31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í C-deild Alþingistíðinda. (2286)

39. mál, kosningar til Alþingis

Jón Baldvinsson:

Jeg á, ásamt háttv. 4. þm. Reykv. (MJ), brtt. á þskj. 222, sem miðar í þá átt að færa í betra horf ákvæðin um kjördaginn, sem í frv. felast; höfum við með þessum brtt. tekið tillit til þeirra skoðana, sem fram hafa komið, og ætlumst til, að kjördagarnir verði tveir, annar 1. vetrardag, en hinn 10. september, og er það sá kjördagur, sem lengst hefir staðið, eða fram að árinu 1909. En á því ári var því fyrst hreyft hjer á þingi að fá þessu breytt.

Það er alveg augljóst af öllu, sem fram fór í þessu máli á því þingi, að menn hafa þá gaumgæfilega athugað alt, sem að því laut, hvaða dagar væri heppilegastir sem kjördagar til almennra kosninga um alt land, og menn komust þá að þeirri niðurstöðu, að 1. vetrardagur væri best fallinn til þessa.

Sá, sem fyrstur flutti till. um að breyta þessu þannig, var dr. Jón Þorkelsson, þm. Reykv., og ætlaðist til, að kjördagur yrði ákveðinn þ. 10. okt., en Sigurður Sigurðsson, þm. Árn., bar fram þá brtt. við þetta, að færa kjörd. til 1. vetrardags, og þingið fjelst á það, eftir langa og nákvæma rannsókn á öllum hliðum þessa máls. Jeg býst nú við, að menn verði að játa, að þessi háttv. þm. hafi verið svo vel kunnugur öllum högum og háttum manna víðsvegar um land, að hann væri manna best fallinn til að dæma um það, hvaða dagur væri heppilegastur til þessa, og að hann hafi getað talað af allmikilli reynslu um þá hluti. Þá fjalla þeir menn um þetta mál, sem þaulkunnugir eru á öllu landinu, og þeir þm., sem heima áttu í erfiðustu kjördæmum landsins, þar sem verst er að sækja kjörstað á þessum degi, vegna veðurs o. fl., þeir samþykkja þetta líka, enda munu þeir og hafa athugað vel og nákvæmlega alt, sem mælti með þessu og móti. Þegar þessi lög, kosningalögin, voru endurskoðuð, árið 1915, var að vísu talað um færslu kjördagsins, en alt var það svo í lausu lofti, að ekki var auðvelt að henda reiður á því, enda enginn rök, sem nokkuð kvað að, færð fyrir þessu. Kjördagurinn var því látinn standa óbreyttur í lögunum.

Jeg vil benda á það, að ef þessi færsla kjördagsins, í 11. eða 12. viku sumars, verður samþykt, gæti það ekki ósjaldan komið fyrir, að tvö þing yrðu háð sama árið. Það getur vel hugsast, að sá meirihl., sem orðið hefir til við kosningar, sje annarar skoðunar en sá flokkur, er fór með völdin fyrir kosningarnar, og mundi hann ekki vilja láta sjer lynda, að sú stjórn, sem hann telur skaðlega, fari áfram með völdin frá því í 11. viku sumars til 15. febrúar næsta ár. Nei, þá verður ekki hægt að varna því, að kallað verði saman aukaþing, og er þetta allmikið fjárhagsatriði, sem jeg vil beina til þeirra að taka nákvæmlega til athugunar, sem vilja hafa þing aðeins annaðhvert ár. Þykir mjer ólíklegt, ef þeim líst að hafa þing tvisvar á sama ári, en þetta getur orðið afleiðing þess að hafa kjördag svona langt frá samkomudegi Alþingis.

Þetta eitt er ærin ástæða til þess að breyta eigi um kjördag, og auk þess þykist jeg vita, að yfirgnæfandi meirihl. kjósenda telur sjer hægara að kjósa fyrsta vetrardag en að vorinu.

Við flm. brtt. höfum þó ekki alveg viljað skera fyrir það, að kjósendur geti fengið að breyta til um kjördag. Því viljum við, að ríkisstjórnin geti, eftir tillögum sýslunefnda, veitt einstökum kjördæmum heimild til að láta kosninguna fara fram hinn 10. dag septembermánaðar, á undan hinum almenna kjördegi. Þó þannig kosningar fari ekki fram sama dag um land alt, þá ætti það þó ekki að verða að miklum baga, þar sem lengra liður ekki milli en tímabilið frá 10. sept. til fyrsta vetrardags. Mætti því vel geyma atkvæðin þangað til kosningar hefðu farið fram um land alt. Væri þar með komið í veg fyrir það, að úrslit kosninganna í einu kjördæmi gætu haft áhrif á kosningar í öðrum kjördæmum. Alt annað væri, ef menn vildu aðhyllast að láta kosningarnar fara fram 1. vetrardag fyrir þau kjördæmi, sem erfitt ættu með að kjósa í 11. viku sumars. Sá galli er á því, að yrði aukaþing á milli, þá myndu þau kjördæmi sitja uppi fulltrúalaus, því óviðkunnanlegt myndi þykja að senda nokkra gamla þm. á þing með nýjum þm. En raunar mætti bæta úr þessum ágalla með því að láta kosningar gilda fyrst frá fyrsta vetrardegi. Aðalatriðið er auðvitað að gera kjósendum sem hægast fyrir um að notfæra sjer kosningarrjettinn. Og það sýnir best, hvern hug menn bera í þessu efni, að mótmæli gegn því að flytja kjördaginn til vorsins hafa þegar borist frá fjölmörgum kaupstöðum og kauptúnum landsins. Saga þessa máls, bæði frá 1909 og 1915, sýnir, að þm. þeir, sem kunnugastir eru öllum aðstæðum, hafa mjög lagt sig í líma með að finna hentugan kjördag, en niðurstaðan hefir orðið sú, að yfirgnæfandi meirihl. hefir hallast að því, að 1. vetrardagur væri best valinn. Og hvílíkt reik er á hugum þeirra, sem nú vilja breyta til, sýna hinar mörgu uppástungur, sem fram hafa komið, þar sem sumir vilja hafa kjördaginn í 10. viku sumars, sumir í 11. vikunni og enn aðrir í 12. viku sumars. En jeg vænti þess samt, að þm. sjái, að 1. vetrardagur sje heppilegastur, sami dagur sem verið hefir síðan 1909, og sem menn yfirleitt hafa verið ánægðir með. Þá vænti jeg þess líka, að hv. þd. aðhyllist brtt. á þskj. 222, og þá jafnframt brtt. á þskj. 264, sem ákveður, að beri 10. sept. upp á sunnudag, þá skuli kosið næsta virkan dag á undan.