12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í C-deild Alþingistíðinda. (2095)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Einar Árnason:

Jeg skal strax geta þess, að mjer finst frv. þetta ekki vera eins fráleitt eins og hv. frsm. (SE) vildi halda fram. Taldi hann meðal annars, að með því væri verið að gera harða árás á sveitarsjóðina, því að þeim væri íþyngt svo mjög í útgjöldum með því. Jeg er alveg viss um, að hv. frsm. hefir ekki kynt sjer sem skyldi, hvað frv. þetta, ef það yrði samþykt, mundi í raun og veru auka hreppunum mikil útgjöld. (SE: Jú, vissulega, full 33 þús.) Já, mikið rjett, en hvað kemur þá niður á hvern einstakan hrepp? Getur hv. frsm. svarað því? Jeg býst við ekki; skal jeg því, honum til upplýsingar, nefna dæmi: Í mínum hreppi, sem er meðalhreppur, hefir kenslu verið haldið uppi fyllilega þann tíma, sem ákveðinn er í fræðslulögunum, sem sje 6 mánuði. Hefir allur kostnaðurinn orðið um 1200 kr. Kæmist nú breyting sú á, sem frv. gerir ráð fyrir, myndi kostnaðurinn aukast um ca. 76 krónur. Sjá því allir, að svona lítinn kostnaðarauka munar hverja einstaka sveit mjög lítið um.

Þegar lög þessi, sem nú á að breyta, voru samin, 1919, var fyrst ætlast til, að sveitirnar borguðu dýrtíðaruppbótina í sömu hlutföllum og launin. En eins og kunnugt er, var haldið fram á því þingi, að ríkissjóður gæti helst borgað alt mögulegt; komst því inn í frv., að ríkissjóður skyldi borga alla dýrtíðaruppbótina.

Annars skal jeg viðurkenna það, að það skiftir ekki mjög miklu máli, hvort frv. þetta verður samþykt eða ekki, því að eins og háttv. frsm. (SE) tók fram, hefir það engan sparnað í sjer fólginn fyrir þjóðina í heild sinni, þar sem gjaldið er aðeins fært af ríkissjóðinum yfir á sveitarsjóðina.

Jeg efast um, að hv. nefnd hafi skilið rjett sum atriði frv., eftir því, sem stendur í nál., og skal jeg þar til nefna 1. gr. Þar talar nefndin um, að dálítill sparnaður mundi verða af því að samþykkja hana. En jeg er alveg á gagnstæðri skoðun. Held miklu frekar, að af henni mundi leiða ósparnað fyrir ríkissjóð, því að hingað til hefir hann eigi þurft að greiða neinn hluta af launum þeirra kennara, sem ekki hafa kent fulla 6 mánuði. En eftir frv. þessu, verði það að lögum, eiga einnig þeir kennarar, sem ekki kenna nema t. d. 8 vikur, að fá laun sín greidd úr ríkissjóði, eftir sömu hlutföllum og hinir, sem kenna í 24 vikur. Jeg vil nú spyrja hv. nefnd, hvort hún hafi athugað þetta.