08.03.1924
Neðri deild: 18. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í C-deild Alþingistíðinda. (2321)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg get búist við því, að það sje heldur en ekki óvinsælt verk að flytja frv. um lenging vinnutíma starfsmanna á opinberum skrifstofum. Það er óvinsælt, að minsta kosti á meðal þeirra, sem líta svo á, að stuttur daglegur starfstími en há laun lýsi mestum menningarbrag hjá þjóðinni. Jeg held líka, að hinir fyrirfarandi óstöðugu tímar hafi átt sinn þátt í því að ala á þeirri hugsun. Og alveg víst er það, að sumir menn álíta, að þjóðin geti ekki á annan hátt en þennan sýnt skylduga rækt við þá menn, sem í þjónustu hennar eru. Og þingið hefir meira að segja sjálft viðurkent þetta. Þarf ekki annað en minna á lögin um hækkun launa bankastjóra, sem síðasta þing samþykti.

Jeg skal þó strax taka það fram, að jeg er ekki að gefa það í skyn á nokkurn hátt með frv. þessu, að skrifstofumenn ríkisins eigi ekki að hafa sæmileg laun. Það er síður en svo. En það er önnur hlið á þessu máli, sem veit að almenningi. Starfsfyrirkomulagið á æðstu stöðum, eða hjá ríkisstjórninni, á að vera til fyrirmyndar fyrir aðra. Það á að vera og getur verið menningarmál. Og það á að setja menningarsnið á samskonar fyrirkomulag annarsstaðar, um leið og það á að gera öll viðskifti og alla afgreiðslu geðfeldari og greiðari.

Sveitamönnum þykir það óviðfeldið, þegar þeir sjá skrifstofumenn hjer með stýrurnar í augunum kl. að ganga 11. Og það geta vel verið komnir að morgninum menn ofan úr Mosfellssveit, utan af Kjalarnesi og jafnvel ofan úr Kjós, og þó þurft að bíða eftir að fá afgreiðslu á sumum skrifstofum ríkisins. Þetta er alt annar starfsmáti en þeir eru vanir við, og það er alveg áreiðanlegt, að þetta hvetur menn ekki til árvekni eða dugnaðar, en í því ættu og gætu einmitt skrifstofur ríkisins verið til fyrirmyndar.

Tildrög til þess, að jeg flyt frv., eru fyrst þau, að á þinginu 1922 voru farin að koma í ljós talsvert glögg sjúkdómseinkenni á fjárhag landsins. Vorvonirnar í þessum efnum, sem komist höfðu í mestar öfgar 1919, voru brostnar. Og það er ekkert um það að segja, það getur hver játað það kinnroðalaust, sem ól þær vonir, að hann var of skammsýnn, og úrræðin eru þá heldur ekki þau, að sakast um orðinn hlut, heldur skygnast um eftir bjargráðum. Fjárveitinganefndin á þinginu 1922 fór því að leita að ýmsu, sem hún áleit, að þyrfti að laga, og á meðal þess var það, að starfstími á skrifstofum ríkisins væri of stuttur, að minsta kosti sumstaðar, og mannahald þar af leiðandi óþarft. Hún byrjaði á að kynna sjer þetta í stjórnarráðinu og bar málaleitanir sínar síðan fram fyrir stjórnina. Hún tók því ekki illa, og taldi það geta komið til mála að lengja starfstímann. En hitt taldi hún óheppilegt, að hafa opna afgreiðslu lengur en er. Einnig benti stjórnin á það, að starfstími á einkaskrifstofum væri víða ekki lengri en þetta, og því myndi ekki auðið að velja út mönnum á skrifstofurnar, ef aðrir byðu betri kjör. Jeg skal ekki rengja það, að jafnan hafi fengist úrval af mönnum á skrifstofur stjórnarráðsins, og ekki heldur hitt, að á einkaskrifstofum hafi verið styttri eða svipaður vinnutími; en hvað sem því líður, þá tel jeg nú víst, að yfirlit manna yfir fjárhagshorfurnar sje nú orðið á þann veg, að þó einhver hefði nú svipaðan skrifstofutíma og stjórnarráðið, þá myndi sá hinn sami fúslega breyta til, ef hjer yrði gengið á undan. Annars tel jeg ekki líklegt, að þetta eigi sjer nokkursstaðar stað nú, og ekki benda á það auglýsingar, sem nú eru í blöðunum hjer, þar sem skrifstofutími firmanna er frá kl. 9 árd. til kl. 6 síðd. Og það er einmitt sá tími, sem jeg vil láta ákveða á skrifstofum hins opinbera.

Það, sem jeg þykist vita, að háttv. deild krefji mig um, er svar við þeirri spurningu, hvernig jeg ætlast til, að launauppbæturnar verði, ef þeirra yrði þörf hjá þeim, sem nú eru lægst launaðir, með svona auknum störfum. Því vil jeg svara þannig, að jeg ætlast alls ekki til að launalögunum verði breytt, þó þau tækju til einhverra þeirra, sem hækka þyrfti launin hjá; þeim vil jeg ekki láta hreyfa við fyrr en á þeim tilsetta tíma, 1925, er þau verða endurskoðuð. En þetta má verða á annan veg. Það er alkunnugt, að starfsmenn á skrifstofum stjórnarráðsins hafa ýmisleg aukastörf með höndum og þar mun breytingin valda mestri truflun. Sýnist það því brýn nauðsyn að hækka laun einhverra þeirra, þá væri einfaldast að leyfa þeim að vinna eitthvað af þeim aukastörfum í sjálfum starfstímanum.

Jeg get ekki gert neina glöggva áætlun yfir það, hve miklu sparnaðurinn myndi nema við þessa breytingu, yrði hún að lögum. Til þess er jeg ekki nægilega kunnugur og hefi heldur ekki fengið þær upplýsingar um þau efni, sem jeg hefi reynt að afla mjer. Við höfum líklega milli 10 og 20 ríkisskrifstofur, en á sumum þeirra er skrifstofutíminn máske svipaður því, sem hjer er farið fram á. En eitt getum við sjeð, og það er það, að þar sem 4 menn eru á skrifstofu og skrifstofutíminn lengist um 2 tíma, þá verður útkoman eins manns starf. Og væri þetta til staðar á 8 skrifstofum, þá er það 8 manna starf, sem sparast. Og þó vjer þyrftum að taka helming af launum þessara 8 manna til launabóta handa hinum, þá eru þó eftir laun 4 manna, sem sparast, og það eru líka peningar. Annars er það rjett, að það á algerlega að vera stjórnarinnar verk að koma lagi á þetta. Og þó lítið sparaðist við það peningalega, þá tel jeg þó rjett, að því verði komið í kring, því eins og jeg tók fram í upphafi, er ekki lítilsvert, að fyrirmyndarstarfsemi eigi sjer stað á skrifstofum hins opinbera. Því starf er það, sem á öllum tímum skapar athafnamanninn, og það, sem fyrst og fremst lyftir undir til allra þjóðþrifa, er starf, en iðjuleysið á hinn bóginn það, sem drepur niður jafnt einstaklinginn sem þjóðirnar.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um málið að sinni. Vænti jeg, að hv. deild lofi því, að lokinni umr., að ganga til nefndar, sem jeg leyfi mjer að leggja til að verði allshn. — Að lokum vildi jeg bæta því við, að ef til vill væri rjett að setja inn í frv. ákvæði um það, hvernig fara skuli, þegar starfsmenn verða veikir. Þegar slík tilfelli hafa borið að, þá mun ýmsum og ólíkum reglum hafa verið fylgt, en þeir munu oftast hafa verið látnir halda launum í lengri eða skemri tíma, en þó enginn maður komið í þeirra stað. Um þetta atriði væri æskilegt, að sett væru greinileg ákvæði inn í frv.