01.03.1924
Neðri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í C-deild Alþingistíðinda. (2577)

42. mál, einkasala á áfengi

Magnús Torfason:

Jeg ætla að byrja með því að taka upp orð háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), um að nefndin taki þetta mál til betri meðferðar, því ekki mun af veita. Einnig ætla jeg að taka það fram, þessum sama hv. þm. til íhugununar, að jeg er ánægður yfir því, að hann hefir tekið sinnaskiftum í þessu máli, og að jeg tel hann hafa vaxið af því. En þessar breytingar skilst mjer vera þannig vaxnar, að margt þurfi fleira athugunar við en sameining verslananna. Yfirleitt hefir áfengisverslunin og ráðstafanir, sem gerðar hafa verið henni viðvíkjandi, verið talsvert athugaverðar, en þar sem jeg býst við, að frv. verði vísað til nefndar og jeg geri ekki ráð fyrir að eiga sæti í þeirri nefnd, þykir mjer rjett að taka fram nokkur atriði nefndinni til íhugunar.

Að því er þetta mál snertir, verð jeg að minna á lög frá 4. apríl 1923, um undanþágu frá lögum frá 1917, um bann gegn áfengi; voru þetta ekki fyrstu lögin, sem gefin voru út um þetta efni, heldur lög frá 31. maí 1922, og tilskipun gefin út sama dag. Þau lög áttu ekki að gilda lengur en til næsta Alþingis, og fjellu þau þá niður að sjálfsögðu og þar með tilskipunin, sem gefin var út samkvæmt þessum lögum, og þá vitanlega reglugerð, sem bygð var á þessari tilskipun. Nú hefi jeg ekki við lauslega athugun getað orðið var við, að nokkur reglugerð, gefin út eftir lögunum frá 4. apríl 1923, hafi verið samin. Spyr jeg því hjer með hæstv. forsrh. (SE) um, hvort slík reglugerð hafi verið sett. — Nú þar sem jeg fæ ekki svar um þetta, verð jeg að ganga út frá, að svo sje ekki, og ef svo er, að engin reglugerð sje til, er ekkert til, sem lagagildi hefir um þetta. Nú skal jeg ekki fara lengra út í þessar sakir, en tek það aðeins fram, að jeg tel það hepni, að engin reglugerð er til sem stendur, þar sem jeg álít, að ástæða sje til að breyta ýmsu í gömlu reglugerðinni (frá 18. júlí 1922). Þar er ákveðið, að stofna skuli áfengisverslanir í kaupstöðum, en það álít jeg að fari í bág við lög frá 11. nóv. 1899, um sölu og verslun áfengra drykkja. Samkvæmt þeim lögum, sem ekki hafa verið enn upphafin, hvorki með bannlögunum frá 1909 eða 1917, má hvergi setja á stofn verslun með áfengi, nema leyfi bæjarstjórnar komi til. Get jeg því ekki betur sjeð, en að þetta sje beinlínis brot á 2. gr. þessara laga frá 1899. Enn er í sömu lögum, 7. gr., það ákvæði, að áfengisveitingar mega hvergi eiga sjer stað, nema meirihl. kaupstaðarbúa samþykki þær. Einnig með þessu ákvæði reglugerðarinnar eru nefnd lög brotin. Þegar næsta reglugerð verður samin, þarf að breyta þessu, og því fremur sem jeg tel alls óvíst, að meira muni seljast af víni, þó þessar verslunarholur verði stofnaðar úti um landið. Það má haga því svo til, að menn kaupi vínin samt. Það hlýtur að leggjast talsverður óþarfakostnaður á þessar vínverslunarholur eða milliliði og gerir það að verkum, að vínin verða of dýr, en almenningur vill ávalt fá dropann sem ódýrastan. Það er algilt lögmál, að því ódýrari sem dropinn er, þess meira er drukkið.

Annað atriði, sem jeg álít sje óþarft, er seðlaríið. Jeg álít þessa seðlaútgáfu algerlega óþarfa, en til mikils kostnaðarauka og fyrirhafnar. Það er enginn vafi á því, að mikið af hinum alóþarfa kostnaði, sem hefir orðið við vínverslunina, stafar frá seðlunum. Á þessa seðla eiga menn að rita skriflega yfirlýsingu, að viðlögðum drengskap, um að viðkomandi kaupi vínin aðeins til eigin neyslu. Jeg álít þetta fyrirkomulag alveg óþarft. Það er þarfleysa að láta menn gefa drengskaparyfirlýsingar að nauðsynjalausu. Það mun vera svo, að þeir, sem vandari eru að virðingu sinni, fái aðra til að fara fyrir sig til áfengiskaupanna, af því þeir vilja ekki undirrita vottorðið. Er auðvelt að fá nóga menn af götunni fyrir lítið verð til þessara hluta. Jeg er þessu máli hvergi gerkunnugri en í Árnessýslu; þangað voru sendir yfir 3 þús. seðlar, til þess að allir gætu fengið, sem hafa vildu, nema ef vera skyldi örvasa gamalmenni og hvítvoðungar. Jeg sendi dálítið af þessum seðlum út um hjeruð, en nú nýlega hefi jeg fengið vitneskju um, að enginn maður úr Árnessýslu hafi beðið um þessa vínseðla. Þó mun enginn vafi á því, að talsvert af vínum hefir komist austur þangað. Á þessu er illmögulegt fyrir lögreglustjóra að hafa gát. Menn geta hafa skrifað undir þessar yfirlýsingar hjer syðra, og yfir höfuð er á ýmsa vegu hægt að fara í kringum þetta. Það er því augljóst, að seðlar þessir hafa alls ekki náð tilgangi sínum. Þetta heit er líka tilgangslaust. Sje framið brot á áfengislögunum, þá á að hegna fyrir það, og þar sem það eykur ekkert á hegninguna, þótt drengskaparheiti hafi verið traðkað, hafa seðlarnir alls enga þýðingu. Sje seðlaríinu slept, verður og óþarfi að hafa vínsölu annarsstaðar en í Reykjavík. Er jeg sannfærður um, að ekki mundi verða minna keypt fyrir þá sök, áfengið ódýrara og meiri hagnaður af versluninni.

Þá er annað ákvæði í þessari reglugerð, sem jeg tel einskisvert. Í 7. gr. er svo kveðið á, að enginn megi kaupa meira en 10 lítra á mánuði; menn fara í kringum þetta eins og þeir ætla sjer. Það eru tiltölulega fáir menn, sem kaupa vín að staðaldri, svo það er altaf hægt að fá nóga til þess að kaupa fyrir sig, en ákvæðið getur orðið til þess, að menn úti um land geta síður pantað vín frá Reykjavík. Upphaflegum tilgangi sínum getur það aftur á móti ekki náð. Það var þetta, sem jeg vildi sjerstaklega benda hv. nefnd á að taka til rækilegrar athugunar; og þó sjerstaklega það, að gömul og góð landslög sjeu ekki brotin að óþörfu.