11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

130. mál, útsvarsálagning erlendra vátryggingafélaga

Frsm. (Magnús Jónsson):

Þetta frv. er fram komið af þeirri ástæðu, að ekki hefir þótt sanngjarnt nje tilhlýðilegt, að innlend vátryggingarfjelög beri allhá útsvör til bæjarsjóðs, en erlend vátryggingarfjelög og líftryggingarstofnanir, sem hjer starfa og hafa hjer umboðsmenn, greiða ekki útsvar og reka þó mikla starfsemi hjer og hafa þar af miklar tekjur. Það er aðeins hægt að ná í umboðsmenn þessara fjelaga og leggja á tekjur þeirra og laun, en eins og nú er, er ekki hægt að ná til sjálfra fjelaganna.

Jeg held, að ekki þurfi að orðlengja um málið á þessu stigi. Hjer eru 20–30 fjelög, sem undir þessi ákvæði falla, og geta það orðið dálitlar tekjur og rjettmætar fyrir bæinn. Jeg vonast eftir því fyrir hönd allshn., sem flutt hefir málið og athugað það, að hv. deild láti það ganga til 2. umr., og svo áfram.