11.03.1924
Neðri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (1846)

57. mál, veð

Björn Líndal:

Háttv. flm. (MT) sagði, að frv. þetta væri mjög saklaust. Jeg skal játa, að það lítur svo út í fljótu bragði, en eftir því sem jeg hugsa betur um það, því betur sannfærist jeg um það, að það er ekki eins saklaust og virðast kann í fljótu bragði. Það er svo langt frá, að jeg geti greitt þessu frv. atkvæði mitt, að jeg vildi þvert á móti helst banna mönnum með lögum að veðsetja búpening sinn. Það hefir oft orðið til stórtjóns fyrir menn, er það hafa gert, og hefir jafnvel stundum leitt til þess, að heiðarlegir menn hafa komist í kast við hegningarlögin. Jeg vil taka eitt dæmi til skýringar: Jeg hefi veðsett kú, en verð þess var skömmu síðar, að hún er kálflaus og því einskis virði til mjólkur. Hagsmunir mínir krefjast þess, að jeg slátri kúnni þegar í stað, en jeg má það ekki vegna veðsetningarinnar, svo framarlega sem jeg á ekki að eiga það á hættu að komast í klandur. Það er auðsætt, að bændur gætu varla hreyft sig, ef búpeningur þeirra væri veðsettur allur, en þeir eru nú þegar orðnir svo fjötraðir í takmarkalausar sjálfskuldarábyrgðir og aðra skuldafjötra, að á það er sannarlega ekki bætandi.