambærilegt. Væri hin margháttaða tilraunastarfsemi Búnaðarfjelags Íslands stöðvuð, yrði að taka margt af því upp af nýju síðar, en engu því er til að dreifa hvað þennan styrk snertir.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) þarf jeg ekki að svara, því að hann stendur einn á bryggjunni, nema ef hann fær háttv. 2. þm. Rang. (KlJ) með sjer, og kynni jeg best við að sjá þá þar saman.

Að síðustu skal jeg láta þess getið, að jeg mun ekki nota hinn sjerstaka rjett minn til að svara aftur, þó að mjer verði svarað nú, og læt jeg þetta því nægja, ef það kynni að geta stytt umræðurnar.