08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í C-deild Alþingistíðinda. (2529)

58. mál, stofnun háskóla

Jón Kjartansson:

Jeg vil með nokkrum orðum skýra frá því, í hverju mig greinir á við nefndina. Jeg vil þá strax taka það fram, að mjer var hálfilla við brtt. nefndarinnar um að fækka prófessorum við lagadeild, þó jeg gerði það ekki að ágreiningsatriði. Jeg get eftir atvikum fallist á það að fækka um einn prófessor, með því skilyrði, að ákveðinn yrði fastur aukakennari. Það er ekki víst, að deildin bíði neinn halla við það, því það er óheppilegt, að það sje strax, án nokkurrar reynslu, ákveðið um einn mann, að hann skuli verða prófessor. Jeg held einmitt, að það sje heppilegt að hafa aukakennarastöðu sem millistig og einskonar skóla fyrir mann, sem á að verða prófessor.

Hinsvegar hafði jeg hugsað mjer að koma með brtt. við frv. í þá átt, að það væri beint skilyrði fyrir veitingu dósents- eða prófessorsembættisins að hafa verið settur í embættið a. m. k. eitt ár. Jeg hefi þó ekki komið fram með brtt. í þessa átt, en getur verið, að jeg geri það við 3. umr. Jeg hefi átt tal um það við ýmsa menn, og þeir hafa álitið, að það mundi vera til mikilla bóta.

Þá hefir mig greint á við nefndina um heimspekisdeildina. Þar var jeg sömu skoðunar og hæstv. fjrh. (JÞ), að prófessor væri ákveðinn einn, en svo væru þrír góðir starfskraftar ofan af safni tengdir deildinni, í samræmi við till. próf. Halldórs Hermannssonar, sem jeg álít heppilegast. En það var ómögulegt að fá samkomulag um þetta í nefndinni, svo jeg kaus að halda með frv., eins og það liggur fyrir, og þá um leið að verða með sameining landsbóka- og þjóðskjalavarðarembættanna. Og tel jeg því ekki fært, að f liður 4. brtt. nefndarinnar sje samþyktur, ef sameining embætanna á fram að ganga. Jeg felst því á það, að atkvgr. um þennnan lið sje frestað, þangað til sjest, hvernig fer um sameininguna.