19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í C-deild Alþingistíðinda. (2648)

76. mál, bann gegn áfengisauglýsingum

Jón Kjartansson:

Jeg hygg, að hv. flm. (TrÞ) hafi hlotið að misskilja orð mín. Það er enganveginn hugsun mín, að ríkið þyrfti endilega að auglýsa sjálft, heldur muni það vera aðrir, sem senda auglýsingarnar í blöðin. En eins og frv. þetta er orðað, mun fleira en auglýsingar í blöðum ná þar undir, t. d. get jeg hugsað, að vörumerki á flöskum, tilkynningar um vörumerki o. fl. nái þar undir. Annars sýnist mjer eins og hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að þetta sje ákaflega ómerkilegt mál, og þar á ofan algerlega óþarft að setja lög um það, þar sem stjórninni er innan handar að koma í veg fyrir auglýsingarnar með einu litlu viðbótarákvæði í reglugerð, samkv. heimild í lögunum sjálfum, um undanþágu frá bannlögunum.