11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í C-deild Alþingistíðinda. (2329)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg vil leyfa mjer að taka það strax fram, að það var af vangá hjá mjer áðan, þegar jeg talaði, að jeg ekki drap á það, að önnur nefnd hjer í hv. deild, fjhn., hefir til meðferðar starfsmannahaldið í áfengisversluninni, en einmitt þar virðist sem mannahald sje óþarflega mikið. Falla skoðanir okkar flm. (ÞórJ) í því efni saman, og geri jeg ráð fyrir, að nefndin muni bráðlega koma fram með till. um breytingu á starfstilhöguninni á þessum skrifstofum og fækkun starfsmanna. Nær það fyrst og fremst, eins og jeg sagði, til vínverslunarinnar og landsverslunar.

Okkur hv. flm. (ÞórJ) ber í rauninni ekki neitt í milli, nema ef honum virðist sem nefndin hefði getað rannsakað málið svo til hlítar, að hún hefði getað borið fram ákveðnar till. um starfsmannafækkun. Nefndin sá sjer ekki fært að rannsaka málið svo, að hún gæti gert till. um, hvar skyldi fækka og hvað mikið. Hún gat aðeins aflað sjer nauðsynlegustu upplýsinga og gagna, en engar till. gert af þeim ástæðum, sem jeg skal nú víkja að.

Fyrst og fremst treysti nefndin sjer ekki að rannsaka svo alla starfsemi þessara stofnana, að fulltrygt væri, og yrði stjórnin að hafa alla framkvæmd í málinu. Upplýsingar gat nefndin ekki fengið aðrar en þær, að spyrja forstöðumenn skrifstofanna um starfshætti og launakjör, enda má ætla, að þeir sjeu allra manna kunnugastir um þetta, og jeg verð að segja það fyrir mitt leyti, að svo framarlega sem menn hafa ekki reynt annað en trúverðugleik af þessum mönnum, þá ætti að vera algerlega óhætt að leggja upp úr orðum þeirra, um þetta efni sem annað.

En svo virtist, að til þess að sparnaði yrði við komið, yrði að breyta um starfshætti, án þess þó að draga úr trygging stofnananna, og þó að nefndin gæti ekki rannsakað málið til hlítar, treysti jeg hæstv. landstjórn fyllilega til að leiða þetta til lykta. Hún hefir lengri tíma til þess en nefndin hefir átt kost á, og henni er í lófa lagið að gera allar þær ráðstafanir, sem hún telur nauðsynlegar til að koma verkinu í framkvæmd. Þetta, að gera störfin einfaldari og breyta fyrirkomulaginu, það er einmitt falið í brtt. nefndarinnar.

Hvað launakjörin snertir, þá er jeg, eins og jeg hefi drepið á, hv. flm. (ÞórJ) sammála um, að jeg tel laun manna við vínverslunina og landsverslunina alt of há, og jafnvel órjettmæt og í fylsta ósamræmi við önnur embættismannalaun, og getur það dregið illan dilk á eftir sjer.

Hv. flm. drap á — og kann það að vera eðlilegt frá hans sjónarmiði — að betra væri, að lögboðinn vinnutími væri á skrifstofunum. Jeg hygg ekki. Á sumum opinberum skrifstofum að minsta kosti mun allverulega vera unnið fram yfir stundum, — jafnvel upp í 9–10 stundir á dag. En ef vinnutíminn yrði lögboðinn 7–8 stundir, þá er jeg hræddur um, að starfsmenn myndu krefjast aukaborgunar fyrir yfirvinnu. Annars get jeg tekið það fram, að sanngjarnt virðist í alla staði, að laun þeirra manna sjeu hærri, þar sem lengur er unnið.

Hæstv. stjórn hefir nú heyrt álit nefndarinnar um það, að hún telur þann vinnutíma, sem frv. fer fram á, hæfilegan, og að ekki skuli borgað sjerstaklega fyrir aukavinnu, og lít jeg svo á, að hún geti því talið sig hafa yfirlýstan vilja í þessu efni, þó dagskráin verði samþ. Og þótt jeg sje ekki stuðningsmaður hæstv. stjórnar, treysti jeg henni fyllilega til að fara með þetta mál. Og jeg ætla, að tilgangurinn, sem liggur að baki frv., náist betur með dagskránni. Í þessu efni, eins og reyndar í allri starfsemi hins opinbera, heyrir það fyrst og fremst til, að forstöðumennirnir hafi strangt eftirlit með starfsmönnunum og sjái um, að hver geri skyldu sína. En því næst er það landsstjórnarinnar að hafa eftirlit með forstöðumönnunum og stofnunum og gæta þess, að þeir geri sína skyldu. Og að því leyti á hv. flm. þakkir skyldar fyrir frv., að það hefir vakið þetta umtal hjer í þinginu, sem ætti að verða til þess, að stjórnin fyndi enn ríkari hvöt hjá sjer til þessa eftirlits en verið hefir.

Hv. flm. drap á, að það, að enginn væri tekinn í skrifstofuna, þó annar forfallaðist, sannaði, að ekki væri þörf allra mannanna. Kann að vera, að svo sje sumstaðar, og skal jeg ekkert fullyrða um það, en jeg vil geta þess, að það þarf ekki að vera. Jeg veit, að til eru dæmi um, að störfum manns, sem forfallast, er bætt á annan, sem fyrir er, án þess að borgað sje fyrir, en þar sem greitt er fyrir aukavinnu á stjórnarskriftum, býst jeg við, að slíkt hafi einhvern kostnað í för með sjer. Og að lokum vil jeg geta þess — sem minnar persónulegu skoðunar, en ekki fyrir hönd nefndarinnar — að jeg vil ekki taka strangt á því, þó maður, sem veikist, fái borgað eitthvað af launum sínum, þann tíma, sem hann er frá störfum, einkum ef hann á bágt með að komast af án þeirra. Jeg tek ekki hart á tilhliðrunarsemi í því efni, þó auðvitað verði þar að vera samræmi, sem annarsstaðar. En þetta getur hver gert upp við sjálfan sig.

Jeg held, að jeg þurfi svo ekki að fjölyrða frekar um málið að sinni, því munurinn á skoðunum nefndarinnar og hv. flm. (ÞórJ) er ekki mikill í þessu máli.