17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (1897)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Frsm. meirihl. (Eggert Pálsson):

Hvorugt nál., meiri- eða minnihlutans, um mál þetta er langt. Umr. við 1. umr. voru langar mjög, og munu þar hafa verið tekin fram flestöll rök beggja málsparta. Það er því frá sjónarmiði mínu ekki ástæða til langrar framsögu, nje heldur þörf á löngum nál.

Eins og tekið er fram í greinargerð sjálfs frv., þá var það sparnaður, sem vakti fyrir flm. þess. Þeir álíta ekki nema gott og eðlilegt að prenta Þingtíðindin, þegar ekki eru sjerstakar ástæður til sparnaðar, en álíta hinsvegar, að ekki sje nema rjett og sjálfsagt á þessum erfiðu tímum, þegar alt verður að spara, sem hægt er, að þá sjeu feld niður þau útgjöld, sem hægt er að komast hjá. Og prentun Þingtíðindanna var og er eitt af því, sem vjer flm. frv. álítum, að hægt væri að vera án. Eins og mönnum er kunnugt, er prentunarkostnaðurinn mjög mikill, og lítum vjer flm. svo á, að með því að fella niður prentunina mundi sparast um 20 þús. krónur eða vel það, og er það alls ekki svo lítið fje. Það er upplýst í málinu, að Alþingistíðindin eru keypt af rúmum 100 mönnum, og bendir það óneitanlega ekki til þess, að menn sjeu mjög fíknir í að lesa þau. Alþingistíðindin eru að vísu mun dýrari nú en áður, eins og aðrar bækur, líklega um 10 kr. En áður en dýrtíðin byrjaði voru þau mjög ódýr, eða 3 kr., en þá voru þau ekki keypt meira en nú. Það er vitanlegt, að hreppstjórar og oddvitar fá 1 eintak hver, og eru þau eintök yfirleitt, að jeg held, lítið notuð. Virðist því eftir öllum atvikum ekki nema rjett og sjálfsagt, þar sem svo þröngt er í búi hjá oss, að sparnaðurinn komi einnig fram í þessu efni. Og því fremur sem ekki er hægt að segja, að nokkur bíði verulegt tjón við þann sparnað. Ef svo fer — sem vonandi er — að úr greiðist örðugleikunum, þá má altaf taka prentunina upp aftur, ef svo sýnist. Annars er óþarfi að eyða að þessu mörgum orðum nú. Það hefir hver fyrir sig myndað sjer sína skoðun á málinu og atkv. manna sýna það. Jeg býst því ekki við, að fleiri eiginleg rök komi fram í þessu máli en þegar hefir verið bent á, þótt deilunum um það verði haldið lengur áfram.