07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2290 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Þótt nefndin hafi klofnað um mál þetta, er sá klofningur þó ekki svo stór, sem við hefði mátt búast. Hjer er í rauninni um grundvallarspursmál, „princip“-atriði, að ræða, og hefði mátt ætla, að nefndin hefði klofnað um það. Svo er þó eiginlega ekki. Frv. er sem sje bygt á því, að verslunarfyrirtæki ríkisins sjeu alls ekki skattskyld til sveitar- og bæjarsjóða, og það af þeirri ástæðu, að þau sjeu annars eðlis en verslunarfyrirtæki einstaklinganna. Að þau fyrirtæki, sem ríkið rekur, sjeu eign almennings, og því ekki sæmilegt að skattskylda þau eins og önnur atvinnufyrirtæki. Um þetta má karpa eins lengi og menn vilja. Því að með eins miklum rökum má segja, að þegar ríkissjóður tekur þá stefnu að reka fyrirtæki, sem einstaklingarnir hafa áður rekið, og rekur þau síðan í sama tilgangi og þeir, þ. e. til þess eins að afla sjer tekna, að þá eigi hann að standa algerlega í sporum einstaklinganna og bera þeirra byrðar. Að þær tekjur geti fram einar talið rjettmætar, sem hann hefir af fyrirtækinu eftir að hann hefir greitt skatta og skyldur eins og einstaklingarnir. Og að það sje ósæmilegt, að ríkissjóður taki beint gjaldstofna bæjarfjelagsins og stingi öllum tekjunum í sinn vasa. En svo framarlega sem ríkið geldur útsvar, þá má segja, að um status quo sje að ræða; þá fær ríkið sitt, bæjarfjelagið sitt.

Við í minni hl. erum á raun rjettri þessarar skoðunar, en höfum þó beygt út af strangasta rekstri þess málstaðar, sumpart af því, að við eins og aðrir verðum nú að hlúa að ríkissjóðnum, sumpart af hinu, að þegar ríkið rekur atvinnufyrirtæki, þá er það svo mikilsmegandi, að ekki er þægilegt að leggja útsvar á það eftir sama mælikvarða sem einstaklinga. Ennfremur er það, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefir tekið svo lipurlega í þetta mál, og þar sem hún er sá aðilinn, sem ber skarðastan hlut frá borði, ef þetta frv. verður samþykt, þá virðist síður ástæða til þess að fara lengra en hún leggur til.

Bæjarstjórn Reykjavíkur virðist vægileg í till. sínum; hún leggur til, að gjaldið verði 10%, eða lækkað um 1/3, miðað við útsvar síðasta árs. Verður þá skatturinn af vín- og tóbakseinkasölunni, lauslega álitið, 60 þús. kr., í stað 90 þús. kr.

Því verður varla neitað, að þetta sje sanngjarnt, því að ef til væru hjer verslunarfyrirtæki, sem einstaklingar ættu og gæfu af sjer sannanlega 200 þús. kr. og 400 þús. kr. í hreinan ágóða, þá yrði lagt geysimikið á þau, sennilega miklu meira en lagt var á tóbaks- og víneinkasöluna. Bærinn verður nú einu sinni að afla sjer tekna með þeim hætti, sem Alþingi hefir skamtað honum tekjustofnana, og oft verður hann að leggja fremur á veltuna en gróðann. Og óhætt er að segja, að engin fyrirtæki hjer í bæ gefa neitt í þá átt eins mikið af sjer og þessi, enda er það eðlilegt, þar sem um einkasölu er að ræða, sem vitanlega veitir þeim stuðning fram yfir öll önnur fyrirtæki.

Hv. Alþingi verður og að líta á það, að þótt stundum sje svo um Reykjavík talað, að litlu skifti, hvort hún stendur eða fellur, þá má það ekki gera einstaklingum eða stórum landshlutum beinan óleik. En ekki er hægt að neita því, að nú í seinni tíð hefir hv. Alþingi verið að reita smátt og smátt ýmsa stærstu gjaldendurna frá Reykjavík. Með samvinnulöggjöfinni misti Reykjavík allverulega gjaldaupphæð, eða 1920 48 þús. kr. og 1921 38 þús. kr. Nú á að taka Eimskipafjelagið undan skattskyldu, og svo þessi fyrirtæki, sem hafa sópað í burtu hóp af verslunarfyrirtækjum, sem gáfu fje í bæjarsjóð. Við vitum, hvað bærinn hefir tapað við það, að steinolíuverslunin varð skattfrjáls. 1920 voru það 40 þús. kr., 1921 60 þús. kr., 1922 50 þús. kr.

Hvað tóbakseinkasöluna snertir, er ekki gott að nefna upphæðina, sem bærinn misti, því að margir versluðu með þær vörur ásamt fleiru, og því ekki hægt að segja, hve mikill hluti af útsvari þeirra lenti á tóbaksvörunum. Eimskipafjelagið hefir greitt 85 þús. kr., 50 þús. kr., 45 þús. kr. o. s. frv. í útsvar, svo að ef litið er á þetta, sjest, að Alþingi hefir smátt og smátt ekki rakað litlu fje frá bæjarsjóði.

Hvað áfengisverslunina snertir, þá hefir bæjarajóður einskis mist þar í, af þeirri einföldu ástæðu, að sú verslun hefir verið einokuð frá upphafi og er svo ný, að reynsla er enn ekki komin á útsvarsskyldu hennar. En ekki þarf að efast um, að vínverslun í höndum einstaklinga mundi verða einhver hæsti gjaldandinn.

Eins og nál. sýna, hefir nefndin ekki klofnað um neitt stefnuatriði. Minni hl. hefir þar fetað í fótspor bæjarstjórnar Reykjavíkur og brotið odd af oflæti sínu, svo að það, sem á milli ber, er það, hve skatturinn skuli vera hár. Þá vildi og minni hl. gera mun á þeirri ríkisverslun, sem eingöngu er rekin í gróðaskyni, eins og verslun með vín og tóbak, og á verslun, sem rekin er til hagsmuna fyrir almenning, eins og t. d. steinolíuverslunin. Af henni hefir minni hl. nefndarinnar viljað leggja til, að skatturinn væri mjög lágur.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál, en vona, að deildin sjái, að till. minni hl. sjeu svo sanngjarnar, að hún fallist á þær. Jeg þarf ekki að geta þess, að brtt. sú, er kom fram við 1. umr. og ekki vildi hafa gjaldið hærra en 2%, stendur enn fjær oss minnihlutamönnum heldur en sjálft frv. óbreytt.