15.02.1924
Sameinað þing: 1. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

Rannsókn kjörbréfa

Jón Baldvinsson:

Jeg ætla að víkja að því, sem hv. frsm. 3. kjörbrjefadeildar sagði í ræðu sinni áðan, að atkv. greidd á tveimur stöðum væru gild, og vitnaði hann í 32. gr. kosningalaganna, sem hann skilur þann veginn, að eigi megi meina manni að kjósa, ef hann er á kjörskrá. Þar er því að svara, að þetta er misskilningur. Þessi ákvæði kosningalaganna eiga við það, sem almennast er, að menn kjósi á kjörstað í sínu kjördæmi, en eigi utan þess, og má þá eigi varna mönnum, sem eru á kjörskrá, að greiða atkvæði sitt. Aftur eru sjerstök ákvæði um þá, sem greiða atkvæði utan kjördæmis síns, og ef þeir eru á kjörskrá á tveim stöðum, ákveða þeir sjálfir, hvar þeir greiða atkv., og er þá þessi röksemd hv. frsm. 3. kjörbrjefadeildar að litlu orðin. Tvímælalaust eiga þessi 4 atkv. að vera ógild og valda ógildingu Ísafjarðarkosningarinnar, þar eð þau hafa ráðið úrslitum. Hinsvegar átel jeg ekki kjörstjórnina fyrir að taka þessi atkv. gild, er hún vissi ekki betur. En Alþingi veit nú betur, og það á því að ógilda kosninguna. Jeg vil í þessu sambandi minnast á þrjá kjósendur, sem jeg vissi um og voru á kjörskrá bæði hjer og á Ísafirði. Biðu þeir þar til seint um kveldið hjer í Reykjavík, þar til þeir vissu, að atkvæði þeirra höfðu verið tekin gild á Ísafirði. Ætluðu þeir ekki að kjósa hjer, nema ef atkv. þeirra vestra væru ógild. Þetta er rjett og gagnstœtt því, sem hinir gerðu. Þeir fóru í kringum lögin og brjáluðu kosninguna. Hv. frsm. (JAJ) fór út í upplestur gildra atkvæðaseðla. Jeg fór yfir þá líka, og jeg verð að segja, að jeg sá galla á seðlum, sem Sigurjón var á kosinn, smávegis galla, krot í nafnið, stafsetningarvillur o. fl. Þessir gallar geri jeg ekki ráð fyrir, að mundu hafa verið látnir varða ógildingu. Þá var það víst ekki annað, sem hv. frsm. hafði fram að bera. Atkvæði Guðrúnar Halldórsdóttur er og var í alla staði ólöglegt. Sá, sem vottar skriflega kosningu hennar, hafði eigi löglegt umboð til þess, ekki einu sinni frá hreppstjóra. Vottorð hreppstjóra, sem nú er fram komið, virðist hafa verið pantað eftir á, til þess að gera löglegt það, sem var ólöglegt og er enn ólöglegt og á að ógildast hjer. Jeg skildi þannig vörn hv. þm. V.-Sk. er hann bar blak af kjörbrjefadeildinni, að hún hafi farið allmiklu lengra en lög leyfa og raskað leynd þeirri, sem á að vera samkv. kosningalögum, að því er atkv. þeirra Jóns Magnússonar og Guðrúnar Halldórsdóttur snertir. Hv. þm. V.-Sk. var að afsaka kjörbrjefadeildina fyrir þessi afglöp með því, að ekki hefði verið hægt að rannsaka, hvort atkv. væru gild, nema með því að opna umslögin. En kjörbrjefadeildin átti einmitt að rannsaka skjöl og fylgibrjef þessara atkvæða (JóhJóh: Það var og gert.), en hafði alls enga heimild til þess að opna atkvæðaumslögin sjálf.

Þá sagði hv. sessunautur minn, þm. V. Sk. (JK), að venja Alþingis hefði verið sú, að halda eigi fast í formið, heldur eingöngu taka tillit til þess, sem sjá mætti, að verið hefði vilji kjósenda. Þetta er eigi rjett. Þingið hefir einmitt haldið í formið, haldið sjer að bókstaf laganna; nægir þar að benda á meðferð Alþingis á Seyðisfjarðarkosningunni 1909 og á kosningunni í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1912, er smávægilegir gallar voru látnir ráða úrslitum, t. d. er seðlar voru brotnir á annan veg en í lögunum stóð. Það er því sýnt og sannað, að þingið heldur sjer fast við formsatriðin, enda mundi alt annars lenda í ógöngum. Kjörstjórn Ísafjarðar lagði út á hættulega braut, er hún fór að taka upp gallaða seðla og löggilda þá.

Þá man jeg eigi, hvort minst hefir verið á það áður, um skriflegt atkvæði Jóns Magnússonar, sem sagðist hafa ónýtt seðil sinn og leyft að kjósa aftur. Háttv. frsm. kjörbrjefadeildar segir þetta sje rangt, seðillinn hafi ekki verið ónýtur. Hvernig getur hann fullyrt þetta? Þó að nafn Sigurjóns stæði á þessum seðli, gat kjósanda snúist hugur, og síðar viljað hafa þar nafn hins frambjóðandans. Svo er og hugsanlegt, að einhver hafi fylgt þessum manni eftir til kosningar og til dæmis hótað honum atvinnumissi, ef hann eigi kysi einhvern ákveðinn. (JAJ: Vænir þingmaðurinn skrifstofuna hjer um slíkt?) Það er ekki hægt að kjósa hjer í skrifstofu bæjarfógeta svo ekki sjáist, og allir vita, að hjer hefir ekki verið sú leynd á kosningum sem til er ætlast í lögunum.

Þá hefir verið talað um fjárburð eða með öðrum orðum mútur í kærunni, og er þar ástæða fyrir þingið til að láta fram fara rannsókn á því atriði. Er og sjálfsagt, að þingið taki tillit til þess, og auk þess er ástœða fyrir þingið að taka og tillit til þess, að vestanlands fylgja atvinnuráðendur mjög fram Sigurjóni og er altalað, að fast hafi þar verið aðgengið að greiða honum fylgið og allfreklega í hótunum haft um atvinnumissi og fleira. (JAJ: Þetta stendur ekki í kærunni). Það er satt, en jeg hefi sjeð plögg, vottorð o. fl., en sem menn eigi vilja leggja fram fyr en þingið hefir fyrirskipað rannsókn um mútubrigslin, sem bæði hafa birst í opinberu blaði og vikið er að í kærunni. Í slíku atvinnuleysi, sem nú er, er það ekki gaman fyrir fátæka menn og atvinnuþurfa að láta uppi aðra skoðun en atvinnurekendur vilja vera láta, og væri það rannsóknarefni, hvort ekki hafi í þessari kosningu verið beitt þeim vopnum að hóta mönnum atvinnumissi, ef þeir kysu ekki eins og atvinnurekendur vildu vera láta. Það eru ef til vill eigi svo fáir, sem af pólitískum ástæðum hafa verið settir á svartann lista hjá atvinnurekendum bæði hjer í Reykjavík og vafalaust eigi síður á Ísafirði. Þekki jeg þess nokkur dæmi.

Þá er enn eitt, sem ekki hefir áður verið minst á, og það er varsla atkvæða hjá bæjarfógeta á Ísafirði, sem er alvarlegt atriði í kærunni, og eigi síst fyrir það, að fulltrúi bæjarfógeta var einn helsti fylgismaður Sigurjóns, og segja kunnugir, að hann hafi verið jöfnum höndum í skrifstofu bæjarfógeta og Sigurjóns. Hann er nú orðinn starfsmaður Íslandsbanka á Ísafirði.

Jeg get því ekki betur sjeð en að það sje að minsta kosti full ástæða fyrir hið háa Alþingi að fresta úrslitum þessa máls, svo hægt verði að taka það til frekari rannsóknar. Svo margt og misjafnt hefir verið rætt um þessa kosningu meðal almennings, að ekki er vítalaust að láta hana ná fram að ganga að órannsökuðu máli. Mjer dettur í þessu sambandi í hug saga, sem sögð er af einum fylgismanni þess flokks, sem Sigurjón Jónsson tilheyrir. Hann var fróður um marga hluti, sem gerðust í skrifstofu bæjarfógetans á Ísafirði, og meðal annars er þetta haft eftir honum: „Já, þrjóturinn hann N. N. er ljóti svikarinn. Þau kusu öll Harald, en það er nú búið að laga.“ Og það eru fleiri sögur á borð við þessa, sem heyrst hafa um þessa kosningu.

En nú víkur því svo undarlega við, að það er eins og háttv. þm. vilji sem allra minst um þetta ræða, en lofa atkv. að skera úr um það sem fyrst. Þeim, sem voru staddir hjer í gærkveldi, mun þó ekki koma þetta á óvart. Það gat varla hjá því farið, að eitthvað væri á seyði. Flokksforingjarnir í kjörbrjefadeildunum voru að hnippa hver í annan og pukra um eitthvað í börnunum. Og það er sagt að hinn svokallaði burgeisaflokkur og Framsókn hafi haft hrossakaup um samþykt kosningarinnar í Eyjafirði og samþykt kosningarinnar á Ísafirði. Jeg segi ekki, að þetta hafi verið svo, en einhvernveginn fanst manni það liggja í loftinu. Jeg vil heldur ekki trúa því, að meiri hluti hins háa Alþingis hallist að því að taka þessa kosningu gilda, þrátt fyrir öll gögn og þvert ofan í allar röksemdir. En fari svo, á móti von minni, þá mætti vel segja um þann meiri hluta eins og sagt var um ólánsmanninn: ,,ill var þín fyrsta ganga — en þó mun verst hin síðasta.“