28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í C-deild Alþingistíðinda. (2590)

42. mál, einkasala á áfengi

Sveinn Ólafsson:

Jeg verð að segja það, að mjer þykir hv. fjhn. hafa legið lengi á frv. þessu. Er nú komið fast að þinglausnum og um það 6 vikur frá framkomu frv., svo að mjer finst hæpið, að þetta frv. geti orðið afgreitt, og það því fremur sem nefndin er þríklofin og fylgist ekki að um að koma því fram. En þar sem mjer finst þó ekki vonlaust um framgang málsins, vil jeg styðja að því, að það fái sem fljótasta afgreiðslu og komist verði að einhverri skynsamlegri niðurstöðu um það hjer í hv. deild. Verð jeg að halda fram frv. óbreyttu, eins og við flm. þess gengum frá því.

Þar sem 1. og 2. hl. nefndarinnar leggja til, að breytingar verði á frv. gerðar, má telja tvísýnu á því, að það verði afgreitt, og sje jeg mjer ekki fært að ganga að neinu leyti að till. þeirra eða styðja þá hluta. 3. hl. nefndarinnar er mjer sammála um frv., og honum hlýt jeg að fylgja.

Jeg þarf annars ekki að svara háttv. frsm. 1. hl. (ÁF) miklu, því að hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir tekið það ómak að mestu leyti af mjer. En jeg verð þó að benda á það, að í áliti þessa nefndarhluta er ein alveg röng fullyrðing, sem nefndin síðan byggir á og ályktar eftir. Er það þar, sem sagt er, að í frv. standi, að setja skuli lyfjafróðan mann forstjóra landsverslunar til aðstoðar um kaup á lyfjum og hjúkrunargögnum. Þetta stendur alls ekki í frv., heldur, að landsstjórnin skuli hafa heimild til að skipa þennan mann. (ÁF: Það er ekki hægt að komast hjá því.) Auðvitað verður ekki hjá því komist, að sjerfróður maður annist þetta, en það gæti alveg eins verið landlæknir eins og sjerstakur lyfjafræðingur. Og það vakti einmitt fyrir okkur flm. frv., að halda opinni leið fyrir stjórnina, ef henni sýndist svo, til að fela landlækni, eða síðar heilbrigðisráði, þetta starf, en leggja niður þetta sjerstaka embætti eftirlitsmannsins.

Hv. 1. nefndarhl. leggur mikla áherslu á það, að forstjóri vinverslunar þurfi að hafa sjerþekkingu um meðferð og sölu vina. Jeg skil það ekki, að mikla sjerþekkingu þurfi til að kaupa inn vín. Og eins og hv. 3. þm. Reykv. tók rjettilega fram, hygg jeg, að núverandi forstjóri vínverslunarinnar hafi alls ekki haft slíka þekkingu, er hann tók við starfi sínu. Þá þekkingu, sem hann hefir í því efni, hefir hann þá fengið af reynslunni, þann tíma, sem hann hefir veitt versluninni forstöðu. Væri skift um forstjóra, mundi eftirkomandi hans standa svipað að vígi og smátt og smátt afla sjer hinnar nauðsynlegu þekkingar. Geri jeg líka ráð fyrir því, að ef það skipulag kæmist á, sem frv. gerir ráð fyrir, þá mundu einhverjir þeir menn, sem nú vinna í vínversluninni, halda sama starfi, og reynsla sú, sem fengin er, því alls ekki glatast, heldur koma að tilætluðum notum í landsversluninni.

Hv. 2. nefndarhl. greinir ekki svo mjög á við mig. En þó hefi jeg tvent að athuga við breytingartillögu hans við 1. gr. Fyrst það, að með henni er gert ráð fyrir, að sjerstakt embætti verði stofnað fyrir mann, sem hafi á hendi innkaup á lyfjum og hjúkrunargögnum, en þar með er lokað þeirri leið, að landlækni, eða heilbrigðisráði, verði falið starfið. Hitt er það, að þessi breyting kemur ekki vel heim við lögin frá 1921 um einkasölu á áfengi. Í brtt. er talað um, að þá er samningur við forstjóra áfengisverslunarinnar sje á enda o. s. frv. En í lögunum er ekki gert ráð fyrir neinum slíkum samningi, og kemur þetta því eins og skrattinn úr sauðarleggnum og styðst ekki við neitt ákvæði laganna að framan. Býst jeg við því, að ef till. yrði samþykt, þá yrði að breyta fyrirsögn frv. og kalla það frv. til laga um breytingu og viðauka við lög o. s. frv.

Annars skal jeg ekki fjölyrða meira um þetta, þar sem hv. 3. þm. Reykv. hefir tekið annað það fram um málið, sem um það þurfti að segja. Og læt jeg hjer við sitja.