20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í C-deild Alþingistíðinda. (2307)

94. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Pjetur Þórðarson):

Jeg vil biðja háttv. þdm. að athuga það, að breyting sú á eldri lögum, sem í þessu frv. felst, er aðeins fólgin í orðamun í seinni hluta frvgr. Hjer er því ekki um neina aðalbreytingu að ræða, heldur eru ákvæði eldri laga látin ná til fleiri atriða en mönnum hefir hingað til komið ásamt um að láta þau ná. Hjer er sem sje um það að ræða, hvort nota beri almenn afnot fasteigna — sjerstaklega slægnaítök — sem skattstofn við álagningu sveitarútsvara. Mál þetta er kunnugt frá fyrri þingum, og átti að vera frá því gengið fyr, sjerstaklega á þingi 1919. Jeg vænti þess, að þingmenn hafi lesið ástæðurnar fyrir frv. í greinargerðinni og kynt sjer svo eldri lögin, sem þessar breytingar eiga við, að þeir sjái fljótlega og geti gert sjer grein fyrir, að þær eru í því fólgnar, að útsvarsskylda nái sem víðtækast yfir hlunnindi, ítök og jarðarafnot. Jeg býst við, að menn hafi skilið það, að jeg vil aftur á móti ekki láta útsvarsskyldu ná lengra en góðu hófi gegnir. Aðalinnihald frv. er það, að heimild sje til að leggja útsvör á slægjuafnot utanhreppsmanna og önnur ítök þeirra, svo að þeir verði skattskyldir eins og aðrir þeir, sem einhver hlunnindi hafa í hreppnum. Býst jeg við, að jeg þurfi ekki að útlista þetta frekar, því að ólíklegt er, að nokkur hafi á móti því, að utanhreppsmenn, hvort sem þeir eru íbúar sveita, kauptúna eða kaupstaða, sæti sömu kjörum og hinir, sem í hreppnum búa, og lausamenn þá eins og aðrir. Leyfi jeg mjer að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.