16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í C-deild Alþingistíðinda. (2407)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Magnús Torfason:

Allir þm., jafnvel hv. 3. þm. Reykv. (JakM) geta undirstrikað þau orð, er standa fyrir neðan nál. (MJ: Á að fara að neyða menn til að taka til máls?) Það var óþarft fyrir hann að munnhöggva mig, og virði jeg það vettugi, en sný mjer að málinu sjálfu.

Það sem því deilan stendur um, er ekki það, hvort innflutningshöft skuli haldast eða ekki, heldur, hve langt skuli gengið á þeirri braut. Annar flokkurinn vill, að haftavaldið sje hjá þinginu, en hinn vill hafa það hjá stjórninni, og um þetta er barist. En það einkennilega er, að umræðurnar snúast ekki um það, heldur um hitt, hver eigi að fara með haftavaldið. Og er ekkert um það að segja annað en „klipt var það, skorið var það.“ Nú ef aðeins væri um þessar tvær leiðir að ræða, kýs jeg heldur, að valdið sje hjá þinginu. Fyrst og fremst er það af því, að jeg er þingmaður, en ekki stýrimaður. Í öðru lagi stafar það af því, að þótt hv. atvrh. (MG) sje höftum hlyntur, er jeg ekki viss um, að hann sje einráður í þessu efni.

En í þessu máli er ekkert „annaðhvort eða.“ Það er nefnilega til miðlunarleið. Það eru til vörur, sem öllum kemur saman um að eigi að banna, og líka til vörur, sem öllum kemur saman um, að ekki sje hægt að banna innflutning á. En svo er til flokkur af vörum, sem á að takmarka innflutning á, eftir að rannsakað hefir verið, að hve miklu leyti það sje fært. En sú rannsókn hefir ekki farið fram, af því stjórnhaftaflokkurinn hefir neikvæða aðstöðu til haftafrv. Væri þetta ráð tekið, að hafa miðflokk, hefði þingið vissu fyrir því, að tilgangi haftalaganna yrði náð í öllum verulegum atriðum. Með þessu móti væri stjórninni gefið vald til að undanþiggja ákveðnar vörutegundir og fundin leið til að tryggja hagsmuni ríkissjóðs, og atvinnumálaráðherra losaður við nudd kaupmanna viðvíkjandi undanþágum og ljett af honum öllum hugraunum um það, hvort hann á að prjóna í dag, hekla á morgun og knipla þriðja daginn.

Jeg skal ekki að svo stöddu fara út í einstök atriði till. minnar, en víst er um það, að hún raskar bæði frv. og reglugerðinni frá 11. mars 1920, og breytir grundvelli haftamálsins. Þar er aðeins gert ráð fyrir að hefta innflutning á óþörfum vörum, og vitanlega er þar gengið of skamt, því að nú eru þingmenn sammála um að draga þurfi úr innflutningi á vörum, er ekki geta talist beinlínis óþarfar. Jeg er sammála hæstv. atvrh. (MG) um það, að varhugavert geti verið að fastákveða innflutning með lögum, en víst er, að ekki er síður varhugavert að láta stjórnina leika lausum hala, ekki síst á meðan svo fengsamur fjármálaráðherra er við stýrið og nú.

A. m. k. býst jeg ekki við, að bannaður yrði innflutningur á sumum vörum, er vera ættu í milliflokknum, til langframa, og því er sjálfsagt að hafa þær í sjerstökum flokki, og veita stjórninni rjett til að veita undanþágur frá innflutningsbanni á þeim. Reynslan verður auðvitað að skera úr, hvort banna skuli innflutning á þessum vörum og hve lengi. Og það er til eitt fyrirbæri, er segir til, hvenær slakað skuli á höftunum. Það er verðið. Þegar of lítið er orðið af vörum í landinu, verður farið að okra á þeim.

Því á stjórnin að fá vald til að leyfa undanþágur. En að veita einstökum mönnum þessar undanþágur, er jeg algerlega mótfallinn. Það býr til misrjetti og óánægju, og er engin trygging fyrir, að það komi í veg fyrir okur. Því er rjettara að veita landsverslun einkasölu á sumum af þessum vörum, eða leyfa alveg frjálsan innflutning í bili. Einmitt sú aðferð mundi verða til þess að halda okri niðri. Ef menn ættu stöðugt innflutningshöft yfir höfði sjer, myndu þeir ekki fara að liggja með vörur í því skyni að okra á þeim. Ef þetta næði fram að ganga, þrengdist svið haftadeilunnar að miklum mun. Deilan hlyti að standa um það eitt, hvaða vörur lentu í miðflokknum. Jeg hefi nú áður tekið fram, að þar ættu að lenda vörur, sem ekki gætu talist óþarfar, en þó væri ástæða til að takmarka innflutning á. Sumir vildu koma mörgum vörum í þennan flokk, aðrir fáum, og mundi þá barist um fáeinar vörutegundir, en æsingamál gæti það aldrei orðið, því um stórmál væri hjer ekki að tefla.

Það hefir verið sagt, að þetta mál sje einn þátturinn í gengismálinu. Því er ekki að leyna, að fyrsta og helsta starf þessa þings átti að vera viðreisn gengisins, en einn þátturinn í því er vissulega höft. Um það eru allir sammála, að þau bæti verslunarjöfnuðinn og að það sje einna mest áríðandi fyrir oss.

Hinsvegar hefir það verið haft gegn höftunum, að þau dragi úr greiðslu ríkisskuldanna, sem allmikil áhersla hefir verið lögð á að greiða. Það þarf þó ekki að vera að öllu leyti. Árangurinn af þessum ráðstöfunum á að vera sá, að gengið hækki, en við það minka vextir og greiðslur af erlendum lánum, og nýtur ríkissjóðurinn þess. En það nær ekki til ríkissjóðsins eins, heldur og til annara stofnana, svo sem bankanna. Þessa er ekki getið í nál., og þykir mjer það merkilegt, þar sem bankarnir hafa farið fram á, að sett yrðu nokkur höft, og telja þeir það fyrsta ráðið til þess að laga verslunarjöfnuðinn gagnvart útlöndum. Nú er það vitanlegt, að bankarnir skulda ófáfje í útlöndum, og stendur þeim því ekki á sama um, hvort gengið hækkar eða lækkar. Og þá verð jeg að segja það, að jeg tel óvíst, hvort framar á að meta, að ríkissjóður missi nokkur hundruð þúsunda af tekjum sínum, eða bönkunum sje hjálpað til að losna við erlendar skuldir. Hæstv. stjórn tekur á sig mikla ábyrgð, ef hún gengur í gegn tillögum bankanna, því að það er víst, að þeir þurfa stuðnings.

Jeg hefi áður í þingræðu tekið fram, að jeg, sem margir aðrir, tel hækkun gengisins aðalbjargráð vort. Einmitt þessvegna tel jeg nauðsyn á skörpum höftum í bili, einkum þar sem horfur eru á því, að engum öðrum bjargráðum í þessu efni fáist framgengt nú á þingi. Þar sem þetta er talið koma illa niður á kaupmönnum, tel jeg skakt á litið af þeim að vera andstæðir skörpum höftum í svip. Það er víst, að ef oss tekst að skapa traust á krónunni, svo að gengið tæki að hækka, mundi það draga úr nauðsyn aðflutningshafta, þá mundi enginn kaupmaður þora að birgja sig upp, vegna þess tjóns, sem hann kynni að hafa af því, að vörurnar lækkuðu í verði í útlöndum, og mundi það verða til þess, að í landinu væri eins lítið af vörum og minst má komast af með. En þegar svo er komið, má slaka á höftunum, tilganginum er þá að miklu náð, og nauðsyn þeirra miklum mun minni. Með skörpum höftum verður því þrautin stutt hjá atvinnurekendum þeim, sem hafa tjón af þeim.

Það var tekið fram í ræðu í gær, að Danir hafi sýnt það við nýafstaðnar kosningar, að þeir væru mótfallnir höftum. Jeg verð að segja, að jeg skil ekki mælt mál, ef þessu er þannig varið. Jeg veit ekki betur en að þeir flokkar, sem urðu ofan á, sjeu einmitt með höftum.

Þá er eitt atriði, sem jeg tel að geri það óhjákvæmilegt, að þingið setji nú lög um innflutningshöft. Þetta frv. hefir verið rætt mjög í erlendum blöðum, og einkum dönskum, og höfum vjer fengið þar gott lof fyrir þessa bjargarviðleitni vora. Þar eru þessi mál í hinni mestu óreiðu, og er það að heyra á blöðunum, að þau öfundi oss af því að hafa kjark til að hafast eitthvað að. En það er ekki einskisvert fyrir oss, hvernig Danir líta á þetta mál, þar sem það er nú komið fram, að íslenska krónan er bundin hinni dönsku. Jeg held því fast við það, að ef vjer bregðumst því trausti, sem útlendir hafa á þessari bjargarviðleitni vorri, þá muni það hafa tilfinnanleg áhrif á gengið. Jeg tel því, að ekki megi fella frv., heldur sje skylda þingsins að láta það ganga fram í einhverri mynd. Í öðru eins máli og þessu er það skylda hæstv. stjórnar að draga hugi manna saman, en gera ekki neitt til þess að draga þá sundur, en það gerir hún, ef hún legst á móti frv.