05.05.1924
Neðri deild: 63. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2363 í B-deild Alþingistíðinda. (1767)

149. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Jón Baldvinsson:

Jeg get látið háttv. 1. þm. G.-K. (ÁF) vera einan um það, hvað hann telur vera sósíalisma. En benda vil jeg honum á, að hann hefir algerlega misskilið frv., ef hann heldur, að taka eigi frá mönnum gjaldeyrinn án þess að borgun komi fyrir. Auðvitað er ætlast til, að menn fái fult verð fyrir fje sitt, og er engin breyting á því gerð í mínum brtt. Þá hefir hv. þm. (ÁF) sömuleiðis algerlega misskilið brtt. mína um þagnarskyldu nefndarinnar. Mjer kom aldrei til hugar, að nefndin ætti að tilkynna „öllum skattanefndum á landinu“ um fjárhag einstakra manna. Hitt þótti mjer sanngjarnt, að nefndin væri ekki bundin í þessu efni, ef skattanefndir fyndu ástæðu til að spyrja hana. Get jeg hugsað mjer, að þeim kæmi í sumum tilfellum vel að fá vitneskju um það, hvort menn t. d. ættu stórfje erlendis eða ekki. Yfirleitt hefi jeg ekki gert neinar efnisbreytingar við frv., og hygg jeg, að öll andmæli hv. þm. gegn brtt. mínum sjeu á misskilningi bygð. Og það er alveg sami sósíalisminn, svo jeg noti orð háttv. þm. (ÁF), í frv., þótt mínar brtt. verði ekki samþyktar; þær gera það aðeins að verkum, að framkvæmdin á þessu verður eðlilegri eða mögulegri. Og fyrir mjer er auðvitað aðalatriðið það, að eitthvað, sem gagn er að, verði aðhafst í þessu efni. Það má raunar vel vera, að hv. 1. þm. G.-K. hafi flutt frv. með það fyrir augum, að ekkert yrði gert, en þá á hann heldur ekki að vera að mæla með því.