11.03.1924
Neðri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í C-deild Alþingistíðinda. (2387)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Jakob Möller:

Jeg þarf ekki miklu að svara í ræðum þeirra háttv. þm. sem nú hafa talað. Aðeins vildi jeg tala nokkuð um deilu þá, sem orðið hefir um þingviljann. Jeg hefi nú verið að lesa umræðurnar á þingi 1921, um frv. það, er jeg flutti þá, um að nema úr gildi heimildarlögin frá 8. mars 1920. Og þar sjest, að það er yfirlýstur vilji 7 manna af 10 í viðskiftamálanefnd, um það, að stjórnin beiti alls ekki á nokkurn hátt lögunum frá 8. mars, þó þau yrðu látin gilda áfram. Það er því fullkomlega sannað, að lögin voru látin vera í gildi aðeins til þess að hjálpa stjórninni yfir örðugasta augnablikið í sínu lífi. Þegar hv. 1. þm. Skagf. (MG) segir, að það hafi verið hans einlæg skoðun, að höftin væru eina bjargráðið, þá hefi jeg ekki efast um það. En því átakanlegra hefir það verið, þegar hann varð að hörfa frá þessu atriði 1921, bara til þess að stjórn hans gæti haldið áfram. Það verður því ekki um það deilt, að um eindreginn og yfirlýstan vilja þingsins 1921 hafi verið að ræða.

Út af ræðu 1. þm. Reykv. (JÞ) vil jeg taka fram, að mjer fanst hún nokkuð óákveðin, þar sem ræða var um þingviljan 1921. Jeg skal vekja athygli á því, að í umræðunum um frv. mitt um að fella úr gildi lögin frá 8. mars, þá segir hann, að þau sjeu svo lítilsverð, að þau geri ekkert gagn, og því greiði hann atkv. með frv. mínu. Þar með undirstrikar hann það, sem hann segir í nefndarálitinu, hvernig nefndin hefir litið á það, hvernig bæri hjeðan af að framkvæma lögin frá 8. mars, sem sje, að einskorða þau við óþarfan varning, það, sem í daglegu máli sje nefnt svo, en ekki þann varning, sem stjórnin kunni á ýmsum tímum að telja óþarfan, eftir ástæðum. Það má auðvitað lengi um það deila, hvað sje óþarfi eða ónauðsynlegt, er í nauðir rekur. En nefndin undirstrikar hjer, að það eigi ekki við annað en það, sem svo er nefnt í daglegu tali. Nú held jeg, að það sje óþarfi að deila um þingviljann 1921. Hann kemur hjer skýrt fram. Og hann skýrist enn meir við atkvgr. um frv. mitt. Háttv. 1. þm. Skagf. (MG) sagði, að það væri ekki rjett, að atkvgr. hefði ekki farið eftir afstöðu til stjórnarinnar. Í því sambandi vil jeg benda á atkvgr. háttv. 1. þm. Reykv. (JÞ). Hann greiddi atkv. með, og ætlaði að gera það út í gegn, ef til hefði komið. Og mun engum detta í hug, að hann hafi með því viljað fella stjórnina. Og fleiri stuðningsmenn stjórnarinnar greiddu frv. atkvæði. Jeg flutti frv. út af því, sem komið hafði fram í umræðum um hin almennu innflutningshöft, eða framkvæmdina á þeim, og með atkvgr. er undirstrikaður sá vilji þingsins, sem stjórnin og síðan tók til greina með því að banna eingöngu óþarfan varning.

Háttv. 1. þm. Skagf. (MG) fullyrðir, að síðan hafi ekki komið fram yfirlýstur þingvilji um málið. Það er rjett, og því er furðulegt, að hann skuli vera að víta hæstv. stjórn fyrir það að hafa ekki framfylgt þessum lögum.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að svara þessu frekar. Því hefir litlu verið svarað, sem jeg sagði hjer í gær. Jeg vildi aðeins leiðrjetta misskilning, sem mjer þótti kenna hjá háttv. 1. þm. Reykv. (JÞ). Jeg hefi aldrei haldið því fram, að lántaka gæti ráðið bót á raunverulegum verslunarhalla. (JÞ: Það sagði jeg heldur ekki.) Nei, en það mátti skilja það á orðum háttv. þm. Jeg sagði, að það væri eina leiðin til þess að stöðva gengi íslenskrar kr. gagnvart danskri. Það er engin ástæða til að óttast, að slíkt lán, til þess að greiða áfallnar skuldir, verði til þess að auka skuldir yfirleitt. Það er alls ekki meiningin, að hjer verði um óvæntar greiðslur að ræða, heldur ekki að borga allskonar skuldir, en að ljetta undir þær greiðslur, sem menn geta int af hendi.

Háttv. aðalflm. (HStef) virtist vilja vefengja það, að það væri rjett, sem hjer hefir verið haldið fram, að það sje mismunurinn á kaupgetu þjóðarinnar í heild, sem haft hafi áhrif í þá átt að skapa halla á viðskiftareikningi þjóðarinnar við útlönd. Hann hjelt því fram, að kaupgeta almennings væri tæmd. En hún getur legið við neyð og þó verið meiri en svari kaupgetu heildarinnar gagnvart útlöndum. En um það verður ekki deilt, að ef meira er keypt og eytt af erlendri vöru en framleiðslu landsins svari, þá hlýtur það að vera af því, að kaupgeta einstaklinga sje meiri en kaupgetu heildarinnar svari. En til þess geta legið ýmsar orsakir, eins og háttv. 1. þm. Reykv. (JÞ) tók fram, svo sem hin falska kaupgeta ríkissjóðs, sem mynduð er með tekjuhalla. Aftur finst mjer dálítið vafasamt, hve mikla áherslu beri að leggja á það að borga afborganir af skuldum ríkisins nú, er atvinnuvegirnir eiga sem erfiðast. Það er líka óálitlegt að kappkosta mjög að greiða skuldir, þegar gengi er lágt og ríkið verður að borga hátt verð fyrir útlendan gjaldeyri. Það verður að fara eftir ástæðum, en mjer finst fullmikið gert úr því, að ástæða sje til þess að borga sem mest af ríkisskuldunum, þegar mest kreppir að.

Að sinni ætla jeg ekki að tala meira um þetta mál alment. Þó verð jeg að segja það, að mjer virðist hæpið að ætla að hefta eða banna innflutning á svo og svo miklu af vörum, sem til landsins flytjast, og um leið að auka tekjur ríkissjóðs, eins og bersýnilegt er að þarf. En til þess verður þá ekki önnur leið en sú, að leggja þann tekjuauka á allra nauðsynlegustu vörur, sem inn verða fluttar. Ef banna á óþarfan varning, verður að margfalda toll á nauðsynjavörum. Önnur leið er ekki fær. Það er ekki fær leið að auka beina skatta, eftir því sem slíku hefir byrjað á þingum undanfarið. En mjer virðist þetta hættuleg braut, að auka dýrtíð á öllum vörum, sem þarf til rekstrar atvinnuveganna og framfærslu almennings.

Dýrtíðin knýr þarfir manna upp og veldur því, að kaupkröfur einstaklinganna hækka og kaupgjald hækkar þá og óumflýjanlega, en við það aukast erfiðleikar atvinnuveganna og gjaldþol þeirra rýrnar.

Það er því háskaleg braut, sem lagt er inn á, ef á að fara að tolla nauðsynjavörur stórlega, því það eru þær, sem alt miðast við. Mjer virðist því liggja miklu beinna við, hvað snertir þær vörur, sem hjer á að banna, að leggja á þær háan toll og afla ríkissjóði tekna á þann hátt, um leið og með því yrði dregið úr innflutningnum.