01.03.1924
Neðri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í C-deild Alþingistíðinda. (2572)

42. mál, einkasala á áfengi

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg vildi segja örfá orð út af skraddaraþönku m hv. þm. Dala. (BJ). En svo nefnir hann þessar síðustu villukenningar sínar. Hann vill reyna að hafa meira upp úr vínsölunni, með því að hafa hana frjálsa og fá hana í hendur hverjum sem hafa vill. Kalla mætti þetta búhnykk, en varla mundi hann vinsæll, enda hagnaður ríkisins tvísýnn af slíku, og almenningshagur þó enn tvísýnni. Líta auk heldur ýmsir svo á, að einkasalan sje víðtækari en ástæða er til. Líkt má segja um tóbakseinkasöluna, sem hann lagði til að yrði skilin frá landsverslun og lögð niður. Hygg jeg, að fáir fallist á það, að tekjur ríkisins af tóbakssölunni mundu nást með hækkuðum tolli, því hætt er við, að þá ykist launverslun að stórum mun, er tóbakið hækkaði í verði við tollaukann, sem auk þess yrði svo lagt á af kaupmönnum. (MJ: Hvernig er það nú á Austurlandi?) Um það get jeg vísað hv. þm. til veðurskeytanna í dag. Háttv. þm. Dala. lagði ennfremur áherslu á það, að ef frv. þetta næði fram að ganga, myndi eftirlitið verða lakara með lyfjabúðunum. Veit jeg ekki, á hverju þetta er bygt, því eins og allir sjá, er gert ráð fyrir því í frv., að eftirlitsmaður verði áfram við sitt starf. Landstjórninni er sjálfrátt eftir frv. að skipa eftirlitsmann með lyfjabúðum og áfengiskaupum þeirra, en einnig að láta hann leiðbeina um áfengiskaup landsverslunar. Nái breyting þessi fram að ganga, getur eftirlitið orðið greint frá einkasölunni, ef verkast vill, en enganveginn burtu kipt. Annars hygg jeg, að þetta eftirlit lyfjabúða, 1 eða 2 tíma einu sinni á ári, sje fremur þýðingarlítið og ekki margra peninga virði. Reyndar hygg jeg þetta eftirlit best komið hjá landlækni, eins og áður var, eða heilbrigðisráði því, sem kæmi í hans stað, ef embættið legðist niður. Annars sje jeg ekkert á móti því, að eftirlitsmaður vinni tvent í einu: líti eftir lyfjabúðum og útvegi lyf og leiðbeini landsverslun um áfengiskaup. Sje jeg ekki, að með því sje gert neitt lítið úr honum eða að hann þurfi að firtast af því.

Þá voru þessar upplýsingar hv. þm. Dala. um rannsóknarstofu eftirlitsmannsins. Sje hún nauðsynleg vegna eftirlitsins, er sjálfsagt, að henni verði haldið áfram. Enda mun eitthvað líkt hafa verið hjá landlækni, meðan eftirlitið var hjá honum, og mun verða hjá hverjum, sem það hefir með höndum.