28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (2062)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg get ekki annað en gefið þessu frv. meðmæli, fyrst og fremst af þeim ástæðum, sem standa í greinargerð flm., og einnig er jeg að öðru leyti samþykkur háttv. frsm. minnihl. Ákvæðin, sem nú gilda um skipun barnakennara, eru undarlega óeðlileg. Það er varla hægt að færa skynsamlegar ástæður fyrir því, að sveitarsjóður greiði 1/3 af nokkrum hluta launanna, en svo einhvern annan hluta af hinu, eftir því, sem verðlag breytist. Jeg sje ekki annað eðlilegra í þessu en það, að hjer sjeu föst skifti sett. Þessi lög eru heldur ekki svo gömul, að tilhögun þessi sje búin að fá á sig venjunnar rjett. Það eru aðeins örfá ár síðan þau komu í gildi. Hvað snertir launauppbót kennara eftir þjónustualdri, þá get jeg felt mig við það, að hjer sje fylgt sömu reglu og um launin yfirleitt. Jeg held, að ástæður minnihl. hafi hjer við lítil rök að styðjast. Reynslan hefir sýnt, að það er ekki oft, að kennarar flytjist úr einum stað í annan, þó það aðeins komi fyrir. Það sýnist því rjettara, þegar kennarinn hefir alla tíð starfað við sama skólann, að launauppbótin greiðist eftir sömu reglu og launin annars. Jeg fyrir mitt leyti get sætt mig við frv. eins og það kemur frá meirihl. mentmn., og sömuleiðis till. minnihl., þó ekki fáist þannig eins mikill sparnaður fyrir ríkissjóð eins og eftir hinu upphaflega frv. fjvn.