03.03.1924
Neðri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í C-deild Alþingistíðinda. (2517)

58. mál, stofnun háskóla

Forsætisráðherra (SE):

Jeg ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp nokkur orð úr ræðu þeirri, sem jeg hjelt á þinginu 1922 í þessu máli, sem hv. þm. Str. (TrÞ) vitnaði í. Þau eru á þessa leið:

Háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) þótti það ógeðfelt, að ekki mætti kasta embættismönnum á gaddinn. En það er þó ekki í fyrsta sinn, sem þessu er haldið fram nú. Jeg veit ekki betur en að það hafi verið algild regla hjá þjóðinni undanfarið að veita embættismönnum biðlaun og eftirlaun, ef þeir hafa látið af embætti. Það er alt annað mál, ef embættismaðurinn sýnir sig ekki færan að gegna embætti eða brýtur eitthvað af sjer. Þá á hann enga kröfu á hendur ríkinu. Það hefir hingað til verið skoðað siðferðileg skylda að kasta ekki embættismönnum á gaddinn fyrirvaralaust. Má t. d. nefna, þegar landritaraembættið var lagt niður o. s. frv.“

Það, sem jeg sagði á því þingi, var með öðrum orðum ekki það, að ríkið yrði að sjá þessum mönnum fyrir lífstíðarframfærslu, heldur, að ekki dygði að ætla sjer að kasta þeim út á gaddinn fyrirvaralaust.

Tel jeg líka vafasamt, að embættismenn hafi kröfu til biðlauna eftir núgildandi lögum. Og hvað sem um það væri, þá er eitt víst, að kennarinn í klassiskum fræðum við háskólann hefir enga slíka lagalega kröfu.

Það gleður mig annars mjög, að hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) skuli nú ekki lengur hallast að því að svifta þennan mann starfinu á slíkan hátt, enda var þess að vænta um mann, sem heyrir til jafnöflugum Íhaldsflokki og hjer hefir nú verið stofnaður. Það er einmitt þetta, sem er höfuðstyrkur íhaldsins, að það fer varlega í að breyta ríkjandi fyrirkomulagi. Er jeg hjartanlega sammála flokknum í þessu, að ekki hæfi, að Alþingi taki svona bolsjevíkastökk, eins og einstaka þm. virðast hafa svo ríka tilhneigingu til. Mun það verða mörgum mikil hugfróun í framtíðinni að vita, að flokkur er nú upprisinn til þess að vaka yfir að annað eins ranglæti og jeg hefi hjer minst á eigi sjer ekki stað.