23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

1. mál, fjárlög 1925

Einar Árnason:

Jeg skal ekki tefja þessar umræður lengi. Það eru aðeins tvö atriði, sem jeg vil minnast á.

Viðvíkjandi brtt. frá háttv. þm. Vestm. (JJós), um fjárveitingu til erindrekstrar í Miðjarðarhafslöndunum, skal jeg strax taka það fram, að jeg get alls ekki greitt atkvæði með þeirri fjárveitingu. í fjárlagafrv. eru 15000 kr. ætlaðar til markaðsleitar, og jeg býst við, að eitthvað af þeirri upphæð verði notað til markaðsleitar fyrir saltfisk í Miðjarðarhafslöndunum, ef það verður álitið nauðsynlegt og líkur þykja fyrir því, að það muni koma að notum. Annars finst mjer fiskframleiðendur sjálfir hugsa alt of lítið um þetta mál, og mjer finst ekki vera nein ástæða til þess, að ríkissjóður kosti miklu til slíks, ef þeir vilja ekkert á sig leggja. Fiskframleiðendur ættu að hafa samtök með sjer til þess að koma fisksölumálinu í gott horf og þeim ætti alls ekki að vera ofvaxið að hafa skrifstofu á Spáni, til þess að afla upplýsinga um markaðshorfur og yfirleitt að greiða fyrir fisksölunni. En slíkt hafa þeir aldrei gert, og mun það vera mikið sökum þess, að þeir, sem fiskinn selja, eru ekki framleiðendurnir sjálfir, heldur menn, sem gera sjer að atvinnu að versla með framleiðsluna, og því hefir verið erfiðara að koma á nokkrum fjelagsskap eða fá þá til að leggja nokkuð fram til sameiginlegra þarfa. Nú er það svo, að það kaupsýslufjelag, sem hefir með höndum sölu á meiri hlutanum af landbúnaðarframleiðslunni, starfar að því sem umboðsmaður framleiðendanna sjálfra, og er því í þjónustu þeirra fyrir ákveðið kaup. Þetta fjelag hefir nú um allmörg ár haft umboðsmenn og fastar skrifstofur í nágrannalöndunum, sem hafa unnið ótrauðlega að því að vinna nýja markaði fyrir landbúnaðarafurðir og hækka verð þeirra. Hefir þetta skipulag heppnast ágætlega og bændurnir fengið sannvirði fyrir vörur sínar. Nú hafa framleiðendurnir sjálfir kostað þessa starfsemi erlendis án nokkurs stuðnings frá ríkissjóði. Því er ekki nema ofureðlilegt, þó spurt sje: Getur ekki sjávarútvegurinn farið líkt að; unnið í fjelagsskap að sölunni og borið kostnaðinn sameiginlega? Og jeg vil ennfremur varpa fram einni spurningu til hæstv. atvrh.: Til hvers sjerstaklega hygst stjórnin að nota þá fjárveitingu í fjárlögunum, sem ætluð er til markaðsleitar erlendis, og hver á að fá hana?

Þá get jeg ekki algerlega gengið framhjá þeim umræðum, sem hjer hafa orðið um innflutningshöftin. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi samvn. viðskiftamála í sambandi við afnám bráðabirgðalaganna frá 1920. Hin margnefndu lög frá 8. mars 1920 urðu til þess, að þáverandi hæstv. stjórn setti bráðabirgðalög um innflutningshöft 15. apríl 1920 og skipaði viðskiftanefnd. Sú stjórn mun hafa talið sig hafa heimild til þess í rökstuddri dagskrá, sem samþykt var þá í þinglokin.

Á þingi 1921 kom fram frv. um aðflutningsbann á óþarfavarningi, og átti það frv. að vera til staðfestingar á bráðabirgðalögunum frá 1920. Það frv. var borið fram í hv. Nd. og var vísað til viðskiftamálanefndar þar, en þegar sú nefnd hafði haft málið til meðferðar nokkurn tíma, varð það að ráði, að tilsvarandi nefnd í Ed. gengi með henni í eina nefnd. Eins og nál. þeirrar nefndar ber með sjer, voru nefndarmenn alls ekki sammála, þó samkomulag yrði um eitt nál. Af 9 mönnum, sem skrifuðu undir nál., voru aðeins 5 á móti aðflutningshöftum og vildu afnema bráðabirgðalögin frá 1920.

Þetta frv. var rætt í hv. Nd. og var felt þar og kom aldrei til Ed., svo jeg fjekk ekki tækifæri til að segja neitt um það við umræðurnar. En háttv. þm. Borgf., sem einnig átti sæti í nefndinni, mælti eindregið með því, að stjórnin notaði heimildarlögin frá 1920, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp lítinn kafla úr ræðu, sem hann hjelt við umr. þessa máls í hv. Nd. Honum fórust svo orð í niðurlagi ræðu sinnar:

„... Að endingu vil jeg brýna það fyrir hæstv. stjórn að taka föstum tökum á þessu máli og kveinka sjer ekki, þó það komi ef til vill í bága við hagsmuni einstakra manna. Fyrst og fremst ber að líta á hagsmuni þjóðfjelagsheildarinnar, og ef hagsmunir annara rekast á hana, þá verða þeir að lúta. Með þessum skilningi á því, hvernig heimildarlögin frá 8. mars 1920 sjeu notuð, get jeg gengið inn á, að málið sje leitt til heppilegra úrslita á þann hátt, sem nefndin leggur til.“

Jeg hefi viljað draga þetta hjer fram vegna þess, að hv. þm. Borgf. talaði hjer í umboði okkar, sem vorum í minni hluta í nefndinni. Ennfremur vil jeg geta þess, að þáverandi og núverandi forsrh. leit svo á, að aðflutningshöft væru nauðsynleg. Honum fórust meðal annars þannig orð við umr. málsins:

„ ... Mín persónulega skoðun er sú, að rjettast hefði verið að halda innflutningshöftum í engu minni mæli en nú eru þau. Og jeg hygg, að það mundi hafa komið í ljós einmitt enn betur, að þau væru heppileg, ef þeim hefði verið haldið í gildi enn þetta ár. Þau nutu sín auðvitað ekki í byrjun. Það dylst engum, að oss ríður mest á því að forðast að kaupa frá útlöndum annað en það, sem beint er bráðnauðsynlegt, en ónauðsynlegur varningur eru ekki einungis þær vörur, sem aldrei er þörf á, heldur og nauðsynjavörur fram yfir þörf.“

Það kemur því greinilega fram, að minni hl. nefndarinnar vildi halda höftunum, en bæði minni hl. nefndarinnar og minni hl. þingsins varð að beygja sig fyrir þunganum, sem á móti var, og með því að beygja sig gátu þeir bjargað lögunum frá 8. mars 1920. Jeg hefi viljað taka þetta fram sökum þess, að jeg hafði ekki tækifæri til að segja neitt um þetta mál, þegar það var á ferðinni í þinginu 1921, og sökum þess, að jeg heyri því svo oft haldið fram, að öll nefndin hafi verið með afnámi innflutningshaftanna og viðskiftanefndarinnar, en svo var alls ekki.