17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (1899)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Jón Magnússon:

Jeg get ekki neitað því, að mjer þótti mjög gaman að hlusta á ágæta ræðu eftir mig 1909, og tek jeg mjer til inntekta lofsamleg ummæli hv. 5. landsk. um mig. En eigi þurfti hv. þm. að flytja þetta erindi vegna þess, að jeg sagði honum þegar við 1. umr. málsins, að jeg hefði verið á móti því 1909 og sömuleiðis í Nd. fyrir nokkrum árum. Við hv. þm. Dala. (BJ) áttum tal um þetta mál þá, og vorum við hvor á sinni skoðun um það. Jeg hefi átt tal um þetta mál við sögufróðan mann, og hefir hann sagt mjer, að Alþt. sjeu á seinni árum miklu minna virði fyrir sögulegar rannsóknir en áður. Enda er það skiljanlegt, þar sem blöðin eru eigi sambærileg nú og áður, þar sem þá þektust eigi dagblöð, en nú eru þau 3 hjer í bænum. Annars held jeg, að það hafi oltið á ýmsu hjá þingmönnum í máli þessu frá því fyrsta, og eigi hvað síst hjá þingmönnum Framsóknarflokksins. Annars þýðir ekki að vera að deila um þetta mál. Jeg býst við, að niðurstaðan breytist lítið fyrir það. Hvað það snertir, að jeg var fyrst á móti þessu máli, þá er það rjett, en er jeg fór að hugsa meira um það, þá sannfærðist jeg um, að hjer væri um útgjaldalið að ræða, sem mætti spara, ef þörf gerðist. Jeg veit það, að hv. þm. hefir sagt það í spaugi, að þeir, sem bæru þetta frv. fram, gerðu það af því þeir væru hræddir við að láta þjóðina sjá athafnir sínar á þingi. Jeg býst við, að um slíkt sje ekki að ræða, hvorki hjá hv. 5. landsk., nje 4. landsk.; býst við, að þeir þykist báðir góðir fyrir sinn hatt.

Jeg skal svo eigi orðlengja þetta. Jeg hefi að eins fært fram þau rök, að hjer sje um sparnað að ræða, og það tel jeg aðalatriðið. Hitt verða menn sjálfir að meta, hvort svo mikils sje í mist við þetta, að eigi sje vert að samþykkja frv. Er það hið sama og um hæstarjett. Hæstv. forsrh. (SE) segir, að við það frv. missist mikið, en hv. 5. landsk. (JJ) segir, að lítið missist. Eins og jeg hefi áður tekið fram, álít jeg þýðingarlaust að deila um þetta, enda býst jeg við, að langar ræður hafi engin áhrif á mat manna á máli þessu.