21.02.1924
Neðri deild: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í C-deild Alþingistíðinda. (2421)

13. mál, yfirstjórn og umsjón fræðslumála

Forsætisráðherra (SE):

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. Hjer er farið fram á, að stofnuð verði sjerstök skólaráð til yfirumsjónar með skólunum, og er með þessu til þess ætlast, að skólastjórnirnar verði eftirleiðis meiri sjerþekkingar aðnjótandi um það, er skólana varðar, en áður hefir verið. Stjórninni fanst rjett, að Alþingi fengi að sjá þessar tillögur mentamálanefndarinnar frá 1920, sem felast í þessu frv., og fjalla um þær, og því hefi jeg lagt þetta frv. hjer fram, enda þótt jeg sjálfur sje í vafa um það, hvort þær breytingar, sem hjer er farið fram á, muni verða sem heppilegastar í alla staði. Jeg leyfi mjer að óska, að frv. verði, að umræðunni lokinni, vísað til mentamálanefndar.