14.03.1924
Neðri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í C-deild Alþingistíðinda. (2274)

39. mál, kosningar til Alþingis

Sigurjón Jónsson:

Jeg ætla ekki að gera hjer grein fyrir mínu atkv., það mun atkvgr. sýna, hvernig það fellur. En jeg vil taka það fram, að jeg get ekki verið sammála háttv. síðasta ræðumanni (SvÓ) í því, að fylgja brtt. á þskj. 102. Jeg skal sýna fram á það, að ef hann samþ. 1. gr., þá er honum ómögulegt að samþ. hinar breytingarnar, sem á eftir fara. Það er sjálfsagt gáleysi nefndarinnar að kenna. Eins og tekið er fram, fellur kjördagurinn eftir till. nefndarinnar á bilið frá 30. júní til 6. júlí. En síðar kemur fram, að kjörskráin gangi í gildi 20. júní. En jafnskjótt og framboðsfrestur er útrunninn, í maí, hafa kjósendur kröfu til þess að kjósa eftir gildandi kjörskrá. Jeg álít ómögulegt, að ekki sje kosið eftir einni kjörskrá við sömu kosningar, og það er sjálfsagt ekki tilgangur nefndarinnar. En hjer er ekki færður nóg til baka sá mánaðardagur, er kjörskrár ganga í gildi. Það mætti ekki vera seinna en 1. júní. — Þá er annað, sem rekur sig á. Í 11. gr. kosningalaganna er svo fyrir mælt, að aukakjörskrá skuli tilbúin fyrra hluta maímánaðar. Ef kjördagur er færður til og nú þyrfti að breyta aukakjörskrá, þá kemst hún ekki í gildi fyr en 15. júní, en þá er líka kominn sá tími, er kjósendur eiga heimting á að fá að kjósa, þeir, sem dvelja utan síns kjördæmis. Verði kjördagur færður eftir till. nefndarinnar, þá verður að samræma lögin, svo það gildi þó að minsta kosti ein og sama kjörskrá á hverjum stað.