11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í C-deild Alþingistíðinda. (2346)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Forsætisráðherra (JM):

Það kemur oft fyrir hjá sumum hv. þm., að þeir taka ekki orð manna eins og þau eru töluð, og svo fór áðan um hv. þm. Str. (TrÞ). Það, sem jeg sagði, var, að ekki hefðu aukastörf þessi verið borguð fremur í minni stjórnartíð en bæði fyrir og eftir. Skal jeg til dæmis nefna, að þegar landshöfðinginn bað mig um að gerast landshöfðingjaritara, þá sagði hann, að jeg skyldi hafa umfram embættisstörf mín bæði endurskoðun við Landsbankann og svo útgáfu Stjórnartíðindanna og þóknun, er þeim aukastörfum fylgdi. Þetta hafði verið svo áður og er að nokkru svo enn.

Það mun óhætt að fullyrða, að hvergi sje svo vel launað á þessum skrifstofum ríkisins, að menn geti lifað af þessu eingöngu. Hvort þetta sje heppilegt, skal jeg ekkert um segja, en hitt er víst, að þessari reglu með aukastörfin hefir verið fylgt til þessa.

Það er rjett, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) sagði, að í hans landritaratíð hafi ekki verið borgað fyrir reikningshald þeirra sjóða, sem hann gat um áðan. En þess er að gæta, að það reikningshald er miklu erfiðara nú en það var þá. Upplýsingar hv. 2. þm. Rang. voru því ekki nein sönnun þess, að óhæfilegt væri að borga fyrir þessi störf nú. Og jeg vil ekki heldur standa hv. 2. þm. Rang. að baki í því að bera sannleikanum vitni, og skal því bæta því við, að jeg hefi fyrir satt, að einn aðstoðarmaður í stjórnarráðinu hafi ekki fyrir alllöngu síðan farið fram á það við fyrv. atvrh. (KlJ), að hann fengi launabót, sem næmi 100 kr. á mánuði, og að hann hafi fengið þetta þegar í stað. Veit jeg ekki til, að nokkurntíma áður hafi verið svo ríflega skamtað úr þeim aski, enda hafa komið fram kvartanir um þetta frá öðrum skrifstofumönnum í stjórnarráðinu.

Að því er snertir fögnuð háttv. þm. Str. yfir nærveru minni nú, þá kann jeg honum þakkir fyrir. Fyrir fjarveru minni vil jeg aftur á móti gera grein á þann hátt, að jeg hefi ekki getað tekið neinn verulegan þátt í gangi málanna í Nd., sökum þess, að svo áliðið var þings, er jeg átti kost á því. Öðru máli er að gegna um Ed., því þar á jeg þingmannssæti. Að vísu hefir það hingað til verið venja, að ráðherrarnir sitji löngum í Nd., en þar með er ekki sagt, að þetta sje ávalt heppilegast.