21.02.1924
Neðri deild: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í C-deild Alþingistíðinda. (2418)

10. mál, fræðsla barna

Forsætisráðherra (SE):

Þegar skólamálin voru til umr. á síðasta þingi, lýsti stjórnin því yfir, að hún mundi leitast við að undirbúa skólamálin undir þetta þing. En vegna hinna sívaxandi fjárhagsörðugleika hefir stjórnin ekki sjeð sjer fært að koma með tillögur í fræðslumálunum, sem hefðu aukin útgjöld í för með sjer að nokkrum mun. Á síðasta þingi var talsvert deilt um það, hvort tiltækilegt mundi að breyta gagnfræðaskólanum á Akureyri í almennan mentaskóla. Stjórnin lítur svo á, að þetta geti ekki komið til mála, bæði vegna aukins kostnaðar og vegna þess, að kenslukraftar í landinu væri ekki nægir til tveggja slíkra skóla, auk þess sem stjórnin sjer enga nauðsyn á þessu.

Stjórnin er á þeirri skoðun, að fyrir hinni æðri mentun verði betur sjeð með sjerstökum lærðum skóla í Reykjavík, en samtímis yrði að sjá fyrir gagnfræðaskóla hjer, en til þess eru engin ráð eins og nú standa sakir. Telur stjórnin, að vel megi una við það fyrirkomulag, sem nú er, enn um nokkurra ára bil. Aftur á móti taldi stjórnin sjálfsagt að leggja þetta frv., sem hjer ræðir um, ásamt nokkrum öðrum frv., fyrir þetta þing; er það að mestu samið af mentamálanefndinni frá 1920; hefir þetta frv. komist inn á þing áður, en dagaði uppi í nefnd í það skifti. Mentamálanefnd hafði ekki í þessu frv. breytt í neinu grundvallaratriðum gildandi laga um þessi efni. Gerðar eru nokkuð meiri kröfur til fræðslunnar en áður, t. d. er ætlast til, að dráttlist verði skyldugrein, ennfremur er skipun skólanefnda hagað öðruvísi en áður, þannig, að meiri trygging er fyrir því, að nefndirnar hafi sjerþekkingu. Þá eru og nýjar reglugerðir um heimavistaskóla. Jeg leyfi mjer að óska, að málinu verði, að lokinni umr., vísað til hæstv. mentamálanefndar.