20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (1882)

82. mál, samvinnufélög

Bernharð Stefánsson:

Það var eitt atriði í ræðu háttv. þm. Ak. (BL), sem jeg get ekki látið ómótmælt. Hann sagði, að samvinnufjelögin hefðu ekki reynst vel, og bændur, sem í þeim væru, væru

reyrðir skuldum. Og dæmi væru til þess, að menn hefðu keypt sig lausa úr slíkum fjelögum. Það þekki jeg ekki. Og eins og háttv. þdm. munu hafa fundið, þá voru þetta tómar staðhæfingar (BL: Jeg skal nefna nöfn!), en engin rök. Og þó jeg kæmi nú með aðrar staðhæfingar á móti, þá mundi það lítið skera úr. Það yrði þá með okkur háttv. þm. Ak. (BL) eins og kerlingarnar, sem sögðu: Klipt var það! Skorið var það! En þetta mál þori jeg óhræddur að leggja í dóm sögunnar,sem úr öllu sker, svo að eigi verður um deilt.

Jeg ætla nú í stað staðhæfinga að benda háttv. þm. Ak. á staðreynd. Við þekkjum báðir mjög vel eitt kaupfjelag. Háttv. þm. (BL) hefir átt í brösum við ýmsa menn, sem að því standa, og jeg vænti, að hann telji það með þeim samvinnufjelögum, sem reynst hafa illa. Nú vil jeg benda á það, að þó einstaklingar í fjelaginu skuldi eitthvað, þá er heildarútkoman sú, að sjóðeignir fjelagsins og inneignir einstakra fjelagsmanna í því eru eins miklar og fjelagið skuldar út á við, eða því sem næst. Jeg hefi enga trú á því, að skuldir bænda hefðu verið nokkru minni, þó þeir hefðu verið án kaupfjelagsins. En munurinn er þá sá, að allar eignir fjelagsins eru græddar vegna fjelagsskaparins. Þetta er meira en staðhæfing, þetta er staðhöfn. Þeir, sem standa utan við fjelagið, skulda eins mikið, en eiga enga hlutdeild í tilsvarandi eign, sem fjelagsmenn eiga í fjelaginu. Þetta mál vil jeg óhræddur leggja í dóm sögunnar.