06.03.1924
Efri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í C-deild Alþingistíðinda. (1826)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Jón Magnússon:

Jeg skal þegar taka það fram, að jeg ætla ekki að fara mikið út í einstök atriði í ræðu hv. 5. landsk. þm. (JJ), en aðeins taka það fram, að mjer er með öllu óskiljanlegt, hvernig hann getur haldið því fram, að frávikning þess kennara við mentaskólann, sem hann nefndi, hafi verið af pólitískum ástæðum, því að jeg býst við að engum núlifandi manna sje kunnugra um það en mjer. Og jeg býst líka við, að fám sje kunnugra en mjer, hver atvik lágu til stofnunar embættis hans við háskólann, og mig minnir ekki betur en háskólinn legði líka til, að það væri stofnað. (JJ: Það hefir þá verið pantað!). Já, hv. 5. landsk. þm. (JJ) veit altaf svo mikið um rökin, sem liggja til hlutanna, en þetta var nú svona samt.

En það var ekki aðallega til að gera þessar athugasemdir, að jeg kvaddi mjer hljóðs, heldur til að láta það álit mitt í ljós, að jeg tel óþarfa að vera að taka frv. það, er hjer er um að ræða, til meðferðar nú, þegar komin eru fram tvö frv. í Nd. um að leggja embætti þetta niður, og má því búast við, að þau komi hingað í einhverri mynd, og ætti þá að vera nógur tími til að athuga þessa leið, sem frv. gerir ráð fyrir, þó að hún komi að vísu í bága við 16. gr. stjórnarskrárinnar. Finst mjer því óþarfi fyrir háttv. deild að vera að eyða tíma í að ræða þetta mál nú, og vil því skjóta því til háttv. flm. (JJ), hvort hann sjái sjer ekki fært að taka málið út af dagskrá nú og bíða með það, þangað til útsjeð er, hvað háttv. Nd. gerir við frv. þau um þetta embætti, sem fyrir hana hafa verið lögð. Treysti háttv. flm. sjer ekki til þess, mun jeg greiða atkvæði á móti frv. nú, hvaða afleiðingar sem það kann svo að hafa fyrir mig.