27.02.1924
Neðri deild: 9. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (1817)

31. mál, fiskveiði í landhelgi

Ásgeir Ásgeirsson:

Eins og nál. ber með sjer, er jeg þeirrar skoðunar, að fella beri þetta frv. þó hefi jeg þá sjerstöðu við aðra hv. samnefndarmenn mína, að jeg hefði fremur kosið, að frv. hefði sumpart verið víðtækara en það er. Það er ekki viðfeldið að veita Hafnfirðingum einum sjerrjettindi umfram aðra þegna ríkisins. Ef Hafnfirðingar fengju þau sjerrjettindi að hleypa inn hjá sjer 6 erlendum togurum, ættu Siglfirðingar eins rjett á að fá t. d. undanþágu fyrir 50 erlend síldarskip, Seyðfirðingar undanþágu undan skipagjaldi, Vestmannaeyingar sjerrjettindi til að flytja inn steinolíu án íhlutunar landsverslunarinnar o. s. frv. Jeg tel yfir höfuð hættulegt að fara inn á slíka sjerrjettindabraut. Ein og sömu lög eiga að gilda um land alt og allir eiga að vera jafnir fyrir þeim. Þetta frv. er fram komið vegna yfirvofandi hallæris, og ef þessi undanþága verður veitt, eiga allir aðrir íslenskir þegnar sama rjett til bjargráða, ef hallæri bæri víðar að, því allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum og allir jafnbundnir af þeim. Heppilegra væri þó að hjálpa Hafnfirðingum á þann hátt að veita stjórninni heimild, í eitt skifti fyrir öll, til þess að veita þessa eða aðrar slíkar undanþágur, vegna yfirvofandi hallæris á einhverjum stað. Þingið á eigi eins hægt með að dæma um, hvort slík neyðaróp eins og þessi eigi við rök að styðjast; fámenn stjórn á hægra um vik og er færari um að komast eftir þess háttar hlutum. Sumpart er þó frv. of víðtækt. Þó að yfirvofandi hallæri sje orsök þessarar hjálparbeiðni Hafnfirðinga, mega þeir ekki „spekulera“ í vandræðum sínum, en það kalla jeg að „spekulera“ í neyðinni, ef heimila á að bæta við Hafnfirðinga 6 erlendum togurum, við 3–3½ innlenda, sem þar eru fyrir. Eigi að bæta úr brýnni atvinnuþörf Hafnfirðinga, munu 3 togarar í viðbót nægja þeim. Það mun alment álitið, að einn togari veiti um 300 manns atvinnu. Sjö togarar alls framfleyta þá yfir 2000 manns, og það ætti að nægja Hafnfirðingum til að forða þeim frá hallæri. Hinsvegar er mjer fullkunnugt um, að ástandið er allískyggilegt í Hafnarfirði. Jeg talaði við einn af þektari borgurum þar nýlega, og sagði hann, að jeg mætti hafa það eftir sjer sem satt, að þar væri mikil vandræði meðal verkafólks, sem stöfuðu af langvarandi atvinnuleysi; fólkið yrði að lifa á lánum, og ef svo færi, að kaupmenn hættu að lána, væri sultur fyrir dyrum hjá fjölda manna — með öðrum orðum, yfirvofandi hallæri. Þessi sami maður sagði einnig, að eigi mundi líða á löngu áður en kaupmenn yrðu að kippa að sjer hendinni, — gætu ekki lánað fólki takmarkalaust. Það er því full ástæða til að eitthvað verði gert til þess að þessu ástandi linni; það er fullseint að fara að skifta sjer af slíku, þegar fólkið er fallið úr hor.

Þetta vandræðaástand stafar af því, að Hafnfirðingar hafa bygt á óheilbrigðum grundvelli að því er atvinnu þeirra snertir. En það er óheilbrigt atvinnulíf að byggja alla sína von á starfsemi erlendra manna, sem kippa að sjer hendinni óðar en varir, ef eitthvað ber út af. Nú stendur að vísu á sama, hver orsökin er. Þessu verður að kippa í lag. Það er og víðar en í Hafnarfirði, sem ástandið er ískyggilegt, og án þess að það sje útlendingum að kenna. Innlend útgerð stendur allvíða höllum fæti eða hefir algerlega brugðist, svo hallæri mun víðar fyrir dyrum en í Hafnarfirði. Má vel vera, að í ýmsum öðrum sjávarþorpum búi menn við svipaðar ástæður, þótt minna hafi kvartað. Það hefir látið hæst í Hafnfirðingum. Þeir eru og næstir Reykjavík, og það hefir þótt bera við, að þeir, sem næstir eru höfuðstaðnum, hafi best lært að kvarta. Þinginu ber jafnt skylda til að líta á hag hinna, sem þegja, þótt þeir búi við harðan kost.

En sje nú svo, að víða sje yfirvofandi hallæri, hvernig á þá ríkið að hjálpa? Jeg býst við, að ríkisstjórnin hafi ekki mörg önnur ráð fyrir hendi en að veita einhverjar undanþágur undan gildandi fiskiveiðalöggjöf, og jeg er alls eigi hræddur um, að stjórnin, þó henni væri veitt heimild til þess, mundi misbrúka hana á nokkurn hátt. Nú standa stjórnarskifti fyrir dyrum, og þó að það sitji illa á mjer að lýsa trausti á væntanlegri stjórn, ber jeg þó fult traust til hennar og hverrar stjórnar í þessum efnum. Jeg mun treysta hvaða stjórn sem er til þess að fara vel og gætilega með þessháttar heimildarlög. Á öllum stjórnum hvílir mikil ábyrgð, og verður því að treysta þeim til að fara með þessa ábyrgð sem aðra, er á þeim hvílir, svo sem að gefa út bráðabirgðalög o. s. frv. Vjer höfum hallærissjóð, sem veitt er úr, ef þörf krefur. Nú er ekki ríkari ástæða til að væna stjórn um, að hún muni ekki kunna að fara með undanþáguheimild frá gildandi fiskiveiðalöggjöf en til hins, að gruna hana um að vilja veita hallærislán til þess að kaupa fyrir pell og purpura. Jeg skal þó á engan hátt gera lítið úr rjetti þjóðarinnar til þess að ráða yfir landinu og verja landhelgina fyrir útlendingum. En þegar svo fer, að þessi rjettur verður til þess að innlendir þegnar verða að svelta — og það getur komið fyrir, að vjer verðum þessa rjettar vegna lögskyldaðir til þess að svelta — þá vil jeg heldur slá af þessum rjetti í svip. Það er og mikilsverður rjettur að mega leyfa erlendum mönnum afnot af landinu í þágu þjóðarinnar, þegar hún er í nauðum stödd og það eitt getur hjálpað. Neyðin brýtur lög og lætur oft af hendi það, sem menn annars mundu halda í. Jeg skal á engan hátt draga úr gildi fiskiveiðalöggjafarinnar frá 1922. Fiskiveiðalöggjöfin er mjög mikils verð, þó ekki sjerstaklega vegna þess, sem hátt er látið um, að hún eigi að vera varnargarður um hátt verð á fiskafurðum vorum, heldur miklu fremur vegna hins, að hún á að skapa festu í viðskiftalífinu og vernda rjett hinnar íslensku þjóðar til þess að njóta arðsins af atvinnuvegunum. Lögunum er stefnt gegn því, að Ísland verði að selstöð erlends auðskríls. Samt sem áður er jeg eigi hræddur við að gefa stjórninni þessa heimild til að veita undanþágur. Ef batinn kemur skjótt, verður heimildin ekki notuð, og það skaðar aldrei að vera viðbúinn því versta. En verði lagaheimildar þörf, þá er betur farið en heima setið. Þó mun jeg ekki bera fram frv. til slíkra heimildarlaga, þar sem það stendur öðrum nær, en komi þess háttar frv. frá hv. 1. þm. G.-K. (ÁF), mun jeg veita því mitt atfylgi.