23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

1. mál, fjárlög 1925

Ingibjörg H. Bjarnason:

Mjer þykir hlýða að segja nokkur orð um tillögu mentmn. á þskj. 417, um ritstyrk til Sigurðar prófessors Nordals. Að vísu hefir allmikið verið rætt um þetta, og býst jeg ekki við að segja neitt nýtt, en jeg vildi aðeins undirstrika, að jeg er alveg samdóma því, er háttv. meðnefndarmenn mínir hafa sagt. Það var enginn ágreiningur í nefndinni um það, að hjer bæri að taka tillit til einhvers, sem er ekki hversdagslegt. Skal jeg ekki þreyta hv. deild á langri tölu um nauðsyn Sigurðar prófessors Nordals fyrir háskólann og heimspekideildina, og nægir mjer í því efni að vísa til erindis heimspekideildarinnar, sem nefndinni barst og jeg skal nú lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Erindi háttvirtrar mentamálanefndar Ed., dags. 15. þ. m., um prófessor Sigurð Nordal, var lagt fyrir fund heimspekisdeildar í dag, og er álit deildarinnar á þessa leið:

Deildin telur það stórtjón fyrir kensluna í íslenskum bókmentum hjer við háskólann og fyrir bókmentir vorar, ef prófessors Sigurðar Nordals missir hjer við, og það því fremur, sem hún sem stendur veit ekki völ á neinum þeim, er fylt gæti skarð það, er yrði við burtför hans frá háskólanum. Vill deildin því mæla hið besta með því, að Alþingi geri það sem þarf til þess, að prófessor Sigurður Nordal verði áfram í embætti sínu.

Þetta var samþykt í einu hljóði.

Fjarverandi: prófessor Sigurður Nordal og dócent Bjarni Jónsson frá Vogi.

Guðm. Finnbogason

p.t. deildarforseti“.

Jeg vil leyfa mjer að vísa til þessa skjals, því að jeg er ekki bær um að dæma um þetta atriði. En um nauðsyn Sigurðar Nordals fyrir sálnagróður þessarar þjóðar, og það ekki síst ungu sálnanna, hefi jeg mína skoðun, og er hún bygð á nautn þeirri, sem jeg og fleiri eiga fyrirlestrum hans að þakka. Þar fer saman á óvenjulega háu stigi skarpskygni augans að aðskilja ólík efni og safna því saman, sem líkt er og skylt, skáldlegt flug, dýpt hugsana, mýkt málsins og látleysi. Hygg jeg, að jeg geti fengið marga til að taka undir þessa lýsingu mína á hæfileikum Sigurðar Nordals sem kennara í móðurmálinu. Þetta eigum vjer á hættu að missa úr landi frá lítt ruddum andans akri. Þó að auðið væri að fá annan mann — því að jafnan kemur maður í manns stað — þá er miklu slept. En sem betur fer eigum vjer kost á að halda þessum óvenjulega „vekjara“. Verðið er 2000 kr., að viðbættri dýrtíðaruppbót, eða alls 3000 kr. Jeg skal ekki taka að mjer að meta gildi hans eða annara mætra manna í krónum. En jeg trúi því ekki, að menn láti þetta tækifæri ónotað. Væri auðvelt að benda á ekki fáa, heldur allmarga útgjaldaliði, sem mjög orka meira tvímælis en þessi.

Það er talið gott að flytja út dautt kjöt og fisk, enda verður gæfan oss sennilega góð í því efni þetta árið. En að flytja út lifandi anda, sennilega einn af þeim fáu, sem eru ómissandi fyrir sálir þessa lands, vil jeg ekki styðja með atkvæði mínu. Mentmn. er skipuð mönnum úr ólíkum flokkum og kennir þar allra pólitískra grasa. Þó hefir nefndin orðið einhuga um það að mæla sem best með þessari fjárveitingu.

Jeg skal svo ekki lengja mál mitt um þetta. Jeg tók frekar til máls til þess að leggja áherslu á, að nefndin er öll sammála í þessu efni og fylgir tillögunni fast, heldur en af því, að jeg ætlaði að segja eitthvað nýtt, sem áður hefir ekki komið fram.