31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í C-deild Alþingistíðinda. (2087)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Ásgeir Ásgeirsson:

Hæstv. atvrh. (MG) hefir dregið í efa, að í frv. felist nokkurt vantraust á kenslumálaráðuneytinu. En einn hv. þdm. hefir við 2. umr. þessa máls sagt, að það hafi hingað til reynst ómögulegt að losna við óþarfa kennara, vegna hlutdrægni kenslumálaráðuneytisins. Það þarf því ekki frekar vitnanna við um það, að með frv. er lýst vantrausti á núverandi forsrh. (JM), ef taka á úrskurðarvaldið í þessum efnum undan valdi forsrh.

Það er nauðsynlegt, að kenslumálaráðuneytið hafi hjer úrskurðarvald, því skólanefndum getur gengið margt annað til en að breyta tilhögun kenslunnar til batnaðar. Þegar velt er yfir á sveitarsjóðina aukinni gjaldabyrði, sem hætt er við að verði í ýmsum tilfellum svo þung, að sveitirnar fái tæplega undir risið, þá er hætt við, að þetta verði notað án tillits til þess, að það geti haft stórspillandi áhrif á kensluna. Vegna þessa er nauðsynlegt, að kenslumálaráðherra hafi hjer úrskurðarvald um uppsögn kennara. Og það verður enn nauðsynlegra, ef það verður samþykt hjer, að sveitarsjóðir greiði ½ dýrtíðaruppbótina.