12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í C-deild Alþingistíðinda. (2125)

70. mál, ritsíma og talsímakerfi

Þórarinn Jónsson:

Það er að vísu rjett, sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagði viðvíkjandi símalínunni í Vestur-Húnavatnssýslu, að til er styttri leið, að Stað í Hrútafirði. En það er eftir till. landssímastjóra, að hin leiðin er valin. Leiðin að Stað liggur yfir háls, þar sem snjóþyngsli geta átt sjer stað, en myndu þó ekki verða til eyðileggingar, en þessi leið er ekki um bygð. Við hina leiðina er ekkert að athuga, enda mælir landsímastjóri með henni eins og jeg hefi sagt, svo að hjer hefir alls ekki verið farið á bak við hann. Hann hefir að vísu ekki athugað þessa leið öðruvísi en á korti, en þó ætti að mega treysta úrskurði hans að þessu leyti. Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) talaði um, að erfitt væri orðið um afgreiðslu á símastöðvunum. Jeg býst ekki við að nýjar línur verði lagðar svo bráðlega, að ekki verði búið að bæta við þráðum áður, því þörfin fyrir þá er þegar til, þó þessi viðbót komi ekki. Jeg sje því enga ástæðu til að hafa á móti till. þessari.