08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í C-deild Alþingistíðinda. (2674)

30. mál, þingfararkaup alþingismanna

Jón Kjartansson:

Sem aðalflm. þessa máls vil jeg ekki láta hjá líða að greina frá afstöðu minni til þessa máls nú, eftir að það er komið úr nefnd. Skal jeg þá strax lýsa yfir því, að jeg tel mig geta aðhylst 1. hl. nefndarinnar á þskj. 185. Aftur hefir enginn hluti nefndarinnar getað fallist á þá stefnu frv., að fastsetja hámark ferðakostnaðar. Telur öll nefndin heppilegra að fyrirskipa ekkert með lögum um það efni. En eins og jeg lýsti við 1. umr., hefir það stundum viljað brenna við, að ferðakostnaðarreikningar hafa verið of háir, og tel því, að það hefði verið rjett að fastsetja hámark við þá.

Jeg tel 1. hl. nefndarinnar vera sanngjarnastan í till. sínum. Hann vill færa þingfararkaupið niður í hið fyrra horf, en hafa það misjafnt, eftir því, hvort þm. eru búsettir hjer í bæ eða utan. Hygg jeg þetta rjett vera, en láta svo dýrtíðaruppbótina haldast.

Mjög óheppilegar tel jeg till. 2. hl. um þingkaup manna, sem eru á eftirlaunum eða biðlaunum, og ósanngjarnar eru þær, þegar þess er gætt, hve þau laun eru lág hjer á landi. Og illa myndi þetta líka reynast í framkvæmdinni.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) getur sjer þess til, að við flm. viljum með þessu vera að koma okkur í mjúkinn hjá almenningsálitinu. Slíkri aðdróttun þarf jeg í raun og veru ekki að svara. Það vita allir, að nú í þinginu er óvenjumikil alvara í þá átt að takmarka öll útgjöld eins og unt er, og þegar grípa verður til þess að skerða háskóla okkar og hæstarjett, þá getur varla talist viðeigandi að segja um þá menn, sem að þessu standa, að þeir geri það í þeim tilgangi að græða í almenningsálitinu. Hitt tel jeg vafalaust, að þetta þing í heild muni græða í áliti vegna framkomu sinnar í hinum alvarlegu málefnum þjóðarinnar, og er það ekki nema rjett og er góðs viti.

Vona jeg svo, að ekki þurfi langar umræður um málið úr því sem komið er, og vænti jeg, að hv. þm. sjeu tilbúnir að greiða atkvæði.