03.03.1924
Neðri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í C-deild Alþingistíðinda. (2515)

58. mál, stofnun háskóla

Tryggvi Þórhallsson:

Það er aðeins örstutt athugasemd. — Jeg tek það strax fram, að mjer þótti vænt um þetta frv. og anda þann, sem að baki liggur, og jeg vona, að á bak við það standi sterk öfl frá báðum aðalflokkunum, um að gera nú alvarlegar tilraunir til embættafækkunar. En það er alveg sjerstakt atriði, sem jeg ætla að gera að umtalsefni í þetta sinn.

Það hafa fleiri frv. en þetta komið fram um það að spara mannahald við háskólann, og þau hafa gefið tvímælalaust í skyn, hvað við ætti að taka, ef embættin yrðu lögð niður. Jeg tók það fram í umræðunum um frv. um að leggja niður dósentsembættið í klassiskum fræðum við háskólann, að það ætti að koma til framkvæmda þegar í stað og að viðkomandi mann skyldi flytja að mentaskólanum. Sömuleiðis er nú frumvarp í Ed. um embættisniðurlagning, og í því sambandi talað um að flytja þann mann, er því gegnir, í annaðhvort af tveimur, forstöðumannsembætti landsbókasafnsins eða fræðslumálastjóraembættið. Það var bent á, að þessi fækkun embættanna gæti orðið svo að segja strax, er ákveðin starfaskifti gátu átt sjer stað. En nú stendur í þessu frv., sem hjer er rætt um, að til þess að þessi embættafækkun geti sem fyrst komist á, skuli ákvæðum 16. greinar stjórnarskrárinnar beitt. Með þessu er það lagt á stjórnarinnar vald, hvenær þetta kemur til framkvæmda, þrátt fyrir það, að þingið hafi þegar látið í ljós vilja sinn um, að þetta skuli strax koma fram. Jeg finn ástæðu til þess að benda háttv. flm. á þetta; því á þinginu 1922 ljet hann uppi ákveðnari skoðanir á þessu máli. Þá var til umræðu frv. um að leggja niður dósentsembættið í klassiskum fræðum. Ætla jeg með leyfi hæstv. forseta að lesa upp nokkur orð úr ræðu hans þá. Þar segir hann svo til forsætisráðherrans:

„Hann heldur því fram, að ekki megi leggja niður embætti, nema embættismönnum þeim, sem fyrir því verða, sje sjeð fyrir framfærslu á kostnað ríkisins. Þetta hefir við engin rök að styðjast. Það hefir verið regla hingað til, að embættismenn hjeldu embættum sínum meðan þeirra er þörf og þeir ekki hafa brotið af sjer við ríkið, þannig, að þeim sje vikið frá. — Hitt væri nýtt, ef ríkið þyrfti manna við til einhverra starfa, að það sje skyldugt að sjá þeim fyrir æfinlegum lífeyri, eftir að starfið er úr sögunni. Þetta nær auðvitað engri átt. Það er ekkert tiltökumál, þó að embætti sjeu lögð niður, og hefir það hingað til þótt sjálfsagt, ef embættin hafa orðið óþörf, og löggjafarvaldið ákveður sjálft þær reglur, sem það fer eftir í því. Mjer finst það ógeðfeld hugsun, að sá maður, sem kallaður er embættismaður ríkisins, hafi áunnið sjer æfinlegan framfærslurjett, — nokkurskonar sveitfesti á ríkissjóði.“

Þetta er með öðrum orðum ákveðin skoðun, sem hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) þá hjelt fram, og jeg skrifa undir hvert orð af því, sem hann hefir þá sagt. En þar sem nú eru fram komin ákvæði um að þessar embættafækkanir verði framkvæmdar strax, með færslu yfir í önnur tiltekin störf, þá finst mjer þetta fullrúmlega orðað í frv. þessu, og jeg vil beina því til háttv. flm., hvort þetta sje tilviljun ein, eða að hann ætlist til, að það komi ekki til framkvæmda fyr en nokkru síðar.