05.04.1924
Neðri deild: 43. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2116 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Magnús Jónsson:

Hæstv. fjrh. hefir þrætt svo nákvæmlega það, sem jeg ætlaði að segja, og að vísu miklu betur og vandlegar en jeg hefði getað gert, að jeg hef fáu við að bæta. Jeg ætlaði að andmæla því, sem hv. frsm. sagði um álit Reykvíkinga á landbúnaðinum og þau óvirðulegu orð um hann, sem hann kvaðst heyrt hafa. Það er nú eftir því, sem gengur og gerist, að þegar vjer Reykvíkingar komum í sveit, þá heyrum vjer hitt og þetta hrjóta af vörum um Reykvíkinga og tökum það nærri oss eftir því, hve góðir menn það mæla og hvernig vjer metum álit þeirra. Slíkt skeður oft á sæ, og munu þeir menn líka vera til hjer í bæ, sem tala misjafnlega um landbúnaðinn. En hvernig ætti að mega komast hjá því í öllum þessum mannfjölda? Jeg tel, að enginn þingmaður geri landbúnaðinum gagn með því að draga þetta fram eða ala á þessum ríg. Hjer í þingsalnum heyrist sjaldan orð í þessa átt frá oss Reykvíkingum, en ekki er örgrant um, að ósjaldan hafi andað kalt til kaupstaðabúa í þingræðum. Vona jeg, að þeir leiði hjá sjer að svara á sama tón.

Jeg verð að segja, að mjer þótti miður þegar jeg sá, að hv. landbn. hafði einróma fallist á frv., þótt með nokkrum breytingum væri. Það er enginn vafi á því, eins og háttv. frsm. tók fram, að Alþingi hefir fult vald til þess að gera hitt og þetta við bankann. Alþingi hefir mikið vald, og eru varla takmörk fyrir því í svipinn, hvað það getur gert. Það getur sett mönnum reglur um það, hvernig þeir skuli haga sjer, og ákveðið þyngstu viðurlög; það getur sóað fje ríkissjóðs og lagt óbærilegar álögur á landsmenn. Það getur einnig farið með Landsbankann eftir vild. En einmitt vegna þess, hve mikið vald er gefið þessari stofnun, verður hún að gæta þess að beita því vel. Það er ekkert athugavert, þótt einstakir þingmenn, sem hafa sjerstakan áhuga á einhverju máli, flytji tillögur, sem beita hátt í sjerstaka átt, en meira er vert um hitt, að sá hreinsunareldur, sem hvert mál þarf að fara í gegnum hjer í þinginu, nefndirnar, skíri málin, að nefndirnar íhugi þau vandlega.

Mjer þótti því miður, að hv. landbn. skyldi geta fallist á slíka íhlutun um stjórn Landsbankans. Af öllum stofnunum, sem varasamt getur verið að gera frumhlaup að, eru bankastofnanir viðkvæmastar. Það liggur í þeirra eðli; þær eru eins og nákvæm vísindaleg verkfæri, sjálfritar, er finna hverja minstu breytingu. Bankar eru viðkvæmustu mælingaverkfæri í viðskiftum í öllum heimi, og sje eitthvað ógætilega að þeim farið, getur orðið úr því ólæknandi mein. Jeg skal ekki draga stórar ályktanir, en jeg get ímyndað mjer, að það gæti haft illar afleiðingar, ef sá pati kæmi til eyrna þeirra, sem bankinn verður jafnan að eiga mikið undir, að stjórnmálaflokkar noti bankann í þágu þeirra málefna, sem þeir berjast sjerstaklega fyrir, í óhag bankanum sjálfum. Á einu þingi geta landbændur ráðið, á öðru sjávarútvegsmenn, og á því þriðja geta jafnaðarmenn verið komnir í meiri hluta, og gætu þá til skiftis notað bankann til að framkvæma áhugamál þeirra, án tillits til hagsmuna bankans sjálfs. Og hvað sem því líður, hvort þetta, sem hjer er farið fram á, er framkvæmanlegt fyrir bankann án mikils fjártjóns, er Alþingi vissulega að fara inn á þá braut gagnvart bankanum, sem það ætti ekki að gera. Það er með þessu að setja honum takmörk, sem hann má ekki fara út fyrir. Jeg mun því ekki geta fylgt frv., og ekki heldur með brtt. hv. landbn., þó að jeg viðurkenni fúslega, að æskilegt væri að bæta úr þörf landbúnaðarins á hentugum lánum.