22.04.1924
Efri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í C-deild Alþingistíðinda. (2254)

112. mál, niðurfall nokkurra embætta

Frsm. meirihl. (Eggert Pálsson):

Það er alveg rjett, sem hv. 1. landsk. (SE) tók fram, að það er vel þess vert, að athugað væri, hvort eigi mætti sameina vegamálastjóraembættið og vitamálastjóraembættið. Sú uppástunga liggur að vísu ekki hjer fyrir til umræðu nú, en jeg skal taka það fram, að mjer hafði ekki dottið sú leið í hug. En jeg hafði hinsvegar hugsað mjer, að sameina mætti sjálf aðstoðarmannaembættin.

Hv. 5. landsk. (JJ) benti á, að sjerstakur verkfræðingur væri við Helgustaðanámuna, sem lítið hefði að gera. Þetta alt saman sýnir, að ekki er rjett að hrapa að þessu máli, heldur þarf að athuga það vandlega.

Hv. frsm. minnihl. (JJ) vjek að orðum meirihl. um aðstoðarlækninn á Ísafirði. Hann greip niður í nál. meirihl., og las upp eina setningu, sem hann sleit út úr samhengi, en slepti framhaldinu, sem skýrir þessa setningu og rökstyður hana. Jeg vil því, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp það sama og hv. frsm. minnihl. las upp, svo og framhaldið.

„ — — — En þótt nú væri með sjerstökum lögum samþykt að leggja þessa stöðu eða embætti niður, þá er ekki sýnilegt, að með því mundi nokkur eyrir sparast.“

Hv. þm. las ekki meira, því að hann vildi láta líta svo út sem þetta væri fjarstæða, og hann las ekki rök meirihl., til þess að þau sæjust ekki í Þingtíðindunum, og vil jeg þessvegna lesa áframhaldið, með leyfi hæstv. forseta, og það hljóðar þannig:

„ — — — Launin, sem samkv. 3. gr. laga nr. 34, 16. nóv. 1907, fylgja þessari stöðu, eru einar 800 kr. Og þótt svo væri litið á, að dýrtíðaruppbót skyldi reikna á þessa upphæð eins og hver önnur laun, þá væri hjer þó ekki að ræða um nema ca. 1200 kr.

Ef nú þingið teldi sig engar skyldur hafa gagnvart manni þeim, sem skipar þessa stöðu nú, og ljeti sjer á sama standa, hvað um hann yrði, þá mundi það fyrst og fremst ekki ætla honum í laun hærri upphæð en lög standa frekast til. En eins og fjárlagafrv. fyrir árið 1925, sem nýlega hefir verið samþ. í Nd., ber með sjer, eru manni þessum ætlaðar 1800 kr. í laun, eða með öðrum orðum hjer um bil þriðjungi hærri upphæð en hægt er að segja, að lög standi til. Og bendir þetta ótvíræðlega í þá átt, að þingið ætli sjer ekki að varpa manni þeim, sem hjer á hlut að máli, algerlega út á gaddinn. Það virðist því mega líta svo á, að þó embætti þetta væri nú lagt niður með því að samþykkja framangreint frv., þá yrði þó maður sá, sem nú situr í þessari stöðu, látinn njóta framvegis sama eða svipaðs styrks og honum er nú ætlaður í fjárlagafrumvarpinu. En þá yrði sparnaðurinn að niðurfalli embættisins alls enginn.“

Þetta eru þau rök, sem við meirihl. nefndarinnar færum fram, og jeg skammast mín ekkert fyrir þá röksemdaleiðslu, hvorki fyrir kjósendum mínum nje öðrum.

Ef þingið hefði viljað losa sig við þennan mann, þá hefði það auðvitað lækkað laun hans, þannig, að hann hefði ekki fengið meira en lögin heimila. Það hefði átt að vera fyrsta sporið, og þegar það var búið, þá fyrst var ástæða til að ráðast á embættið, og fyr ekki. Nema það sje gert til að hefna sín á þeim manni, sem nú skipar þetta embætti. En það yrði raunar engin hefnd, þó embættið yrði lagt niður, því hann fengi laun jafnt eftir sem áður, að minsta kosti ef þingið yrði eins skipað og það er nú.

Þá mintist hv. frsm. minnihl. á skógræktarstjóra, og vildi gera lítið úr honum. Jeg skal taka það fram, að jeg hefi ekki orðið var við neina óánægju með hann nú í seinni tíð, heldur þvert á móti. Jeg man jeg heyrði ýmsa tala um það fyrst eftir að hann kom hingað, að hann mundi lítt til starfsins fallinn, talaði varla íslensku, og væri ekki nógu kunnugur staðháttum hjer til þess að geta haft slík störf á hendi. En nú finst víst flestum þessi maður hafa unnið störf sín með áhuga og dugnaði og fengið miklu til vegar komið, þrátt fyrir það, þó hann hafi ekki haft miklu fje yfir að ráða. T. d. er Vatnaskógur, sem nú er í miklum blóma, eingöngu hans verk. Og hann hefir haft hug á að friða Þórsmörk, en það hefir verið erfitt að koma því í framkvæmd, sökum þess, að það er á móti hagsmunum þess hjeraðs, sem hlut á að máli. En nú hafa hjeraðsbúar þó gefið það eftir fyrir sitt leyti, með því skilyrði, að hún yrði þá fullkomlega friðuð, og mjer virðist það benda til þess, að þeir hafi einmitt fult traust á skógræktarstjóra. Og það er ekki skógræktarstjóra að kenna, að ennþá er ekki búið að friða Þórsmörk, heldur er það eingöngu þinginu að kenna. Það hefir ekki lagt fram það fje, sem til þess þarf.

Jeg skal engan dóm á það leggja, hvort búnaðarmálastjóri er vel til þess fallinn að hafa skógræktarstörf með höndum. Honum tókst vel á Akureyri, en það sannar ekkert annað en það, að þar eru góð skilyrði til skógræktar, en þau eru, eins og kunnugt er, mjög misjöfn, og geta meira að segja verið mismunandi í sömu sveitinni. T. d. veit jeg, að svo er í Fljótshlíðinni. Þar er gott til skógræktar í innrihluta hliðarinnar, en verra annarsstaðar. En það eru allir sammála um, að skilyrði til skógræktar sjeu mjög góð á Akureyri, en aftur á móti eru þau slæm hjer í grend við Reykjavík. Það hefir t. d. verið reynt að rækta skóg hjer inn við Rauðavatn, en það hefir ekki tekist, og það er ekki að neinu leyti útbúnaðinum að kenna, því hann er eða hefir verið allur í besta lagi. T. d. ágæt girðing sett í kringum ræktunarsvæðið. En jarðvegurinn er sennilega ómögulegur til skógræktar.

Þá mintist hv. frsm. minnihl. enn að nýju á grískudósentinn, og hann sagði, að stuðningsmenn mínir eystra skildu ekki vel framkomu mína í því máli og væru óánægðir með hana. Það má vel vera, að eitthvað sje hæft í þessu, sökum þess, að þeir hafa enn ekki fengið aðra skýringu á því máli en þá, sem blað hv. 5. landsk. (JJ) hefir flutt. (JJ: Sú skýring er sú eina rjetta). Nei, það er einmitt sú skýring, sem jeg mótmæli.

Þá bar hv. þm. það á kjósendur mína, að þeir hefðu verið fullir á fundinum á Stórólfshvoli. Býst jeg við, að honum reynist erfitt að sanna þá ásökun. Skýt jeg því máli óhræddur undir dóm hæstv. forsrh. (JM) og hæstv. atvrh. (MG), sem báðir voru á fundinum. (Forseti, HSteins: Jeg óska þess, að hv. þm. fari ekki lengra út í þessa sálma.) Jeg tel mjer bæði skylt og heimilt að bera blak af kjósendum mínum, er þeir eru ranglega ákærðir. (JJ: Engum duldist, að sprútt höfðu þeir fengið.) Það hefir víst öllum dulist nema hv. þm. En það er ekki óhugsanlegt, að það skap, sem hann komst í á þeim fundi, hafi gert hann glámskygnan. Annars hefir hv. 5. landsk. um langt skeið lagt mig, eins og svo marga aðra menn, í einelti. Tel jeg mjer það síst til rýrðar. Meðal annara hluta hefir hann með fjálgleik talað um, að jeg hafi fallið við alþingiskosningar. Rjett er það, að jeg hafi fallið við næstsíðustu kosningar, en til þess lágu þær orsakir helstar, að mjer var þá ekkert fast í hendi að komast að. Hinsvegar veit þm. það, að í þetta sinn gekk jeg út úr kosningunum, eins og áður fyr, með fullum sigri. Og þó verður það ekki sagt, að hv. þm. hafi ekki gert sitt til þess að reyna að vinna mjer tjón. Allar hinar svæsnu árásir hans í „Tímanum“ báru harla lítinn ávöxt fyrir hann. Orsakirnar til þess, hversu óhönduglega honum fórust þessar árásir, hafa máske meðfram legið í því, hve illa fór um hann á móhlaðanum í spítalakjallaranum á Stórólfshvoli, því þar mun uppkastið að greinum þessum flestum hafa til orðið. En þó hann haldi áfram að rita skammagreinir um mig og geti látið fara betur um sig í hægindastól uppi í Sambandshúsi, þá er ekki víst nema útkoman verði sú sama. Að minsta kosti get jeg látið mjer á sama standa. Það hefir oft komið fyrir mig á lífsleiðinni, þegar jeg hefi riðið fram hjá bæjum, að hundar, einn eða fleiri, hafa komið gjammandi og glefsandi. En mig hefir það ekki sakað, þótt þeir hafi glefsað í taglið á hesti mínum. Og þegar maður skiftir sjer ekkert af þeim, hætta þeir bráðlega eða gefast upp. Sömu aðferð hygg jeg að rjettast sje að beita gagnvart hv. 5. landsk. (JJ) eða blaði hans.