11.03.1924
Neðri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í C-deild Alþingistíðinda. (2382)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Magnús Guðmundsson:

Það voru aðeins nokkur orð, sem jeg vildi segja út af ræðu hæstv. fjrh. (KlJ) í gær. Hann kvað það mundi vera tilgang minn að innleiða eldhúsdag. En svo var ekki. Ef jeg vildi fara að ýfast við þann hæstv. ráðherra, þá hefi jeg nóg tækifæri til þess síðar, því þótt hann verði ef til vill ekki lengi eftir þetta í þessu sæti, þá fer hann samt ekki út úr deildinni. Nei, það, sem gerir, að jeg fór að álasa hæstv. stjórn, var það, að mig tekur mjög sárt til þessa máls. Hæstv. ráðherra sagði út af verslunarjöfnuðinum, að það hefði ekki staðið nær sjer en mjer að hefta innflutninginn. Jeg skal játa það, að þetta stendur báðum jafnnærri, en jeg mun líka hafa gert ólíkt meira í þá átt. Hann kvað ár hafa liðið frá því er lögin voru staðfest um þessa heimild stjórnarinnar til aðflutningshafta og til þess er jeg hafi gefið út reglugerðina. En það er fjarri því, að svo hafi verið. Reglugerðin var gefin út þrem dögum eftir að lögin voru staðfest af konungi, en fyr var það vart mögulegt. Þótt undarlegt megi virðast, þá hefir hæstv. ráðherra gersamlega gleymt árinu, sem innflutningsnefndin starfaði, og er því engin furða, þótt hinu sögulega yfirliti hans skeiki nokkuð á þessu tímabili.

Hæstv. atvrh. (KlJ) sagði, að hæstv. stjórn hefði gert töluvert til að hefta innflutninginn. Jeg ætla mjer ekki að vefengja það, en undarlega kom mjer fyrir sjónir auglýsing frá stjórninni í sumar um það, að innflytjendur ættu að sækja um leyfi fyrirfram, en ekki eftir að vörurnar væru komnar hingað til landsins. Það stóð ekkert í þessari auglýsingu um það, að menn fengju ekki hvaða vörur, sem þeir bæðu um, aðeins að þeir sæktu um leyfið áður en innflutningurinn ætti sjer stað.

Jeg viðurkenni þá sannleiksást, sem fram kom hjá hæstv. atvrh. (KlJ), er hann játaði, að hægt hefði verið að ganga skarpar fram í máli þessu; en um leið og hann viðurkennir það, getur hann ekki ámælt mjer fyrir að finna að því, að linar hafi framkvæmdirnar verið.

Um það, sem gerðist á þinginu 1922, er ekki ástæða til að fjölyrða. Jeg rengi ekki það, sem hæst atvrh. (KlJ) segir, að hann hafi þá haft öflugan flokk að baki sjer. En hafi svo verið, og hann verið málinu fylgjandi, eins og hann segir, hversvegna var því þá ekki komið í framkvæmd, heldur aðeins látið ganga til 2. umr. og nefndar, sem það sofnaði í. Mjer virðist það benda ótvírætt á, að innflutningshöftin hafi ekki verið talin aðalatriði þess frv., enda var því skýrt yfir lýst af mjer og fleirum, að við værum í því atriði sammala.

Það hefir verið talað um, að enginn yfirlýstur þingvilji lægi fyrir frá þinginu 1922, og hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, að það hefði aðeins verið gert til hugnaðar stjórninni, að láta lögin frá 1920 standa. Má vel vera, að hann líti svo á, því að hann bar þá fram frv. um að nema lögin úr gildi. Og jeg skoðaði það frv. svo — og held það sje rjett — sem eina af tilraunum þess hv. þm. (JakM) til að koma þáverandi stjórn frá, því hún hafði lýst því yfir, að ef lögin væru úr gildi numin, myndi hún segja af sjer. Og ef jeg lít á atkvgr. um málið, þá sje jeg, að það voru einmitt menn úr Framsóknarflokknum, sem fylgdu honum. (JakM: Var þá stjórnin í minnihluta?) Nei, hún var ekki í minnihluta, sökum þess, að sumir vildu láta tillöguna ganga til 2. umr., þó þeir ætluðu sjer ekki að samþykkja hana að lokum; mætti benda á dæmi því til sönnunar. Hv. sami þm. (JakM) sagði, að girt væri með skilningi manna á þinginu 1921 fyrir það, að hefta mætti annað en alóþarfar vörur, en alls engar nauðsynjavörur. En í framsögu nefndarinnar stendur, að ekki megi hefta nauðsynjavörur, og ekkert ákveðið, hverjar þær sjeu, svo hefta má innflutning á öllu því, sem stjórnin telur ónauðsynlegt. Sami hv. þm. (JakM) talaði um, að við fengjum langtum lægra verð fyrir útfluttar vörur en í rauninni bæri. En hver getur gert við því? Við getum ekki annað en vandað vöruna og reynt að selja hana sem best, en markaðsverðinu fáum við ekki ráðið.

Mjer skildist, að afstaða hv. 3. þm. Reykv. (JakM) í málinu sje sú, að hann telji ekki, að hægt sje að koma á innflutningshöftum svo að gagni komi, en ef það væri framkvæmanlegt, þá væri innflutningshöft til góðs. Virðist mjer því, að við sjeum sammála um aðalgrundvöllinn. Jeg skal játa, að það er miklum vandkvæðum bundið að koma höftunum tryggilega á, en ef menn eru sammála um, að þau myndu draga úr innflutningi eitthvað og bæta hag ríkisins, þá virðist mjer auðsætt að reyna þau. Og þó við mætum miklum örðugleikum og tökum mörg víxlspor fyrst í stað, eins og æfinlega er fyrst í stað um slík mál, þá dugir ekki að setja það fyrir sig. Eins og enginn maður, sem sjóferð þarf að fara, hættir við hana, sakir þess eins, að hann veit að slys og torfærur kunna að mæta honum.