02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. meiri hl. samgmn. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg mun verða stuttorður af tveim ástæðum. Bæði er nú áliðið nætur og jeg ekki vel hraustur. En jeg þarf að svara ýmsu, sem vikið hefir verið að meiri hl. samgmn. Jeg hafði búist við því, að ýmsir hv. þdm. mundu finna það að till. nefndarinnar, að of lítið fje væri ætlað til flóabátaferða. En bæði meiri og minni hl. samgmn. var það ljóst, að full þörf væri að gæta hins ýtrasta sparnaðar. Það verður ekki hjá því komist, að ýmsir bátar, sem þörf væri að styrkja, geta ekki fengið styrk. Aðeins þeir bátar, sem brýn nauðsyn ber til að styrkja, geta orðið styrks aðnjótandi. Og það eru fyrst og fremst póstbátar, sem verður hvort sem er að veita fje til, svo sem báturinn, sem gengur um Ísafjarðardjúp, og bátur sá, sem hjeðan gengur til Borgarness. Auk þess kemur öllum ásamt um það, að Skaftfelling sje nauðsynlegt að styrkja til þess að halda uppi samgöngum austur með söndum. Eins og gefur að skilja, eru till. nefndarinnar, bæði meiri og minni hl., aðeins bending til hæstv. stjórnar. En hún verður að vinna úr í hverju tilfelli og úthluta styrknum eftir því, sem henni sýnist.

Háttv. frsm. minni hl. samgmn. (SvÓ) taldi hina mestu þörf á að styrkja Austfjarðabátinn, og einkum að styrkja vjelbátaferðir meðan vertíð stendur í Hornafirði. Það er vitanlegt, að þar er nokkur útgerð og afli á vissum tíma, snemma vors, eins og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) tók fram, og fjöldi sjómanna safnast þangað með báta sína. En frá mínu sjónarmiði er því einmitt minni ástæða til að styrkja bátaferðir þar um það leyti. Þeir, sem stunda þar sjó, þurfa sjálfir að sjá fyrir aðflutningi heiman frá sjer og heim til sín. Aðstaðan virðist mjer þar lík og í öðrum stærri verstöðum, t. d. Sandgerði, og talar enginn um styrk til að halda uppi samgöngum þangað. Fjöldi Ísfirðinga stundar veiðar frá Sandgerði á vetrarvertíð. Þeir annast sjálfir alla flutninga að heiman og heim, og þykir öllum sjálfsagt. Hinsvegar viðurkenni jeg þörf Hornafjarðar til þess að hafa bát til flutninga haustvörunnar. Eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni hjer, þá álítur framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins, að það sje ókleift fyrir Esju að taka að sjer flutning á haustvörunum til og frá Hornafirði, og að hún geti ekki komið þar við eftir miðjan september. En hinsvegar áleit hann, að þeir flutningar væru vel styrktir með 3 þús. kr., samanborið við aðra flutningaþörf kringum land.

Þá hefi jeg leyft mjer að koma með brtt. á þskj. 291 undir umræðum í dag. Ástæðan til þess er sú, að sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu sendi mjer símleiðis beiðni um, að það skilyrði verði ekki látið standa, sem sett er nú í fjárlagafrv. fyrir styrkveitingu til sjúkrahúsbyggingar á Ísafirði. Þar er sem sje svo til skilið um sjúkrahúsbygginguna, að sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu og bæjarfjelagið taki að sjer sjúkraskýlið til rekstrar. Þetta skilyrði var ekki sett á fjárlög 1924, og sýslufjelagið er að svo stöddu ekki við því búið að segja neitt um það, hvort það vill taka að sjer rekstur sjúkrahússins ásamt bæjarfjelaginu. Jeg vænti þess, að hv. þdm. vilji ekki nú frekar en áður binda fjárveitinguna þessu skilyrði, úr því að hún var ekki bundin því á síðasta þingi. Hinsvegar er sýslunefndin albúin þess að ábyrgjast það, að sjúkrahúsinu verði komið upp og byggingin leidd til lykta, að því er húsið snertir. Það hefir ekki enn komið til samninga milli sýslunefndar og bæjarstjórnar, hvernig sjúkrahúsið verði rekið, en bæjarstjórnin hefir lýst yfir því, að hún búist við að annast reksturinn ein, og mun sýslunefnd ekki hafa neitt á móti því, því eins og áður mun sýslufjelagið hafa þar sjerstaka samninga um sína sjúklinga. Jeg vænti því, að brtt. mín verði samþykt.

Þá á jeg aðra brtt. viðvíkjandi styrk til kvenfjelagsins Óskar til húsmæðrafræðslu. Það er dálítið undarlegt, ef hv. þdm. geta ekki fallist á það, að einhverjir aðrir en þetta kvenfjelag megi hafa framkvæmd kenslunnar og hljóta styrkinn, ef t. d. Ósk gæti ekki einhverra orsaka vegna komið kenslunni á, en aðrir vilja gera það. Jeg þykist vita, að það sje vilji hv. þdm. að styrkja þessa fræðslu annaðhvort á Ísafirði eða í sýslunni, þar sem hentugt þætti. Í fyrra var þessari kenslu haldið uppi af ungmennafjelagasambandi Vestfjarða, og fór hún fram á Núpi í Dýrafirði. Ef nú Ósk gæti ekki rekið kensluna og önnur fjelög vildu taka hana að sjer, þá væri ilt, ef styrkur þessi væri svo fastbundinn við það eina fjelag, að kenslan yrði að falla niður.

Við háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) höfum fengið ákúrur bæði hjá fjhn. og fjvn. fyrir að leggja til að færa styrkinn til sóttvarna innanlands niður í 8 þús. kr. En eins og hv. þm. V.-Ísf. hefir skýrt frá, þá er það okkar álit, að eftir það, að heilbrigðisstjórnin hafði orðið fyrir ákúrum eftir spönsku veikina, þá hafi hún gert meira en nauðsyn hefir krafið í því að varna útbreiðslu lítt saknæmra veikinda innan lands, sem oft hefir verið ónauðsynlegt og í mörgum tilfellum gagnslaust. Þannig hefir hún í eitt skifti varið nokkru fje til þess að hefta útbreiðslu mislinga. Hitt nær engri átt, að við viljum standa á móti því, að hús sjeu sótthreinsuð eftir smitandi sjúkdóma, eins og taugaveiki, en við viljum ekki ýta undir heilbrigðisstjórnina að setja varnir móti meinlausum sjúkdómum, og heldur ekki að eyða eins miklu fje og stundum hefir verið gert til ónauðsynlegra eða lítt nauðsynlegra sóttvarna.