22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í C-deild Alþingistíðinda. (2174)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. meirihl. (Ágúst Flygenring):

Jeg þarf ekki að bera blak af nefndinni vegna þess, hve seint frv. kemur fram. Nefndin hefir ekkert getað við það ráðið, hvað málið hefir tafist hjer í deildinni. Hún á ekkert atkvæði um það, hvenær mál eru tekin fyrir, eins og nærri má geta. En annars er það vitanlegt, að engir samviskusamir þm. eru að flýta fyrir málum, sem eru, eða þeir álíta að sjeu, til óhags og misbjóða rjettlæti og rjettlætistilfinning eins og þetta frv. gerir. Jeg er þess sinnis, að ef jeg sje þörf á að flýta máli, þá flýti jeg því, en geri það ekki, ef jeg sje, að málið er ekki þess vert. En hinsvegar neita jeg því, að nefndin hafi tafið þetta frv. beinlínis. Ríkinu lá á því, að gullkrónufrv. gengi fljótt fram. En af þessu frv. hefir landið aðeins skömm og skaða, eins og jeg hefi sýnt fram á áður.

Hv. þm. Barð. kallaði togaraskipstjórana óþokka. Jeg tel alveg óviðeigandi að kasta slíku fram sjer í sölum Alþingis. Ef nokkur stjett manna í þessu landi stendur á sporði útlendum stjettarbræðrum, þá er það sú stjett, það eru skipstjórar á „trawl“-skipunum íslensku. Einmitt þessi stjett er og verður sómi þessa lands.

Það hefir verið óskað nafnakalls um þetta mál. Jeg endurtek það, að jeg öfunda hvorki hv. þm. Barð. nje nokkurn skoðanabróður hans af sínu atkvæði.

Hv. þm. Borgf. reyndi að færa orð mín úr lagi. Hann bar mig fyrir því, að togararnir veiddu aðallega í landhelgi. En jeg sagði, að togaraveiðarnar væru reknar í landhelgi af flestum skipum, þegar ekki væri annað hægt, eins og stundum á sjer stað, og oft auk þess, þegar skipstjórar, margir hverjir, teldu sjer það miklu arðvænlegra. Þetta vita allir. Jeg býst t. d. við, að Skaftfellingum sje þetta ljóst, þar sem þeir hafa togarana og aðfarir þeirra daglega fyrir augum sjer. En jeg hefi aldrei sagt, að togaraútgerðin standi og falli með veiðum í landhelgi. Það er vitanlegt, að sumir togarar — einstöku — veiða aldrei innan landhelgi. Það þýðir ekkert að færa orð mín úr lagi. Jeg hefi viljað bera í bætifláka fyrir okkar íslensku skipstjóra um landhelgisveiðarnar, vegna þess, að það er vitanlegt, að útlendingar veiða þar ennþá meira, þegar veiði skortir annarsstaðar. Jeg hefi haldið því fram, að það sje hart, ef þeir einir eigi að missa sína atvinnu fyrir það að brjóta landhelgina, fremur en aðrir — fremur en útlendingarnir, sem þessi lög aldrei gætu náð til. Ekki síst, þegar þess er gætt, að þeir verða frekast fyrir þessu, sem minst hafa til þess unnið. Jeg veit ekki, hvort það þroskar sjerstaklega næma ábyrgðartilfinningu fyrir lögum og rjettlæti að hegna þannig, eins og hleypt sje skoti í hóp manna, sekra og ósekra, án þess hægt sje að vita, hver fyrir verður. Þau hegningarákvæði, sem hjer ræðir um, eru alls ekki berandi saman við nein slík ákvæði, sem á landi gilda. Þó einhver beiti fje í annars land, þá fær hann ef til vill sekt, en ekki verða nú samt skepnurnar teknar líka, eins og við gerum með aflatökunni, ef til næst. Og engum mundi detta í hug að svifta bónda, sem beitti annars land, búskaparrjettindum í þokkabót. Eins er um þann, sem veiðir fugla í annars manns landi. Þó hann verði fyrir sekt, þá er veiðin ekki af honum tekin, og því síður rjettindi til að bera byssu. Svona mætti margt telja, en ekkert kemst í samjöfnuð við landhelgissektirnar. Allra síst, ef taka á rjettindi af mönnum fyrir slík brot.

Jeg býst við því, að þó þetta frv. slysist í gegnum þingið — sem væri mesta ólán — þá verði það aldrei til annars en ills eins. Það dregur ekki úr lögbrotunum. En það vekur gremju, og hlyti bráðlega að verða breytt aftur.

Það er rjett, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði, að það er ekki sama, hvar brotið er framið, hvort það er fyrir söndunum eystra eða undir Akranesi og í Garðsjó, hvort það er framið þar, sem engin sækir sjó, eða þar, sem það spillir stórkostlega fyrir veiðum fjölda manna. Í þessu tilliti hagar svo afarólíkt til kringum landið. Væri í raun og veru rjettlátt að hafa sektarákvæði mismunandi með tilliti til þessa, en jeg held, að ekki verði komið við þannig löguðum mismunandi ákvæðum. Það yrði ef til vill ekki annað en húmbúg úr því.