16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2217 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

109. mál, skattgreiðslu hf Eimskipafélags Íslands

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Því er ekki að leyna, að með frv. á þskj. 230 er gengið inn á nokkuð nýja braut, þar sem farið er fram á að undanþiggja fjelag, sem er einstakra manna eign, útsvars- og skattskyldu. Það er dálítið hæpið að gera þetta, þó að svo standi á sem hjer, að mikill hluti landsmanna hafi lagt fje í fyrirtækið. Nefndin hefir fengið allítarlegt mótmælaskjal frá borgarstjóra, þar sem sýnt er fram á, að mjög sanngjarnlega hefir verið farið í það undanfarin ár að leggja á fjelagið. Það þarf engan að furða, þó að útsvar Eimskipafjelagsins sje nokkuð stór fjárhæð, því að þess er að gæta, að gróði þess hefir verið æðimikill, og er ekki nema eðlilegt, að það leggi fram nokkuð af honum til opinberra þarfa, eins og önnur fjelög og einstakir menn. Jeg vil taka það fram sem mína skoðun, en hefi ekki borið það undir hv. meðnefndarmann minn í minni hl., að jeg álít öðru máli skifta um stofnanir ríkisins sjálfs, og verður þetta frv. því ekki borið saman við frv. það um útsvarsskyldu ríkisstofnana, sem nýlega var afgreitt hjeðan frá hv. deild.

Það, sem hv. frsm. meiri hl. (BSt) sagði um óskabarn þjóðarinnar, getur rjett verið. Allir vilja fjelaginu vel, en velvildin kemur mest fram í því, að þeir, sem ráða mestu um flutninga til landsins og frá því, nota ekki skip þess eins vel og skyldi, og því er komið fyrir fjelaginu sem komið er.

Þó að menn úti um alt land eigi hluti í fjelaginu, þá er það ekkert einsdæmi, því að svo er um mörg fjelög önnur. Næsta skrefið verður þá, að togarafjelög, sem menn úti um land eiga hluti í, og þau eru ekki fá, verða undanþegin útsvari. Það var því eðlilegt, að í nefndinni kæmu fram mótmæli gegn því að leysa fjelagið undan skattgreiðslu til bæjarsjóðs Reykjavíkur. Þingið er sjálfrátt um það, ef það vill gefa Eimskipafjelagi Íslands upp skattinn til ríkissjóðs, því að þar er það fullkominn aðili. En til þess að rýra tekjur Reykjavíkurbæjar á þennan hátt hefir þingið að vísu formlega heimild, en það er tæplega rjett eða sæmandi.

Ef þingið álítur þetta fjelag svo góðs maklegt, þá á það að veita því styrk af sínu fje, en ekki annara, sem engu betur eru staddir. Það hefir verið sagt, að Eimskipafjelagið skuldi mikið erlendis og eigi erfitt með þau lán. En jeg verð þá að halda því fram, að bærinn skuldi talsvert meira, og væri því ranglátt að ætla honum að hlaupa undir bagga með fjelaginu. Auk þess fær Eimskipafjelagið, eins og bent er á í brjefi borgarstjórans, talsvert af tekjum sínum í erlendri mynt, en það fær Reykjavíkurbær ekki, og tapar hann því á lággenginu, sem er aftur á móti gróði, eða að minsta kosti ekki tap, fyrir fjelagið. Það er því sýnt, að bærinn stendur talsvert ver að vígi gagnvart erlendum lánardrotnum sínum en Eimskipafjelagið, og kemur þessi röksemd — um erlendu skuldirnar — því til að verka öfugt.

Hv. meiri hl. allshn. vildi miðla málum hjer og fara milliveginn, en jeg gat ekki heldur fallist á það. Hætt er líka við, að ef inn á þessa braut yrði farið á annað borð, þá myndu fleiri koma á eftir.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að meiri hl. nefndarinnar hefði ekki viljað láta þetta ná til þessa árs, heldur þess næsta, sökum þess að búið væri að leggja á Eimskipafjelagið í ár. Það mun vera rjett hjá hv. frsm., að búið sje að leggja á fjelagið fyrir þetta ár, því jeg hefi einmitt á þessu augnabliki fengið það staðfest af manni, sem kunnugt ætti að vera um það.

Í nál. minni hl. og brjefi því, sem þar er prentað, eru teknar greinilega fram ástæðurnar gegn þessu frv. Hefir háttv. frsm. meiri hl. ekki tekist að hrekja þær eða koma fram með neitt, sem rjettlætt geti, að ríkið fari hjer að seilast inn á svið, sem það í rauninni hefir ekkert leyfi til. Ef ríkið vill hjálpa fjelaginu, þá verður það að gera það úr sjálfs sín sjóði, en ekki annara. Þetta væri líka að taka lamb fátæka mannsins til þess að sýna örlæti ríka mannsins. Jeg álít, að Eimskipafjelagið standi alls ekkert ver að vígi en Reykjavíkurbær.

Það hefir löngum verið viðkvæðið, að vel yrði að gera við þetta fjelag sökum þess, að það ætti svo mikil ítök hjá þjóðinni. Jeg verð nú að segja það frá sjálfs mín brjósti, að hvað sem ítökunum líður, þá er hitt víst, að umráð þjóðarinnar yfir þessu fjelagi eru ekki svo ýkjamikil. Öll ráðin eru í höndum aðeins sárfárra manna, og eru það fáeinir Reykvíkingar, sem mest eiga í fjelaginu. — ítök þjóðarinnar og yfirráð eru því engin ástæða til að undanþiggja það sköttum.

Það er því eindregin till. okkar minni hl. nefndarinnar, að hv. deild felli þetta frv. Reynsla undanfarinna ára hefir sýnt, að það hefir í engu verið gengið á hlut þessa fjelags. Það hefir verið lagt mjög hæfilega á það og ekki lengra gengið í álagningunni en hjá öðrum fjelögum og einstökum mönnum. Ef tekjur fjelagsins minka svo nokkru nemur, þá verður og sjálfsagt dregið úr álagningunni.

Eins og jeg tók fram áðan, þá stendur fjelagið betur hvað snertir erlendar skuldir heldur en Reykjavík, og er frá því sjónarmiði síst ástæða til að halla á bæinn.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Það hafa ennþá engin rök komið fram, sem mæli með því, að rjett sje að svifta Reykjavík þessum tekjustofni, og þau munu varla koma fram hjer eftir.